yrkir titill svhv2019.

Ásmundur Matthíasson - minning

F. 30. júlí 1916, d. 21. maí 1994


Eitt sinn skal hver deyja. Víst er það eðli lífsins og enginn fær það umflúið. Þó er það svo sárt að sjá á bak föður, sem hefur fylgt mér hvert fótmál lífs míns og umvafið mig ástúð og umhyggju frá fyrsta degi. Sem lítil hnáta spígsporaði ég hnarreist við hlið pabba míns á Lögreglustöðinni, hélt í hlýju höndina hans og var sannfærð um að ég ætti fallegasta og langbesta pabba í öllum heiminum. Og rúmum tuttugu árum síðar hélt ég enn í þessu hlýju hönd, í gönguferð á sólbjörtum maímorgni og við dáðumst að vorinu, Esjunni, bláa litnum á himninum og að gjörvöllu lífinu. Tilfinningin að vera óhult og vernduð í návist hans var sterk. Vakinn og sofinn gætti hann mín, leiðbeindi mér og gerði sitt besta til að ég mætti verða góð og gæfurík manneskja. Og þegar á reyndi stóð hann sem klettur við hlið mér og var reiðubúinn að berjast við hvern þann dreka sem á vegi mínum varð.

Pabbi vígði mig inn í marga dýrmæta heima. Hann vakti athygli mína á fegurðinni, tónlist, myndlist og bókmenntum, gildi heilinda og fyrirgefningar og kenndi mér að bera ástúð, íhygli og sáttahug í hjartanu. Allt eru þetta gjafir sem hafa gert mig að því sem ég er og hafa og munu framvegis auðga líf mitt óendanlega.

Pabbi var alltaf að kenna mér vísur og ljóð. Hann skrifaði heilmikið sjálfur og fyrsta vísan sem ég lærði var einmitt eftir hann:

Góða barn, ég gefa vil þér ráð,

gakkt' ekki yfir veginn fyrr en vel þú hefur gáð.
Mundu græna ljósið og merkta göngubraut,
já, mikið væri gaman að kunna þessa þraut.

Þetta notaði hann mikið í umferðafræðslu í skólum, en þar var hann forvígismaður eins og raunar á mörgum öðrum sviðum. Ég var bara ellefu ára þegar ég kom til hans með fyrst frumsamda ljóðið mitt. Hann varð himinlifandi, las ljóðið litla fyrir alla sem komu í heimsókn næstu daga og blés mér í brjóst löngun til að halda áfram. Síðan þá hef ég skrifað ýmislegt og hafði alltaf á bak við mig einlægan áhuga, markvissa gagnrýni og trú hans á að ég hefði eitthvað fram að færa á þessum vettvangi.

Elsku pabbi minn, ég man þig sem mann glaðværðar og góðmennsku. Alltaf áttir þú litlar sögur á reiðum höndum; frá Patró, þegar við vinirnir lékuð ykkur um fjöll og dali eða þræluðuð myrkranna á milli, sögur frá Núpsskóla eða um foreldra þína og Mugg, sem tilkynnti mömmu þinni að nú væru jólin komin til Tálknafjarðar, af fyrsta vörubílnum þínum og mönnum og málefnum yfirleitt. Þú varst tilbúinn að ræða allt milli himins og jarðar, alltaf heiðarlegur í skoðunum og deildir aldrei um trúarbrögð eða stjórnmál. Þú elskaðir mömmu og alla fjölskyldu þína takmarkalaust og barst hlýjan hug til nánast allra manna. Varst fastur fyrir, orð þín stóðu alltaf og menn treystu þér. Áttir jafnvel til að láta nokkur heilræði af hendi við þá sem þér þóttu eiga það skilið. Alltaf teinréttur, settir stundum í axlirnar og áttir það til að taka af þér nefið til að plata mig.

Ég kveð þig, sem ég elska svo mjög og heiti því að leitast við að vera sönn og góð manneskja. Eins og þú varst; sannur og góður maður.

 

 

Ásmundur Matthíasson, fyrrverandi aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni í Reykjavík, fæddist 30. júlí 1916 á Patreksfirði og ólst þar upp. Hann lést 21. maí 1994. Ásmundur var sonur hjónanna Steinunnar Guðmundsdóttur og Matthíasar Guðmundssonar á Patreksfirði. Hann var næst elstur tólf systkina og eru nú átta eftirlifandi. Árið 1943 hóf hann störf hjá Lögreglunni í Reykjavík og vann þar um 44. ára skeið. Hann kvæntist 1. júlí 1944 Ragnhildi Pétursdóttur frá Hjaltastað, Hjaltastaðaþinghá, S.-Múl. Þau eignuðust þrjú börn: Hauk, Guðlaugu og Steinunni.


