yrkir titill svhv2019.

Hólmfríður Gísladóttir - minning

F. 13.01.1959 - d. 22.11.2017.

Hvernig getur staðið á því að ég var svona viss um að ég myndi alltaf hafa Hólmfríði Gísladóttur í lífi mínu? Að þessi vinkona mín yrði alla tíð einhvers konar föst stærð í tilverunni? Kannski af því að ég var bara til í 12 ár áður en ég kynntist henni og hin árin 39 hefur hún verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu. Órjúfanlegur og mjög stór hluti af því. Alltaf mjög nálæg, jafnvel þegar hún var fjarri. Alltaf tilbúin til að leggja allt frá sér til að rétta hjálparhönd eða hlusta, skæla eða hlæja með mér. Og nú er hún ekki lengur hér, ekki lengur í lífum okkar og það er óvænt og gríðarlegt áfall.

Hólmfríður var þess háttar manneskja sem skilur eftir sig spor í okkur hinum. Stór karakter, greind og athugul, þoldi illa hálfkák, var alltaf hreinlynd í garð fólks og hataðist við allt undirferli. Hún var einn minn magnaðasti vinur og er þó af umtalsverðu þar að taka. Óhrædd við að taka mig upp á eyrunum og segja mér til syndanna hvenær sem henni þótti þörf á að rétta hjá mér kúrsinn öll árin 39, en líka sú manneskja sem deildi af algerlega fölskvalausri einlægni með mér sorgum og gleði. Það var sérlega gott að hlæja með henni því hún gat verið alveg meinfyndin þegar sá gállinn var á henni.

Það er langur vegur að baki. Ég trítlaði rétt komin af unglingsaldri á eftir henni gegnum Þjóðleikhúskjallarann og Óðal ásamt Tobbu, sem var að Hólmfríði undanskilinni með fallegustu augu í heimi, aðeins eldri inn og út af Laugavegi 22 þar sem stundum urðu Ballantínsk upphlaup en var oftar gaman, þegar fram liðu stundir um myndlistar- og tónleikasali, um vegi sambands við Önnu og svo sorgarinnar þegar hún horfði á eftir kærum vinum sínum Tobbu og Kjartani, Róró, Sísí, Hrefnu og fleiri góðum frænkum, föður sínum og nú síðast móður, því mikla sómafólki. Ég fylgdist með henni berjast fyrir lífi sínu sem samkynhneigðri, bæði í fjölskyldu sinni og á vinnustað og alltaf vann hún persónulega sigra á grundvelli mannkosta sinna, hreinskiptni og seiglu. Við ferðuðumst nokkrum sinnum saman um landið og hún var fróð um bæði sögu og náttúru og hafði af henni unun. Við töluðum um bókmenntir, ljóðin og sögurnar sem við þráðum sjálfar að skrifa. Hún sagði mér af foreldrum sínum og bræðrum, mágkonum, frændum og frænkum, vinum, vinnufélögum og stundum var allt þetta fólk eins og viðstatt þó við værum einar á tali í þokunni af grænum Salem. Yfirleitt var Hólmfríður hugrökk, stundum beygð og hissa á þvergirðingshætti samborgara sinna en alveg eins og hún sýndi því fólki virðingu sem hún taldi slíkt eiga skilið, þá krafðist hún líka heiðarleika og sanngirni sjálfri sér til handa og eyddi ekki púðri í þá sem ekki komust undir þann hatt. Hún var lítið fyrir kjaftæði.

Svo kom Kristín Erla Boland okkar til sögunnar og þá var lífsförunauturinn fundinn. Hóffí lét af einlífi sínu og sneri sér heil og óskipt að þeirri vegferð sem átti eftir að skipta hana mestu máli í lífinu. Þó Kristínu hefði áður brugðið fyrir á síðum lífsbókarinnar, sáust þær einn góðan veðurdag á nýjan hátt og rugluðu í kjölfarið reitum og eignuðust svo dugnaðardrenginn sinn fallega og góða, Eldar Hrafn, sem er guðsonur þeirrar er þetta ritar. Hóffí og Kristín voru sérlega flott par, ákveðnar og samhentar, duglegar að vinna með það sem á bjátaði í lífsins ólgusjó, ötulir og elskuríkir foreldrar og vandaðar manneskjur, sem löðuðu að sér gott alvörufólk sem hafði eitthvað til málanna að leggja. Meira að segja hundarnir þeirra Bjartur, Máni og nú síðast Lexus, urðu persónulegir vinir manns og yndælastir allra hunda á jarðarríki.
39 ára samferð og þessi kjarnmikla manneskja og trausti vinur er nú á bak og burt. En alveg eins og menn og málefni nútíðar og fortíðar urðu Hólmfríði lifandi umhugsunar- og frásagnarefni, verður minning hennar kjarnmikil og lifandi og sögur af henni sjálfri munu verða sagðar og bera vitni um hversu djúp spor hún skilur eftir sig í lífum okkar sem syrgjum hana nú. Á einhvern hátt sem við skiljum sem þekktum hana, mun enginn nokkru sinni komast með tærnar þar sem hún hafði hælana.
Elsku Kristín og Eldar, Hrafnkell, Ástþór, vandamenn allir og vinir; megi allar góðar vættir styrkja ykkur og styðja.