yrkir titill svhv2019.

Hugarflug á aðventu, 2010

Hlustið nú vel, því ég ætla að bjóða ykkur í hugarflug, hátt yfir jörðinni, inn í skýin, út úr skýjunum, gegnum þrumur og eldingar, yfir svarblátt úthafið og endalausa skóga og sanda.

Lendum hugarflauginni okkar andartak í litlum bæ í Suður-Ameríku. Þarna stendur lítill drengur, á að giska sex ára gamall, einn á sólheitri moldargötu og hann er svo svangur að magaverkurinn ætlar að sprengja hann að innan. Hann horfir soltnum augum á götusala draga kerru með fuglakjöti í átt að markaðinum í hinum enda bæjarins, flugurnar elta vagninn og þeim finnst einnig við hæfi að tylla sér á horaðan búk drengsins. Þessi drengur er munaðarlaus, hann hefur aldrei vitað hverjir foreldrar hans eru eða hvar, moldargöturnar eru heimili hans og náttstaður og hann dregur fram lífið með matarbitum sem einhver getur séð af eða hefur fleygt í ruslið, og vatni úr þorpsbrunninum eða skítugum læk, þar sem hann baðar sig líka stundum. 

Nú fljúgum við aftur upp og rennum okkur undir sól og mána, stjörnurnar þyrlast í kringum okkur. Og viti menn, nú staðnæmumst við úti á endalausum sléttum Ástralíu, þar sem næstum ekkert hefur rignt í átta ár. Bithagarnir fyrir búsmalann eru löngu visnaðir, tréin hanga lífvana og bein stórra skepna liggja hvít og vindsorfin á þurrsprunginni jörðinni. Þetta eru nautgripir sem hafa drepist úr þorsta og sulti. Þarna býr unglingsstúlka með foreldrum sínum, í hrörlegu húsi sem einu sinni var reisulegt. Þau fá enn svolítið vatn úr djúpa brunninum sínum til drykkjar fyrir sig og nokkrar kindur, en það verður ekki lengi. Það eina sem þrífst almennilega þarna eru snákar og þeir eru hættulegir.

Þetta er svo niðurdrepandi að við lyftum hugarflauginni á ný upp í himinhvolfið – hvert ættum við að fara? Jú við skulum dengja okkur niður í Rússlandi; þar er allt snjóhvítt og gaddfreðið, frostið er 33 gráður og allt fólkið sem við sjáum á strætinu í borginni er klætt í mörg lög af fötum svo varla sést nema í augun. Hér situr aldraður maður einn í lítilli íbúð, varla meiru en einu herbergi og litlu eldhúsi. Hann getur ekki borgað fyrir olíu til að brenna í hitaofninum í herberginu og þess vegna er honum kalt, svo óskaplega kalt að hann getur ekki lengur hreyft fingurnar og bráðum ekki einu sinni augnlokin. Hann veit að nú lýkur brátt hans langa og erfiða lífi, sem alltaf hefur snúist um baráttu fyrir brauði og olíu til að hita upp þegar fimbulkuldi vetrarins skellur á byggðinni.

Næstsíðasti áfangastaður okkar, hugarflugsfólksins, úr þessari kirkju austur á Íslandi, er risastór sandströnd við Indónesíu. Þar rignir svo óskaplega að regnið frussast aftur upp í loftið þegar það skellur ægiþungt niður á sandinn. Þarna er allt á tjá og tundri því margra metra há flóðbylgja hefur komið utan af endalausu hafinu og sópast langt inn í land, sópað öllum húsunum, kofunum, fólkinu, dýrunum og villtum hitabeltisgróðrinum upp og dreift eins og hráviði um landið. Og sjá, þarna standa á hæðinni fyrir ofan ströndina lítil systkin með foreldrum sínum, halda dauðahaldi í þau, þeim hafði auðnast að bjarga sér undan flóðinu með því að hlaupa upp í hæðirnar. En amma og afi, fólkið í þorpinu þeirra og vinirnir eru öll horfin; hafið hefur kannski tekið þau. Þessi litla fjölskylda hefur misst allt sitt; hús, skepnur og það sem varð börnunum að leik.

Á jörðinni, þessum dásamlega himinhnetti sem siglir í ómælisvíddum alheimsins, eru alls staðar börn, alls staðar fólk. Og við erum hér, í kirkjunni á Egilsstöðum, öll nokkuð vel haldin vonandi, þó okkur sé ljóst að meðal okkar eru börn sem eiga lítið, fullorðið fólk sem berst í bökkum og gamalt fólk sem veltir hverri krónu milli lúinna handa sér áður en henni er eytt. Þarna úti, í öðrum löndum, eru núna á þessu augnabliki óteljandi mörg börn sem hafa það líka gott og njóta öryggis og ástar eins og við hér. En einnig óteljandi mörg börn, strákar og stelpur eins og þið, sem eru svöng, óhrein, kannski veik, og örugglega afskaplega einmana. Þau eru á heitum stöðum og köldum stöðum, í þurrki eða bleytu, niðri við hafið eða uppi í fjöllum. Sum eru fórnarlömb í ljótu stríði grimmra manna, önnur hafa orðið fyrir hamförum náttúruafla. Þessi börn horfa upp til stjarnanna, sömu stjarna og við horfum oft upp til, og þau óska þess heitast að eitthvað verði þeim til hjálpar.

Nú höfum við náð síðasta áfangastaðnum okkar í þessari flugferð ímyndunaraflsins; við lendum með hvissi og gný í okkur sjálfum, á kirkjubekknum í Egilsstaðakirkju, inni í hjartanu okkar rauða, og finnum að við vitum af þessum strákum og stelpum um alla jörðina og að við viljum hjálpa þeim eins og við getum. Af því að við gætum svo auðveldlega verið þar, verið þau, - en ekki hér. Við erum líklega mjög heppin að vera hérna og mega brátt fagna jólum.

Í hjartanu býr það ævintýr að þegar við hjálpum öðrum fyllumst við djúpri gleði og hamingju. Þá fylgjum við englunum. Við skulum geyma vitneskjuna um börn þessa heims, bræður okkar og systur um víða veröld, í hjörtum okkar og alltaf þegar við
mögulega getum hjálpað annarri manneskju, einhverri lifandi veru, hvar sem við erum, hvað sem við gerum, hvert sem við förum, skulum við gera okkar allra besta til að verða henni að liði. Allt heimsins súkkulaði, sætindi og dót kemst ekki
einu sinni nálægt því að gefa okkur þá hamingju og gleði í hjartað sem það að hjálpa og gleðja aðra gefur.

 

Flutt á aðventustund í Egilsstaðakirkju þriðja sunnudag í aðventu 2010.