Páll Finnbogason:
,,Þá kemur hann mér í hug, er ég heyri góðs manns getið." Þessi fleyga setning var sögð um merkan mann og mun mörgum í huga koma, er þeir minnast Ásmundar. Þessi fjallmyndarlegi heiðursmaður er nú að foldu hniginn. Andlát Ásmundar kom mörgum á óvart, svo vel bar hann sig fram á síðustu stundu.
Honum var tamara að spyrja um heilsu annarra en tala um sína eigin, þótt honum muni hafa verið ljóst að hverju stefndi. Um þennan mann mætti rita langt mál, en til þess er ekki rúm hér.
Á ári fjölskyldunnar þykir undirrituðum hlýða að minnast á hina óvenjulegu rækt er hann sýndi fjölskyldu sinni, foreldrum og systkinum. Hann var elsti sonur foreldra sinna. Þau bjuggu í litlu húsi á Patreksfirði. Þetta hús stendur enn og lætur ekki mikið yfir sér og má undrum sæta að allt þetta fólk; 12 börn og nokkrir vandamenn að auki, skyldu komast fyrir í þessu litla húsi. En þegar inn var komið var þetta höll, hátt til lofts og vítt til veggja. Því að þarna ríkti kærleikurinn og hjartarými húsráðenda var takmarkalaust. Til fullorðinsára komust níu börn þeirra hjóna og hafa fjölskyldutengsl þeirra verið samtvinnuð minningunni um frábæra foreldra.
Margt hefur verið rætt og ritað um aldamótakynslóðina og eru menn yfirleitt sammála um að það hafi verið merkasta kynslóð sem Ísland hefur alið.
Foreldrar Ásmundar voru af þessari kynslóð og var vinnusemi og innræti þeirra dæmigert fyrir kynslóðina sem lagði grunninn að framtíð þessa lands, framförum, frelsi og sjálfstæði; svo til með berum höndum.
Hún varð að vaka og vinna, annars var ekki kostur. Hér birtist íslensk þjóðarsál, sem á eftir að vera haldreipi það sem tryggir framtíð þessarar þjóðar. Arfur sá er þessi kynslóð lét eftir sig var dýrmætur þótt faseignamatið væri ekki hátt. Þetta voru auðævi sem mölur og ryð fá eigi grandað. Ásmundur og hin ágæta eiginkona hans, Ragnhildur Pétursdóttir, varðveittu vel þennan arf, þótt þau kæmust vel af að öðru leyti. Hún er sprottin úr sama jarðvegi, þótt aðstæður væru ekki alveg þær sömu.
Hún minnist oft æskuheimilis síns og foreldra með mikilli virðingu og hlýju og verður engu að síður tíðrætt um tengdaforeldra sína, er hún metur mjög mikils.
Hér verður að láta nægja að minnast á eitt atvik í lífi Ásmundar, sem lýsir honum betur en mörg orð fá gert.
Þau hjón höfðu að vísu ferðast um ókunn lönd, en síðustu áratugina kusu þau heldur að skoða sitt eigið land og þreyttust aldrei á að lýsa og dást að dásemdum íslenskrar náttúru. Fyrir mörgum árum voru þau í sumarfríi norður í landi og undu sér vel. Þá fékk Ásmundur skyndilega hugboð um að faðir hans væri í vanda staddur. Hann ók þegar heim á leið og hafði samband vestur á Patreksfjörð. Faðir hans lá þá fárveikur á sjúkrahúsi þar. Ásmundur leigði þegar í stað flugvél og sótti föður sinn og kom honum á sjúkrahús hér syðra og í hendur færra lækna.
Föður hans batnaði á nokkrum mánuðum og lifði og starfaði í mörg ár eftir það. Má fullyrða að Ásmundur hafi bjargað lífi og heilsu föður síns.
Þetta er sagt til að sýna hvílíkur lánsmaður Ásmundur var.
Ásmundur gekk að hverju því er hann tók sér fyrir hendur með alúð og vandvirkni, bæði í starfi og leik. Heimilisbókasafn þeirra hjóna er mikið að vöxtum og gæðum og lýsir þeim vel, en bæði voru bókhneigð og vel lesin.
Ásmundur batt sjálfur inn bækur sínar í frístundum og var handbragðið með þeim hætti að hver fagmaður hefði verið stoltur af.
Þannig var bæði orð hans og æði og hinar miklu vinsældir hans og þeirra hjóna segja meira en nokkur orð fá gert.
Samferðamenn hans sakna nú vinar í stað, en þyngstur harmur er kveðinn að ástvinum hans, eiginkonu, dóttur og kjörbörnum sem og skylduliði öllu er dáði og virti þennan mæta mann.
Hið langa og farsæla hjónaband þeirra hjóna var byggt af gagnkvæmri ást og virðingu, sem er undirstaðan undir þá stofnun. Þau voru ávallt saman en nú hafa leiðir skilið um stund. Eiginkona hans mun í fyllingu tímans hitta ástvin sinn á grænum grundum eilífðarinnar, þar sem aldregi leiðir skilja."