yrkir titill svhv2019.

Haukur Ásmundsson - minning

F. 9. september 1949, d. 4. nóvember 2008


Haukur minn. Fallegi góði bróðirinn minn sem nú er dáinn. Hann var allaf „stóri bróðir“ minn, þótt ég ætti bara einn bróður, og ég dáði hann meira en aðra. Svo fallegur og hnarreistur. Ég bar óttablandna virðingu fyrir honum þegar ég var barn, því hann var mikill töffari og hafði meðfæddan myndugleik. Svo varð ég feimin við hann á unglingsárunum, því þá var hann orðinn lögreglumaður eins og pabbi okkar og hafði ekki ýkja mikla þolinmæði gagnvart böldnum unglingnum mér.
Hann var svo ljónheppinn að finna sætustu og bestu skvísuna í Reykjavík og kvænast henni á Jónsmessunni 1972. Þar var hann gæfumaður, því Ásta hefur reynst honum klettur í tilverunni. Hún og börnin þeirra, Markús og Ragnhildur, og þeirra makar og börn voru lífssólir hans.

Ég fór ekki að kynnast bróður mínum fyrr en ég varð sjálf fullorðin manneskja. Hann var ekki maður sem bar tilfinningar sínar eða hugsanir á torg og það tók drjúgan tíma fyrir okkur að læra hvort á annað.

Smám saman fór ég að skilja bakgrunn hans og drifkraft. Hann var ögn týndur hvað foreldra okkar varðaði; í verunni sonur Ásu, systur Ásmundar pabba okkar, svo hann vissi ekki almennilega hverjum hann tilheyrði. Ég held að það hafi markað líf hans að verulegu leyti.

Þrátt fyrir að vera lögreglumaður alla sína ævi er ég viss um að bróðir minn var alltaf bóndi inn við beinið. Hann elskaði landið sitt, undi sér lengi vel hvergi betur en í sveitinni sinni, Djúpadal, innan um skepnur og gott fólk og var náttúraður fyrir að lesa landslag á augabragði. Hann hélt hesta í mörg ár uns hann lenti í erfiðu slysi á hestbaki. Hann var alltaf að stússa í íþróttum, síðan tók golfið við og hann var kominn í mestu vandræði með að koma öllum verðlaununum fyrir í hillunum heima hjá sér. Hann tók þetta allt með trompi.

Svo greindist hann með krabbamein í ristli og var nær dauða en lífi svo mánuðum skipti. Maðurinn sem var vanur að hafa alla þræði í hendi sér, með mannaforráð og forsvar, var allt í einu veikur og máttlítill í lífi og starfi. Þótt allt stefndi í að sjúkdómurinn legði Hauk að velli innan fárra ára lagði hann sína ýtrustu krafta og þrjósku í baráttuna og hafði um skeið betur. En svo fékk hann alvarlegt hjartaáfall í golfferð á Spáni seint á síðasta ári, var bjargað á elleftu stundu og mátti svo sitja uppi með að vera ekki aðeins með alvarlegt krabbamein, heldur líka banvænan hjartasjúkdóm.

Elsku hjartans stóri sterki bróðirinn minn. Síðustu árin tók hann út gríðarlegan þroska, þurfti að endurmeta öll sín gildi og horfast í augu við sjálfan sig og það að eigin líkami var að verða hans versti óvinur. Hann fór þó í gegnum þetta allt með aðdáunarverðri reisn og reyndi með öllum þeim mætti sem hann bjó yfir að sigrast á aðstæðum.
Ég mun alltaf dá stóra bróður minn og elska og bera fyrir honum takmarkalausa virðingu. Í líf okkar er höggvið skarð sem ekki verður fyllt.

Elsku Ásta mín, Markús, Ragnhildur og ykkar fólk allt, megi almættið vaka yfir ykkur og styrkja í þessari hyldjúpu sorg.

 

Haukur Ásmundsson fæddist í Reykjavík 9. september 1949. Hann lést á heimili sínu 4. nóvember 2008. Foreldrar hans voru Áslaug Matthíasdóttir frá Patreksfirði, f. 14.9. 1924, d. 16.12. 1997, og Svanur Jónsson frá Höfnum, f. 28.8. 1923, d. 3.8. 2008. Kjörforeldrar Hauks voru Ásmundur Matthíasson frá Patreksfirði, f. 30.7. 1916, d. 21.5. 1994, og Ragnhildur Pétursdóttir, f. 6.9. 1922, í Hjaltastaðarþinghá.
Bræður Hauks og sammæðra eru Pétur Ragnar, f. 2.4. 1962, og Ægir Steinn, f. 25.7. 1964, Sveinþórssynir. Systir Hauks og samfeðra er Hjördís Bára, f. 28.2. 1948. Kjörsystur Hauks eru Guðlaug Ásmundsdóttir, f. 15.1. 1959, d. 19.10. 2008, og Steinunn Ásmundsdóttir, f. 1.3. 1966. Steinunn er gift Þorsteini Inga Steinþórssyni og eru dætur þeirra Freyja og Ragnheiður.
Haukur kvæntist 24. júní 1972 Ástu Huldu Markúsdóttur, f. 19.2. 1949, í Reykjavík. Foreldrar Ástu eru Sigurína F. Friðriksdóttir, f. 22.12. 1922 í Vestmannaeyjum, og Markús Hörður Guðjónsson, f. 29.8. 1923 í Reykjavík, d. 18.3. 1980. Börn þeirra eru Markús Hörður Hauksson, f. 29.11. 1974, og Ragnhildur Hauksdóttir, f. 9.7. 1976. Sonur Hauks og Kristínar S. Brandsdóttur er Brandur Daníel, f. 10.2. 1990.Sambýliskona Markúsar er Bríet Ósk Guðrúnardóttir, f. 13.5. 1980, og eiga þau dótturina Sölku Sól, f. 18.5. 2008. Áður átti Bríet Ósk Sigrúnu Hönnu, f. 24.9. 1999. Ragnhildur er gift Óla Rúnari Eyjólfssyni, f. 21.2. 1977, og eru börn þeirra Jasmín Ásta, f. 28.5. 2001, og Eyjólfur Snær, f. 7.10. 2006.
Haukur hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík eftir próf úr Lögregluskólanum árið 1969, eftir að hafa unnið hjá Ellingsen og verið til sjós. Einnig starfaði hann við virkjunarframkvæmdir í Búrfelli. Hann vann hjá Lögreglustjóraembættinu til dauðadags. Hann ók einnig langferðabifreiðum hjá Vestfjarðaleið á sumrum í um áratug. Haukur fór ungur í sveit í Djúpadal í Djúpafirði, A-Barðastrandarsýslu, hann elskaði sveitina sína og var þar öll sumur eða þangað til hann var orðinn 17 ára, en eftir það fór hann í áratugi í smalamennsku á haustin.
Haukur sinnti margvíslegum trúnaðarstörfum í félagsmálum. Hann starfaði fyrir Kiwanis-hreyfinguna í 10 ár og var kosinn besti forseti Þórssvæðis 1996-1997. Hann gekk í Oddfellow-regluna árið 1997, í stúkuna nr. 20 Baldur og hefur sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum. Haukur var alla tíð mikill íþrótta- og keppnismaður. Hann lék handbolta með keppnisliði lögreglunnar fram undir fertugt og var mikill hesta- og golfmaður. Hann var félagi í Golfklúbbnum Odda og einnig í Golfklúbbi lögreglunnar í Reykjavík.