yrkir titill svhv2019.

Ægir Steinn Sveinþórsson - minning

F. 25.07.1964, d. 17. apríl 2017

Sumt fólk spannar alla ævi manns og svo var um Ægi Stein frænda minn í mínu lífi.
Við systkinabörnin ólumst upp á sama sporbaug, þó ekki í sama húsi heldur deildum við bróður, sem tengdi fjölskyldur okkar sterkum og stundum erfiðum böndum. Við hrærðumst í umhverfi þar sem fólkið var magnað vestfirskum kröftum greindar, dugnaðar og æðruleysis, þó dyntir tilverunnar lékju það iðulega heldur grátt og gat þá hrikt í stoðum.

Þegar ég hugsa um þennan frænda minn, sem ég hafði alla tíð svo miklar mætur á, man ég alltaf fyrst eftir brosinu hans. Hann hafði þetta skínandi og svolítið hrekkjalómslega bros sem náði til augnanna og lýsti upp heilu vistarverurnar, samt alltaf dálítil spurning í því og varkárni líka, eins og hann treysti heiminum ekki fyllilega.
Við vorum bæði fremur baldnir unglingar og hann tók sjö mílna stígvélin fljótlega til kostanna og sigldi um heimsins höf, meðan ég þvældist um útlensk þurrlendi. Útþrá, ókyrrð og visst óþol fyrir kringumstæðunum heima fyrir gerðu okkur bæði að einhverslags útlögum um skeið, þangað til við fundum hvort um sig fjölina okkar sem fullorðnar manneskjur. Þá hafði leiðir skilið fyrir löngu og ég fylgdist með úr fjarlægð hvernig Ægir frændi fann ástina sína, sem öllum bar saman um að væri dýrindismanneskja og þau eignuðust svo tvær efnilegar dætur sem virðast ætla bera mikla mannkosti foreldra sinna áfram út í veröldina.

Engin orð ná yfir hryggð okkar. Góður drengur er fallinn í valinn og minning hans verður skær.
Megi allar góðar vættir vaka yfir og styrkja ykkur sem eftir standið.