yrkir titill svhv2019.

Ninna Kristbjörg Gestsdóttir - minning

F. 19. október 1932, d. 1. janúar 2005


Rökkur og reykjarslæða, týrir á lampa í horninu og heggurinn úti fyrir glugganum sefur í vetrinum. Sterkur uppáhellingur í gömlum rósabolla og tíminn bærir varla á sér inni í þessari bókfylltu stofu, þar sem öll lífsins gæði eru saman komin órafjarri ys og þys hversdagsins. Kristbjörg, vinkona mín og kennari um lífsins vegu til margra ára, á sínum stað í stólnum við gluggann og segir mér sögur. Sögur um menn og málefni, ýmist vafðar inn í skop og hlátrasköll eða dauðans alvöru. Aldrei leggur hún illt til nokkurs manns, er þó glöggskyggn á það sem menn eiga, gott og bágt. Út um allar þorpagrundir fljúga sögurnar eins og vorfuglar; fóstran hennar hlýja og orðheppna í Múla sem ekkert aumt mátti sjá og viðskipti föðurins hjartahreina og vitra við sveitungana í Aðaldal og blessaða málleysingjana. Karlar og kerlur hér og hvar, á þriðju hæð í blokk eða í hnipri við lontulæki, ýmist í ógöngum og forarvilpum eða þá í hæstu hæðum og himnasölum.

Þegjum saman um stund. Tökum svo til við bókmenntirnar og Kristbjörg hefur yfir ljóð eftir ljóð sinni kyrru og þrungnu rödd. Ferðast milli Snorra Hjartarsonar, Jóhannesar úr Kötlum, Guðmundar Böðvarssonar og Þorsteins Valdimarssonar áreynslulaust og þannig að hittir mann í hjartastað og hvurt orð verður dagljóst. Önnur syrpa tekin um stjórnmál dagsins og pólitískt argaþras og þaðan liggur leiðin ævinlega beint inn í hvað skipti verulegu máli í þessu lífi og í hvað manneskjunni beri að verja tíma sínum til að ná nokkrum þroska og yfirsýn. Ýmist virðist allt á fallanda fæti um veröld víða eða við erum bara nokkuð bjartsýnar fyrir hönd þjóðanna. Í kjölfarið sigla vísast jafnréttismálin fyrr og nú og borinn er nokkur kvíðbogi fyrir framgangi þeirra líkt og kjörum verkalýðsins og öreiganna í sjálfu gósenlandinu. Rauðsokkurnar líta ævinlega við í þeirri umræðu og bæjarpólitík og verkalýðsbarátta fyrri áratuga á Akureyri stingur líka inn nefi. Og þar fram eftir götunum.

Sagnaþulurinn besti, endalaust vildi ég á hlýða. Hún kenndi mér mennsku með dæmisögum, þekkingu sinni og þroska, kenndi mér að aldrei skyldi láta börn, lítilmagna og málleysingja fara óbætt hjá garði og fylgdist með mér og mínu gegnum sorgir og gleði. Bakhjarl minn alltaf og framvörður oft, skarð er fyrir skildi í tilverunni, en þessi góða og mikla manneskja gaf mér vináttu sína og einlæga umhyggju að gjöf og það verður mér ævinlegt veganesti.

Snorri sagði í ljóði sínu Ferð: „En handan við fjöllin og handan við áttirnar og nóttina rís turn ljóssins þar sem tíminn sefur. Inn í frið hans og draum er förinni heitið.“ Veri hún vinkona mín kært kvödd á eilífðarinnar vegi.

Ég votta fjölskyldu Kristbjargar einlæga samúð.

 

Ninna Kristbjörg Gestsdóttir fæddist í Múla í Aðaldal, 19. október 1932. Hún lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum að morgni nýársdags 2005. Kristbjörg var dóttir hjónanna Guðnýjar Árnadóttur, f. 6.3.1904, d. 6.11.1933 og Gests Kristjánssonar, f. 10.11.1906, d. 9.8.1990. Alsystir Kristbjargar var Þóra Friðrika sem er látin og hálfsystkin, börn Gests og Heiðveigar Sörensdóttur, seinni konu hans, f. 6.5.1914, d. 3.3.2002, eru Jón Helgi og Guðný. Uppeldisbróðir Kristbjargar er Stefán Sveinbjörnsson, sonur Friðriku.
Kristbjörg giftist síðasta vetrardag árið 1958 Helga Hallgrímssyni, f. 11.6.1935, syni hjónanna Laufeyjar Ólafsdóttur, f. 31.5.1912, d. 11.8.2003 og Hallgríms Helgasonar, f. 29.8.1909, d. 28.12.1993.
Dóttir Kristbjargar og Þorgríms Jónssonar er Björk, f. 29.5. 1953. Börn Bjarkar eru Árni, Kristjana, Helgi Rúnar og Jón Heiðar. Barn Kristjönu er Signý Eir. Börn Kristbjargar og Helga eru: a) Hallgrímur, f. 12.8.1958. b) Gestur, f. 14.5.1960. Fósturbörn hans eru Árný Þóra og Allan Haywood. c) Heiðveig Agnes, f. 23.10.1970. Börn hennar eru Kristbjörg Mekkín og Friðmar Gísli. Árni og Kristjana voru alin að hluta upp af Kristbjörgu og Helga.
Kristbjörg ólst upp í Múla til tvítugs, gekk í Laugaskóla og var ráðskona á Fljótsdalshéraði 1956-57. Hún flutti með Helga eiginmanni sínum til Þýskalands 1958, þar sem hann var við nám í náttúrufræðum. Haustið 1959 fluttu þau til Akureyrar og bjuggu þar til 1966 er þau settust að á Víkurbakka á Árskógsströnd. Til Akureyrar fluttu þau aftur 1975 og bjuggu þar uns þau settust að á Egilsstöðum árið 1986.
Kristbjörg var húsmóðir og matráðskona og starfaði auk þess tímabundið að kennslu og umönnun sjúkra og fatlaðra. Hún var alla tíð mjög virk í félagsmálum og stjórnmálastarfi. Starfaði í Menningar- og friðarsamtökum kvenna, með sósíalistum og Alþýðubandalaginu á Akureyri og Egilsstöðum, Samtökum herstöðvaandstæðinga, Samtökum um jafnrétti milli landshluta, vann að framboði Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands, að verkalýðs- og jafnréttismálum og Kvennaframboðinu. Alla tíð var hún skjól fyrir róttæklinga, fræðimenn, hugsuði og reykingamenn. Kristbjörg las mikið og var vel heima í bókmenntum, ljóðlist ekki síst, og var hagmælt sjálf. Kvæði Guðmundar Böðvarssonar voru í mestu uppáhaldi hjá henni.