yrkir titill svhv2019.

Pétur Sigurðsson (1888-1955) - Austurgluggi jólablað 2020

 

Hjartarstaðir árið 1900
Svipur í glugga

 

Í vetrarbyrjun var ég að sýsla með pappíra sem móðir mín, Ragnhildur Pétursdóttir, skildi eftir sig þegar hún lést. Þar á meðal er handskrifað bréf, skrifað nettri rithönd Péturs Sigurðssonar móðurafa míns, með ritblýi á þunnan pappír. Inniheldur það merkilega lýsingu hans á því þegar hann ungur drengur sá svip, eða draug, heima hjá sér á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá. Því miður lést afi minn ellefu árum áður en ég fæddist svo ég átti þess ekki kost að kynnast honum. Mér hefur þó skilist að hann hafi verið góður og gegn maður eins og hann átti kyn til. Hann mun að loknu búfræðinámi hafa kennt bændum á Héraði jarðvegsbætur og hlaut viðurnefnið Pétur plógur þar um slóðir. Mér fannst því við hæfi að hafa standandi gamlan plóg í garði mínum drjúgan hluta af þeim rúmu tveimur áratugum sem ég bjó á Héraði, í minningu hans.
Í því ljósi að afi minn þótti jarðbundinn maður og lítt gefinn fyrir hindurvitni, þykir mér lýsing hans á því er hann sá svipinn eða drauginn áhugaverð og eitthvað hefur knúið hann til að festa atvikið síðar á blað til varðveislu. Frásögnin er hér nákvæmlega uppskrifuð eftir bréfinu.

Við Faxaflóa í byrjun aðventu 2020,
Steinunn Ásmundsdóttir

 . . .

Laust eftir aldamótin 1900 var ég látinn vaka yfir túni að vorlagi, var nýlega búið að hreinsa túnið, og var það því varið fyrir ágangi kvikfénaðar nótt og dag.
Ég var þá 11 eða tólf ára. Það var venja mín þegar fólkið fór að hátta og sofa, að fara út og smala bæði fé og hrossum það langt í burtu frá Túninu að ekki þyrfti að búast við því aftur fyr en eftir lágnættishvíldina, en eftir því hafði ég tekið að sauðfé lagðist úti í haganum og líklega svaf frá því laust fyrir lágnætti og til kl. á öðrum hring.
Nú var það eina nótt að ég hafði smalað frá Túninu og var á heimleið. Lág leið mín yfir svokallaða fyt – en það var mýrarstykki nokkurt innan Túns í hálfri rækt, og lág hún alveg upp að hlaðvarpa. Þegar ég kom í hlaðvarpan beint á móti bæjardyrum sá ég andlit á manni er horfði á móti mér í bæjardyralofts glugga, vissi eg að þetta var ekki neinn af heimamönnum, því þeir voru allir gengnir til náða í baðstofu þegar ég fór út og einskis manns von var á þessu lofti, enda þekkti ég nú þetta andlit, en það var af unglingsdreng er hafði drukknað sumarið næsta á undan í á er rann ekki langt frá bænum. Lík þessa pilts hafði verið flutt heim og látið standa uppi á þessu dyralofti þar til hafði verið smíðað utan um það og það jarðað.
Ég stjaldraði dálítið við og horfði á sýn þessa og er hún hvarf mér ekki, þá varð ég hræddur og flúði frá bænum og var minnstakosti í kortersgangs fjarlægð frá Túninu það sem eftir var nætur og þar til að ég sá rjúka upp úr eldhússtrompi og þóttist þá vita að eldastúlka væri komin til morgunverka. Gætti ég þá verks míns sem bezt að ekki kæmist fé í Túnið.
Seinnipart næsta dag eða eftir að ég hafði sofið, var ég lasinn, og lagðist með óráði næstu nótt í lungnabólgu og lág fullar þrjár vikur.
Aldrei heyrði ég getið um að neinn sæi veru þessa nema eg.
                                                                                                                                 Pétur Sigurðsson.

 . . .

 

PeturSigurdssonPétur Sigurðsson fæddist á Hjartarstöðum í Eiðþinghá 1888. Foreldrar hans voru þau Ragnhildur Einarsdóttir frá Hafursá á Völlum og Sigurður Magnússon frá Snjóholti. Þau keyptu Hjartarstaði árið 1884 og fluttu þangað úr Mýnesi. Pétur ólst upp á Hjartarstöðum, varð búfræðingur frá Hvanneyri og stundaði síðan nám um tveggja ára skeið við Frederiksborgar-lýðháskólann í Danmörku og sótti einnig fyrirlestra um búfræði í Askov. Eftir heimkomuna réðst hann til Búnaðarsambands Austurlands og fór víða um Hérað að kenna bændum jarðvegsbætur og flutti erindi um búnaðarhætti og fleira. Einnig stundaði hann barnakennslu á vetrum.
Árið 1917 kvæntist Pétur Guðlaugu Sigmundsdóttur frá Gunnhildargerði í Hróarstungu (f. 1895, d. 1988). Þau bjuggu fyrsta veturinn í Gunnhildargerði en hófu síðan búskap að Hallfreðarstöðum í Tungu þar sem þau voru í tvö ár. Næstu tvö árin bjuggu þau á Litla-Steinsvaði í sömu sveit. Þá fluttu þau að Hjaltastað í Hjaltastaðarþinghá og bjuggu þar næstu sex árin þar til jörðin var gerð að læknissetri svo þau urðu að flytjast þaðan. (Móðir greinarhöfundar, Ragnhildur Pétursdóttir fæddist á Hjaltastað 1922 og lést á Seyðisfirði 2012). Frá Hjaltastað fluttist fjölskyldan svo að Vattarnesi í Fáskrúðsfirði og bjuggu þar góðu búi árin 1928 til 1933, uns þau fluttu suður til Reykjavíkur vegna heilsubrests Péturs. Hann vann þó á sumrin sem vegavinnuverkstjóri hjá Vegagerð ríkisins á ýmsum stöðum á landinu. Síðar vann hann hjá Flugfélagi Íslands um nokkurra ára bil. Guðlaug og Pétur eignuðust átta börn, sem nú eru öll látin, síðust Bryndís Pétursdóttir leikkona sl. haust, yngst systkina sinna, fædd á Vattarnesi. Pétur lést árið 1955 eftir margra ára baráttu við Parkinsonsjúkdóminn.

Heimild: Gunnhildargerðisætt, Niðjatal Sigmundar Jónssonar og Guðrúnar Ingibjargar Sigfúsdóttur, Sögusteinn, 1985.