Tillögur /

Ægisíða

Þróun lóðar við Ægisíðu 102 /

Hér eru kynntar tillögur sem þrjár arkitektastofur lögðu fram í hugmyndaleit Yrkis um þróun lóðar við Ægisíðu 102 í Reykjavík. Áhersla var lögð á útfærslu sem fæli í sér aðlaðandi blöndun af  íbúðabyggð, smærri atvinnurýmum og opnum svæðum sem féllu vel að nærumhverfinu.

Hugmyndirnar hafa verið kynntar skipulagsyfirvöldum í Reykjavík og eru nú aðgengilegar öllum. Að loknu samráðsferli og yfirferð ábendinga verður ein tillaga valin til að þróa áfram.

Þróun Ægisíðu 102

Í erindisbréfi samninganefndar Reykjavíkurborgar vegna viðræðna við rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðvalóða í Reykjavík kemur fram að borgin setji í forgang að fækka bensínstöðvum í eða nálægt þéttum íbúðarbyggðum í borgarlandinu. Bensínstöð N1 við Ægisíðu 102 er ein þeirra bensínstöðva.

Í viðræðum við Yrkir, sem er fasteignafélag í eigu eiganda lóðarinnar að Ægisíðu 102, óskaði Reykjavíkurborg eftir því að lóðareigandi þróaði eigin hugmyndir um framtíðarhlutverk og skipulag lóðarinnar. Kom þar jafnframt fram sú áhersla borgarinnar að hugmyndirnar skyldu taka mið af markmiði um „þétta og góða borgarbyggð“.


Hugmyndaleit

Að lokinni ítarlegri greiningu ákváðu Yrkir að efna til hugmyndaleitar meðal arkitekta með forsögn, þar sem verkefnið er útskýrt. Ástæða þess að þessi leið varð fyrir valinu er sú að mikil umræða á sér stað í nærsamfélaginu um framtíð lóðarinnar þar sem ýmsar hugmyndir hafa komið fram.

Í áðurnefndri forsögn var m.a. lögð áhersla á að hugmyndirnar yrðu í samræmi við áherslur sem fram koma í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Að auki var áhersla lögð á að hugmyndir fælu í sér góðan arkitektúr, aðlaðandi íbúðabyggð, sem falli vel að umhverfi sínu og sýni nærgætni við nærliggjandi íbúðabyggð.


Áhersla á aðlaðandi íbúðabyggð

Mikilvægt er í verkefni sem þessu að afraksturinn verði góður arkitektúr sem falli vel að umhverfi sínu. Óskað var eftir við þátttakendur að tillögur þeirra sýni hönnun og útfærslu bygginga á lóð og samspil þeirra við nærumhverfi, blöndun íbúða og atvinnurýma, stærðir húsa, húsagerðir, efnisval, opin svæði og aðkomu. Jafnframt afmörkun íbúða og mögulegra atvinnurýma, stærð þeirra og fjölda, ásamt fyrirkomulagi á lóð með dvalarsvæðum, gróðursvæðum, bíla- og hjólastæðum. Markmiðið með því er að skapa grundvöll fyrir samtal um áherslur í borgarþróun milli allra aðila máls; íbúa, lóðarhafa og Reykjavíkurborgar sem jafnframt taka mið af áformum Aðalskipulags Reykjavikur 2010- 2040 (AR2040) um þéttingu byggðar.


Virk tengsl milli hverfa og hverfahluta

Vel heppnuð þétting er þar sem ólíkir tímar mætast í einu og sama hverfinu, þar sem tekið er tillit til umhverfis og nærgætni sýnd aðliggjandi byggð. Þéttingin þarf að skapa virk tengsl milli hverfa og hverfahluta, hún þarf að auka virkni og fagurfræði borgarumhverfisins, skapa þéttleika íbúðabyggðar, þjónustu og vinnustaða og þar með gera umhverfið sjálfbærara. Með virku og vel hönnuðu umhverfi er þetta hægt en vandvirkni er þar mikilvæg. Aðrir þættir eins og viðeigandi byggingarhæðir, opin rými, jaðrar bygginga og gönguvæni umhverfisins eru einnig mikilvægir til að fá fram gæði í þéttingu byggðar.


Þrjár arkitektasofur valdar til þátttöku

Valdar voru þrjár arkitektastofur til þátttöku, Gríma arkitektar, Sei studio og Trípólí arkitektar. Forsögn þátttakenda tók mið af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2040 sem er í gildi fyrir lóðina og svæðið um kring. Hugmyndaleitin er til þess gerð að velja megi eina tillögu til áframhaldandi þróunar í framhaldi af samtali við skipulagsyfirvöld og nærsamfélagið. Val á tillögu mun liggja fyrir á næstunni.

Þátttakendur hafa skilað af sér þeirri afurð sem óskað var eftir af hálfu lóðareiganda við upphaf hugmyndaleitarinnar. Þessar þrjár tillögur eru nú kynntar hér til að hægt sé að koma á framfæri ábendingum tillögunum til framdráttar til að lóðarhafi geti nýtt þær við þá vinnu sem framundan er.

Gríma arkitektar