yrkir titill svhv2019.

Gyrðir Elíasson, umfjöllun í Glettingi um ljóðabók

Glettingur, 2010

Umfjöllun um ljóðabókina Nokkur almenn orð um kulnun sólar. Ljóð.
Gyrðir Elíasson, 2009.

Útgefandi er Uppheimar, Akranesi.
Hönnun kápu annaðist Aðalsteinn S. Sigfússon og kápumynd vann Rökkvi Sigurlaugsson.


Gyrðir Elíasson er sonur Elíasar B. Halldórssonar listmálara frá Snotrunesi og á frændgarð skálda og listamanna jafnt á Austurlandi sem annars staðar á landinu. Gyrðir, búsettur í Reykjavík, hefur alltaf tengst Borgarfirði eystri sterkum böndum, líkt og flestir sem þaðan eru sprottnir.

Þrettánda ljóðabók Gyrðis, Nokkur almenn orð um kulnun sólar, kom út í október 2009 og var sökum mikillar sölu fyrir jólin endurprentuð strax í desember sama ár. Gyrðir hefur frá upphafi vakið athygli með skrifum sínum, enda kann hann þá list að ná utan um mikla atburði sem við fyrstu sýn kunna að teljast óverulegir. Hann á sér rödd sem án upphrópana lýsir með kyrrlátum og háttvísum hætti þúfunni sem veltir því þunga hlassi. Kyrrð og háttvísi kemur þó ekki í veg fyrir að rödd skáldsins er skýr og oft mjög eftirminnileg. Tákn og tilvísanir í íslenska verund og náttúru eiga sér víða stað og óhætt er að segja að Gyrðir er eitt okkar ,,íslenskasta“ skáld nú um stundir þó hann rói einnig á alþjóðleg mið. Íslendingum virðist almennt þykja vænt um skáldskap Gyrðis og fylgjast með honum. Gyrðir segist aðspurður ekki koma með nýja bók í ár, en hann vinni nú að ljóðahandriti og ljóðaþýðingum sem trúlega verði gefið út á næsta ári.

Í Nokkur almenn orð um kulnun sólar er að finna 91 ljóð. Langflest eru þau stuttar myndir, oft á tíðum blökk og gefa í skyn skuggalega niðurstöðu. Fyrstu áhrif bókarinnar eru sterkar tilfinningar, umlykjandi þyngslum er mætt með ofurfínlegri kímni eða hráslagalegri hæðni. Gler, vötn, hnífar, dauði, haust, speglanir, líkkistur og kirkjugarðar, fánýti, kulnaðir draumar og brostnar vonir koma víða fyrir og lesandi gæti ímyndað sér að oft sé verið að vísa í heimsfrægt hnig hinnar íslensku ofurþjóðar, sem enn virðist yfirstandandi. En í bókinni er einnig maður á ferð um hrjóstrugt landslag í fleiri en einum skilningi og hann á sér nokkra von þrátt fyrir kræklóttar krumlur tíma og rúms.

Skáldið vaknar af þungum draumi í tjaldi við Drekagil og segist vakna inn í annan draum enn þyngri; nefnilega lífið sjálft. Sá sem stokkið hafði fram af klettbrún Arnarstapa sé enn á leiðinni niður. Þegar myrkrið andar á glerið / þegar köld hönd strýkur ennið / þegar ljósið kviknar ekki.
Sjúkrabíl er ekið á milli leiða eins og enn væri hægt að bjarga einhverjum. Samt segir skáldið að lífið haldi áfram undir ísnum þegar vötnin leggi, þó flestir haldi að ekkert líf sé þar lengur.

Þegar þú komst, og rödd þín barst mér / gegnum svefninn, hélt ég að dauðinn væri / kominn, og þetta væri sefandi rödd hans / að leiða mig yfir á lendur sem enginn sér / nema einusinni / / En þetta reyndist vera lífið, dulbúið / þínum milda rómi, að kalla mig upp / úr myrkri, upp úr ótímabærum / dauða / / Mér fannst ég vera á skipi, / á langsiglingu inn í þungan /draum, og ég vaknaði með / niðurbældu ópi líkt og allt / væri búið, / þú værir ekki.

Gyrðir skrifar að það vanti ,,handbremsu / á tímann, svo hann / hætti að renna svona / niður brekkuna / að svarta vatninu. Hann segir borgina sofa við hafið og að hún sofi við ljós.

Annar dauður smáfugl / á göngustíg, í þetta sinn / hér á heiðinni, gróf hann / undir steini sem haust- / vindurinn á eftir að / letra á: / / HÉR HVÍLIR RÖDD / ALLRA TÍMA.

