yrkir titill svhv2019.

Sigurína F. Friðriksdóttir - minning

F. 22. desember 1922, d. 22.08.2010

Fíngerð kona með bros sem lýsti ekki einasta af andlitinu heldur fasinu öllu, hlátur, glaðlyndi, kærleikur og jákvæð sýn á lífið og samferðamennina. Þannig minnist ég Ínu, sem ég komst raunar seint og um síðir að raun um að hét Sigurína Friðriksdóttir og var ættuð úr Vestmannaeyjum. En svoleiðis skiptir engu máli þegar maður er fimm ára og að farast úr monti yfir því að Haukur bróðir manns hefur fundið sér fallegustu og bestu konu í heimi, hana Ástu, og ætlar að kvænast henni. Ína og Markús Hörður Guðjónsson, foreldrar Ástu, voru afbragðsfólk bæði tvö eins og allt þeirra kyn og umvöfðu mig og foreldra okkar Hauks kærleika og yndislega hressandi glettni. Ekki er örgrannt um að Hauk bróður mínum, blessuð sé minning hans, hafi litið á þau sem foreldra sína og velgjörðarmenn ekki síður en okkar eigin foreldra og er þó á engan hallað.

Ég minnist þess að heimili þeirra Ínu og Markúsar í Heiðargerðinu í Reykjavík var eins og ævintýrahöll, þar sem alltaf var ys og þys, kaffibollar og trakteringar á öllum tímum og í kjallaranum undraveröld marglitra páfagauka sem járnsmiðurinn Markús hafði fundið sig í að koma á legg og selja. Seinna fluttu þau í Fellsmúlann, Markús féll frá langt fyrir aldur fram, sem ég veit að var bróður mínum þung sorg, og eftirleiðis lágu leiðir okkar Ínu mest saman á heimili Ástu og Hauks í Furugerðinu, þar sem mín elskulegu frændsystkin Markús og Ragnhildur slitu barnsskónum í skjóli foreldra sinna.

Ína gaf mér, bókstaflega talað, forvitni um ljóð, sem endist mér enn. Á fermingardaginn færði hún mér áritað ljóðasafn Tómasar Guðmundssonar og þar með komst ég á bragðið. Við Ásta sátum einmitt saman heima hjá mér á Egilsstöðum tveimur dögum áður en Ína lést og handlékum þessa bók af mestu ástúð og hrifningu.

Það var auðvelt að láta sér þykja vænt um Ínu. Hún var svo gefandi í samskiptum. Kannski af því að hún þekkti líka skuggana og þurfti að kljást við erfiðleika- og veikindakafla í lífi sínu. En það lýsir seiglunni í þessari yndislegu manneskju að hún komst alltaf á fætur aftur og var þá potturinn og pannan í allskyns ferðalögum og mannfögnuði. Ég fékk hana lánaða eina kvöldstund úr húsmæðraorlofsferð í Jökulsárhlíð í fyrrasumar. Þar sem hún sat í stofu minni á Egilsstöðum og vafði að sér börnin mín meðan hún sagði okkur gamansögur úr ferðinni og tók kollsteypur af hlátri, hugsaði ég að svona vildi ég reskjast, full af gleði og ánægju með lífið og tilveruna. Mér þótti ég alveg sérstaklega heiðruð að fá hana í bæinn þessa stund. En hún sagði mér þá að þetta væri nú að verða gott hjá sér.

Svo er sagan öll og tímabært að halda til upprunans, eilífðarinnar. Þangað sem Markús bíður með sængina uppreidda fyrir sína elskuðu. ,,Og geiglausum huga ég held til móts við haustið, sem allra bíður,“ skrifaði Tómas í Fljótinu helga.
Ég þakka Ínu gefandi samfylgd um hartnær fjörtíu ára skeið og votta Ástu, Guðrúnu, Bryndísi, Árna og fjölskyldunni allri samúð mína.

