yrkir titill svhv2019.

Rós Pétursdóttir - minning

Rós Pétursdóttir
F. 06.06.1925 - d. 30.05.2017

Aldnir útverðir veraldar minnar falla einn af öðrum. Þeir hafa verið merkisberar stórfjölskyldunnar og mér leiðarhnoða um lífsvegi. Rós Pétursdóttir móðursystir mín, sem andaðist 30. maí sl., var einn þessara útvarða og er nú skarð fyrir skildi.
Mér þótti Rós vera myndugur og stór persónuleiki, en um leið gædd þeim hæfileika að skelfa ekki eða hrella á nokkurn hátt, heldur bauð hún þvert á móti inngöngu í sitt víðfeðma andrými þar sem hreinskiptni og velvild ríktu, auk fulls jarðsambands. Þá var ákaflega gott og heilsubætandi að hlæja með henni og húmorinn gat hvort tveggja verið laufléttur eða sótsvartur og beittur. Maður var eins og nýhreinsaður og lukkulegur eftir að hlæja með henni.

Ræði ég við börnin mín um æðruleysi hef ég tekið Rós sem gott dæmi þar um. Hún var ein af örfáum manneskjum sem ég heyrði aldrei harma hlutinn sinn og má það teljast merki um mikinn innri styrk, því hún átti sitt andstreymi og síst minna en annarra.

Það var gott að þekkja og þykja vænt um Rós frænku og fá hennar hjartanlegu móttökur og einlægan áhuga á högum manns og hugsunum. Hún var eins og fólk á að vera.

Snorri Hjartarson sagði í ljóði sínu Ferð: „En handan við fjöllin og handan við áttirnar og nóttina rís turn ljóssins þar sem tíminn sefur. Inn í frið hans og draum er förinni heitið.“ Veri hún frænka mín kært kvödd á eilífðarinnar vegi.
Ég votta fjölskyldunni einlæga samúð.