yrkir titill svhv2019.

Erna Sæmundsdóttir - minning

F. 4. október 1942, d. 3. maí 1992


Erna Sæmundsdóttir er látin. Hún var sannarlega minn raunbesti og elskulegasti vinur og það skarð sem hún skilur eftir sig í mínu lífi fær enginn og ekkert fyllt. Örlög hennar voru þung, svo þung að alltaf undraðist ég hugprýði hennar og þrjósku. Sál hennar, svo björt og kærleiksrík, bjó í veikum líkama sem varð æ sjúkari dag frá degi.
Minningar margra ára líða hjá sem í skuggsjá. Allir dagarnir, já og jafnvel næturnar, þegar við sátum saman og töluðum um allt. Stundum var orða ekki þörf þá hugsuðum við saman. Þráður vináttu okkar var sterkur.

Hún var konan sem átti ævinlega hjartarúm og tíma fyrir alla, glaða og hrygga, menn og málleysingja. Og með hugrekki og óbilandi lífsþorsta seiglaðist hún áfram þrátt fyrir skelfileg veikindi, það var fátítt að hún léti í ljós þá kvöl og þann ótta sem hún vissulega átti við að etja.
Við sem þekktum Ernu vel geymum með okkur brosið hennar bjarta, þetta fallega andlit og skær augun, minningu um konu sem hvarf okkur alltof fljótt en mun lifa í hugum okkar sem einstæður og sterkur persónuleiki.
Þessi fáu kveðjuorð eru í raun föl og hljómlaus. Innra með mér finn ég djúpa ástúð og virðingu í hennar garð, sem tæpast verður tjáð með orðum. Ljóðlínur Steins Steinars úr Tímanum og vatninu (17) segja þó hug minn að einhverju leyti.

Á sofinn hvarm þinn

fellur hvít birta
harms míns.
Um hið veglausa haf
læt ég hug minn fljúga
til hvarms þíns.
Svo að hamingja þín
beri hvíta birtu
harms míns.

Ég votta aðstandendum Ernu einlæga samúð mína. Minning hennar mun lifa með okkur.

 

Erna Sæmundsdóttir var fædd í Reykjavík árið 1942, og uppalin á Sjafnargötu 2, yngst fjögurra barna þeirra Sæmundar Ólafssonar stýrimanns og konu hans Vigdísar Þórðardóttur.