 

Sigurína Friðrikka Friðriksdóttir fæddist 22. desember 1922. Hún lést 22. ágúst 2010.
Foreldrar hennar voru Sigurína Katrín Brynjólfsdóttir f. 7.5. 1884, d. 26.12. 1922 og Friðrik Jónsson útgerðarmaður f. 7.12. 1868, d. 29.10. 1940, frá Látrum í Vestmannaeyjum.
Ína ólst upp í Görðum í Vestmannaeyjum. Uppeldisforeldrar hennar voru Kristín Ögmundsdóttir f. 1885, d. 1975 og Árni Jónsson formaður f. 1871, d. 1956. Systkini Ínu: Brynjólfur Kristinn stórkaupmaður f. 1911, d. 1984, Guðjón f. 1912, d. 1932, Ármann útgerðarmaður f. 1914, d. 1989, Klara f. 1916, d. 2008, Ólafía f. 1916, d. 1993, Ingibjörg f. 1919, d. 1920.
Uppeldissystkini Ínu voru Sigurjóna Ólafsdóttir f. 1916, d. 1981 og Haukur Johnsen f. 1914, d. 1957.
Sigurína og Markús Hörður Guðjónsson, f. 29.8. 1923, d. 18.3. 1980, plötu- og ketilsmiður, verkstjóri í Landsmiðjunni giftu sig 27.7. 1944. Afkomendur þeirra eru: 1) Árni Friðrik f. 1944, börn: a. Birgit Helena f. 1964, maki Sonne Mikkelsen, börn Flóvin, Elísabet, Páll; b. Katrín Rut f. 1971, maki Jón Gunnar Jóhannsson, börn Sindri Hrafn, Ísak Már, Adam Árni, c. Jóna Valborg f. 1973, maki Vilhjálmur Bergs, börn: Garpur Orri, Viktor Nói, Vera Vigdís; d. Markús Hörður f. 1980, maki Karen Guðmundsdóttir, barn Hrafnhildur; e. Kirstín Dóra f. 1985, maki Helgi Þór Guðmundsson. 2) Ásta Hulda f. 1949, maki Haukur Ásmundsson f. 1949, d. 2008, börn: a. Markús Hörður, maki Bríet Ósk Guðrúnardóttir, barn Salka Sól, fósturdóttir Markúsar er Sigrún Hanna; b. Ragnhildur f. 1976, maki Óli Rúnar Eyjólfsson, börn Jasmín Ásta, Eyjólfur Snær. 3) Guðrún Kristín f. 1950, maki Þór Fannar börn: a) Ína Edda, maki Guðjón Guðmundsson, börn Arna, Þór, Helga María; b. Marín, maki Halldór Karl Högnason, barn Högni; c. Valur Fannar, maki Þóra Hlín Þórisdóttir. 4) Birgir f. 1956, d. 1964. 5. Bryndís f. 1956, maki Sigurður Konráðsson, börn a. Birgir Konráð, barn hans er: Konráð Darri; b. Sigríður Björk, c. Bryndís Erla, maki Frosti Guðjónsson.
Ína gekk í Barna- og gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum. Hún vann við að breiða út saltfisk hjá Gunnari Ólafssyni og co. Síðar vann hún á skrifstofunni á Tanganum og í vefnaðarvöruverslun hjá þeim. Árið 1941 fór hún frá Vestmannaeyjum til Ísafjarðar á Húsmæðraskólann Ósk, þetta þótti góð undirstöðumenntun fyrir konur á þessum tíma. Hún fór síðan aftur til Eyja og fór að vinna hjá Einari ríka (Sigurðssyni) á skrifstofu. Hún vann eitt sumar í Sælingsdal á barnaheimili. Árið 1942 vann hún hjá Jóni Sigmundssyni í skartgripaverslun. Ína vann við ræstingar í Vogaskóla og síðar sem klíníkdama hjá nokkrum tannlæknum. Hún vann í 11 ár í Orkustofnun í mötuneytinu, til ársins 1991. Hún starfaði sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og vann meðal annars í verslun á Grensásdeildinni og dreifði bókum til sjúklinga á Landakoti. Ína starfaði með kvenfélagi Grensássóknar frá 1965. Hún var alltaf mjög virk í starfinu. Hún var m.a. ritari félagsins í mörg ár. Hún var einnig í Kvenfélaginu Heimaey, sem eru brottfluttir Vestmannaeyingar. Hún ferðaðist mikið bæði með Rauða krossinum, Orkustofnun og Heimaeyjarkonunum.