yrkir titill svhv2019.

Sigurður Ólafsson - minning

F. á Eyrarbakka 20. október 1920, d. 3. mars 2010


Þegar ég var lítil stúlka í ranni foreldra minna, man ég eftir Sigurði Ólafssyni og Málfríði Matthíasdóttur, föðursystur minni, sem gestum sem tekið var með kostum og kynjum á heimilinu. Þau voru lengstum of sjaldséðir gestir enda búsett í Vestmannaeyjum, en við í Reykjavík. Þau fluttu síðar búferlum yfir á fastalandið og þá varð samgangur auðveldari. Málfríður lést árið 2003 og Sigurður flutti sig yfir á Hrafnistu þar sem hann bjó allt til enda.

Ég man glöggt að ég hreifst af Sigurði, það stóð af honum golan hvert sem hann fór, hláturinn, kerksnisblik í augum, ekkert vol og víl, svolítið eins og sjórinn sem hann fór aldrei langt frá. Þegar ég var um tvítugt heimsótti ég Sigurð og Málfríði til Eyja og var í nokkra daga. Það var ein allsherjarhátíð. Málfríður stjanaði við mig og sagði mér merkilegar sögur úr fortíð fjölskyldu okkar með sínum lágstemmda og hógværa hætti.

Sigurður rauk með mig um allar trissur og lánaði mér aukinheldur volvóinn sinn í ökuferðir, nokkuð sem mér þótti alveg sérstakur höfðingsskapur. Ég stóð löngum í fjöru og horfði á þungt brimið velta inn. Ég held að Sigurður hafi verið dálítið ánægður með hversu skotin ég var í sjónum, þó honum þætti ég áreiðanlega óttalegur aukvisi þar utan.

Ég á eina uppáhaldsminningu í pússi mínu, en hún er frá ættarmóti föðurfólks míns á Patreksfirði fyrir rúmum áratug. Eftir langt og strangt föstudagskvöld ættarinnar í gleði og glaumi vöknuðum við Sigurður tvö upp úr sínu hvoru tjaldinu við sólarupprás, helltum upp á kaffi í morgunkyrrðinni með lóunum og spóunum og sprokuðum hitt og annað. Náðum svo í pott og prik og gengum á öll tjöld þegar okkur þótti nóg um svefninn á fólkinu og vöktum upp og sníktum kaffibolla hjá útvöldum. Þetta var ákaflega góð morgunstund og eftirminnileg. Ég man að ég hló alveg oní maga því mér þótti Siggi svo skemmtilegur og hressandi. Eins og sjórinn.

Ég votta Rut, Bjarna og aðstandendum öðrum samúð mína og sendi þeim kærar kveðjur.