Vængir ljóðanna eru örfínir silkiþræðir glettninnar og mýktarinnar, svo fagurlega spunnir að sá lesandi er hér párar brosti tíðum út í loftið yfir lestrinum, þrátt fyrir þá örmögnunarkennd sem hjúpar flest ljóðanna.
Alveg himeskt / hérna við vatnið / í kvöldsólinni og logninu; / vantar bara Jesú og hina / með bátinn og netið / / En hér er öll / netaveiði bönnuð.

(og)

Þar sem áin rennur / í bugðu, hefur verið / komið fyrir bekk / á grösugum bakka / og gamlir menn / sitja þar með / veiðistangir / og dorga / / Ég er fiskur / í ánni, og / horfi upp / til þeirra, / en önglana / snerti ég / aldrei.

Í bókinni er ,,Samfélagslegt ljóð“, fyrir Dag Sigurðarson og Gyrðir sýnir þar tennurnar eins og víðar: Frelsi lýðræðisríkjanna / er eftirfarandi í reynd: / ,,Lögregla beitti táragasi / gegn mótmælendum“

(og)

Í ljóðinu Fagnarefni fyrir ritstjóra orðabóka: Orðið lífsbarátta / hefur aftur / fengið merkingu.

Ljóð Gyrðis orka á mig sem kvikir fiskar eða fínleg fiðrildi sem smeygja sér undurhratt og lipurlega milli orða, merkinga og gamalla og nýrra minna. Ljóðin hans eru svolítið eins og bláemileruð og dælduð kaffikanna Guðrúnar frá Lundi, sem geymir kaffisopa allra tíma. Þau fara hljóðlega um en rata til sinna. Ljóð Gyrðis geyma í sér litföróttan hvunndaginn uns allt um þrýtur.

Framtíðarsýn

Myrkrið leggst að
glugganum. Ég sé
fjaðurham þess í 
lampaglætunni,
hvernig hann 
gljáir kolsvartur.
Ein svört fjöður
berst inn um opna
fagið með golunni.
Ég dýfi henni í
blekbyttuna og
skrifa nokkur orð
um sólina, nokkur
almenn orð um
kulnun sólar.

 

Útgefin rit Gyrðis Elíassonar

Ljóð:
Svarthvít axlabönd, 1983.
Tvíbreitt (svig)rúm, 1984.
Einskonar höfuð lausn, 1985.
Bakvið maríuglerið, 1985.
Blindfugl / svartflug 1986.
Haugrof (endurútg.) 1987.
Tvö tungl, 1989.
Vetraráform um sumarferðalag, 1991.
Mold í skuggadal, 1992.
Indíánasumar, 1996.
Hugarfjallið, 1999.
Tvífundnaland, 2003.
Upplitað myrkur, 2005.
Nokkur almenn orð um kulnun sólar, 2009.

Skáldsögur:
Gangandi íkorni, 1987.
Svefnhjólið, 1990.
Næturluktin, 2001.
Hótelsumar, 2003.
Sandárbókin, 2007.

Smásögur:
Bréfbátarigningin, 1988.
Heykvísl og gúmmískór, 1991.
Tregahornið, 1993.
Kvöld í ljósturninum, 1995.
Vatnsfólkið, 1997.
Trésmíði í eilífðinni (endurútg.) 1998.
Gula húsið, 2000.
Steintré, 2005.
Milli trjánna, 2009.

Ljóðaþýðingar:
Að snúa aftur, 2000.
Flautuleikur álengdar, 2008.

Greinar:
Undir leslampa, 2000.

Þýðingar:
Richard Brautigan: Svo berist ekki burt með vindum, 1989.
Richard Brautigan: Vatnsmelónusykur, 1991.
Richard Brautigan: Silungsveiði í Ameríku, 1992.
Velma Wallis: Tvær gamlar konur, 1993.
Jim Heynen: Litla skólahúsið, 1995.
William Saroyan: Ég heiti Aram, 1997.
Velma Wallis: Fuglastúlka og maðurinn sem elti sólina, 1997.
Forrest Carter: Uppvöxtur Litla trés, 1999.
Anwar Accawi: Drengurinn í Mánaturni, 2001.
Jay Parini: Endastöðin, 2002.
Isaac Bashevis Singer: Sögumaðurinn Naftalí og hesturinn hans, 2003.
William Saroyan: Geðbilun í ættinni, 2004.
Natalie Babbitt: Fólkið sem gat ekki dáið, 2005.
Richard Brautigan: Ógæfusama konan, 2006.