yrkir titill svhv2019.

Guðlaug Ásmundsdóttir - minning

F. 15. janúar 1959, d. 19. október 2008


Tregt er nú tungu að hræra þegar mín kæra systir Guðlaug er öll. Lífshlaup hennar var erfitt og kringumstæðurnar oft einkar harðneskjulegar. Margvísleg geðröskun olli því að tilvera hennar fór snemma úr skorðum og eitt leiddi af öðru uns komið var á ystu nöf erfiðra veikinda.
Dætur hennar þrjár voru lífsljósin hennar og á stundum eina haldreipið þegar vonina þraut. Hún var stolt af þeim alla tíð og móðurástin svall henni í brjósti gegnum þykkt og þunnt.
Nú er hún systir mín farin í betri stað og ég bið almættið að blessa för hennar til ljóss og hvíldar. Ég sé hana fyrir mér heilbrigða, fallega og glaða, með spékoppana sína ómótstæðilegu og fiman fót, rétt eins og þegar hún var stelpuskott í ranni foreldra okkar, sem elskuðu hana, en skildu ekki veikindi hennar fremur en svo margir aðrir. Megi hún hvíla í Guðs friði.