yrkir titill svhv2019.

Geirmundur Þorsteinsson - minning

F. 23. apríl 1932, d. 17. október 2011


Geirmundur stendur við garða í fjárhúsi sínu á Sandbrekku að vori, samanrekinn og stuttur til hnésins, með kerksnisglampa í kvikum augum og bláa kollhúfu. Hann treður í pípuna og horfir yfir fjárhópinn. Samofinn umhverfi sínu eftir áratuga íhygli, eitt með hjartslætti hinnar íslensku sveitar þar sem skiptast á skin og skúrir, sigrar og ósigrar, kliður og kyrrð.

(...)

Keikur á hestbaki klifrandi brött einstigin um hamrana upp í undirlendi Dyrfjalla að eltast við útigangsfé, jafn sauðþrátt og sá er, sem etur við það kappi af harðfylgi til að hýsa ódámana fyrir veturinn. Samt ekki laust við að bóndi sé nokkuð hreykinn af því baldna sauðfé, frjálsum öndum sem láta ekki beisla sig í gangvirki samfélagsins heldur kjósa að lifa í jaðrinum, hvað sem tautar og raular.

(...)

Hrútar eltir uppi í skurði og þeim skellt í skottið á túnbílnum. Káta, tíkin sem brosir til þeirra sem eiga slíkt skilið og er húsbóndans kærasti vinur, hleypur á undan heim og skælir sig hofmóðug við mannskapinn í hlaðinu. Geirmundur læst ekki sjá þegar börnin læða til hennar kexi, enda eru þau elsk að honum svo eftir er tekið. Má vera að hann hafi ekki mikinn áhuga á mannfólki almennt, en hann leggur sig eftir ungviðinu og hvað það hugsar og gerir. Og svo auðvitað pólitíkinni. Allt vænt sem vel er grænt. En þó ekki án röklegrar gagnrýni af bestu sort svo langskólagengnir hafa þar ekki roð við.

(...)

Langir vetrar og gnauðar af fjöllum og hafi; ekkert sjónvarpstækjanna virkar að ráði, enda stopulir geislar svona langt út í ystu sveitir þrátt fyrir staðfastar greiðslur afnotagjalda og því eina ráðið að prjóna kynstrin öll af hnausþykkum lopavettlingum til að hlýja góðu fólki um fingur. Nú eða glugga í Sveitir og jarðir í Múlaþingi.

(...)

Uppáhelling og svörtu kaffinu rennt í þykkt glerglas í eldhúsinu á Sandbrekku, tóbak eða brunnin eldspýta í öðru munnvikinu, - kímni í hinu. Sagnaþulurinn gerist fjarrænn á svip, leggur hendur saman líkt og í bæn og greinir frá tófusporum handan við grafreitinn, máríerlum í skemmunni, hvítri stóruglu með vængjasúg vestan við bæinn eða fálka að hrekkja rjúpukarra suður undan fjárhúsunum. Gestirnir hlusta í andakt uns þeir reika út úr reykmettuðu eldhúsinu saddir og sælir af kaffi og kaupfélagsbakkelsi, tilbúnir að fanga með einhverjum hætti undur þessa umhverfis.

(...)

Bóndi stendur við ána og horfir út eftir, til hafs þar sem sjórinn mætir stórfljótum, aldurhniginn og næstum samlitur móanum ef ekki væri fyrir pípuglóðina, köflóttu skyrtuna og bláu kollhúfuna. Kannski er hann að gá til veðurs í Dyrfjöllum handanheima og skyggnast eftir lagðprúðum fjárstofni til að binda trúss sitt við þeim megin.

Far í friði og þökk fyrir að treysta okkur fyrir sýn þinni á fíngerð blæbrigði náttúru og lands.


Geirmundur Þorsteinsson fæddist á Sandbrekku í Hjaltastaðarþinghá 23.4. 1932. Geirmundur lést eftir stutta sjúkdómslegu á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 17. október 2011.
Foreldrar hans voru Ingibjörg Geirmundsdóttir, f. 26.10. 1899, d. 15.2. 1976 og Þorsteinn Sigfússon, f. 29.9. 1898, d. 25.2. 1986. Systkini Geirmundar: Guðný, f. 25.4. 1926, d. 26.11. 1990; Sigfús, f. 20.6. 1927, d. 26.9. 2001; Jóhanna Sigurbjörg, f. 3.5. 1929; Ragnheiður, f. 23.5. 1931; Hreinn, f. 19.5. 1935, d. 22.3. 1959; Valur, f. 19.5. 1935, d. 20.8. 1967; Hjördís, f. 13.2. 1938; Þorsteinn Þráinn, f. 23.7. 1941.
Foreldrar Geirmundar voru bústólpar í sinni sveit og Þorsteinn lengi hreppstjóri, auk þess að gegna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Geirmundur tók við búi foreldra sinna og var dugandi bóndi á Sandbrekku til margra áratuga, með vænan fjárstofn, nautpening og hesta. Hann brá búi fyrir réttu ári vegna heilsubrests og flutti þá í sambýli aldraðra á Egilsstöðum. Hann var ókvæntur og barnlaus.