Hátíðarræða á 17. júní 2010
Háttvirtir íbúar og gestir Fljótsdalshéraðs!
Lýðveldið Ísland á sextíu og sex ára afmæli í dag. Það er roskið í mannárum en bernskt í þroska, vill lengra og meira en það hefur burði til, líkt og barn sem fetar sín fyrstu skref. Lýðveldið okkar er lauslega samanhrærður jafningur úr torfbæjum, tví- og áttæringum, drykkfelldum prestum og skáldum og örsnauðum kotungum og leiguliðum. Út í jafninginn hellt þjóðerniskennd og sjálfstæðisþrá, dálítilli verkalýðs- og jafnréttisbaráttu, háskólamenntun, höfðingjasleikjum og heildsalaveldum, ameríska draumnum og evrópskri menningu, stríði og friði, Sameinuðu þjóðunum og Nató og nú síðast stertimennum fjárglæfranna hátt og lágt og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn flýtur ofan á öllu saman, meðan landið marar í skuldafeninu. Í dag munu svo aðildarríki Evrópusambandsins væntanlega taka ákvörðun um hvort efnt skuli til viðræðna um aðild Íslands.
Okkur er nokkur vorkunn.
En þó ekki svo mjög, því við, í öldudal efnahagslægðar, höfum það samt svo miklu miklu betra en margar aðrar þjóðir heims. Og við erum órjúfanlegur hluti af þeirri heild, samfélagi jarðarbúa, en ekki bara stakstæð og ein, nyrst í heimskautabirtunni. Hér geysa ekki stríð, hér þarf fólk ekki að leita matar á öskuhaugum eða fela sig fyrir ofríki og ofbeldi brjálaðra stjórnarherra eða aftökusveitum bandítta. Og þó náttúran sé okkur stundum óþægur ljár í þúfu líkt og eldgos ársins sýna, er hún fyrst og fremst gjöful og nærandi. Það höfum við einnig fram yfir þær þjóðir sem búa í vaxandi mæli við banvæna þurrka, sem standa jafnvel svo árum skiptir.
Stundum hefur mér virst sem við séum bundin meiri átthagafjötrum en fólk annarra þjóða. Kannski er það einmitt heimskautaljósið og litur grassins, hafið umhverfis, eða niður aldanna í gömlum sögnum Íslendinga. Það er áskorun að skilja að heimurinn allur liggur fyrir fótum, ef maður aðeins kýs svo, en jafnframt að grasið er sjaldnast grænna hinu megin – að hafa yfirsýn en líka rótfestu. Einmitt það er risavaxið og ögrandi verkefni hinna ungu og komandi kynslóða í sundruðum heimi, og sömuleiðis að finna lausnir á því hvernig mannkynið getur komist af á jörðinni til lengri tíma, en eins og við þekkjum öll eru blikur á lofti þar um.
Hvað efnahagsþrengingar áhrærir höfum við áður strögglað og miklu meira en nú. Það eru sjötíu og sjö ár síðan móðir mín flutti af Héraði til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni og meðan amma mín baslaði við að koma upp prjónastofu, með afa minn veikan, áttu þau fátt og mamma mín svaf samanhnipruð í kommóðuskúffu og var stundum svöng. Svo vænkaðist hagur Strympu.
Níu árum áður en amma mín fæddist í Gunnhildargerði, var ljósaperan fundin upp og hún var sex ára þegar rafmagn var fyrst framleitt á Íslandi. Það er sem sagt ekki langt síðan við bjuggum við hlóðaeld og tólgarlýsingu, við sem núna streymum straujuð og fín, með greiðslukortin okkar um verslanahallir veraldar.
Og við, hinn íslenski lýður, eigum lýðveldið Ísland, þar sem ríkir lýðræði og frelsi til orða og athafna, innan ramma þeirra laga og regluverks sem við höfum sjálf sett okkur að fylgja. Okkur er stjórnað af þeim sem við höfum sjálf kosið að skyldu stjórna. Við lifum í því kerfi og við þær aðstæður sem við höfum sjálf skapað. Allt er bundið orsök og afleiðingu og lýðfrelsið og lýðræðið þar á meðal. Það er ábyrgðarhluti hvernig með það er farið og þarfnast stöðugrar endurskoðunar, líkt og nú er að gerast, þegar Íslendingar endurmeta öll sín gildi og viðhorf.
Fljótsdalshérað er nafli alheimsins, en hann er auðvitað alltaf þar sem maður er staddur í það skiptið. Hér er okkar varnarþing, skjól í óvissum heimi. Á jörðinni allri eru sjö milljarðar manna, þar af þrjúhundruð og fimmtán þúsund þeirra á Íslandi og á Héraði búa þrjú þúsund og fimm hundruð sálir. Svo við erum hér fá, með mikið landrými og jarðargæði, góða menntunar- og þroskamöguleika, þó nokkuð af atvinnutækifærum og ýmsa efnilega vaxtarsprota. Hér eigum við bæði kjarna fólks, sem lengi hefur búið við þessar krossgötur, sem og hressandi nýliða sem staldra við um skemmri tíma og færa ferskan blæ í mannlífið. Í slíku samfélagi verður ekki stöðnun, að sönnu nokkurt rót á köflum, en ekki kyrrstaða. Ég kaus mér þennan stað af öllum stöðum veraldar til búsetu og hef ekki séð eftir því eitt augnablik. Það er fyrst og fremst vegna þess að hér dafnar fjölskylda mín vel og að á þessum slóðum er mikið mannval og fögur og stórbrotin náttúra.
Sagt var um afmælisbarn þessa dags, Jón Sigurðsson, að hann væri sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, þegar reið á að standa styrkur þó mótdrægt væri að vinna Íslandi sjálfstæði. Þó tvær aldir verði liðnar frá fæðingu hans á næsta ári, lifir minning hans með þjóðinni og endurspeglast í einbeittum vilja okkar til framfara og því að fara stundum töluvert fram úr sjálfum okkur. Hvert og eitt okkar er sómi Íslands, sendiherra landsins og svæðisins sem við komum frá, sverð þess og skjöldur – hver einstök manneskja er ómetanleg og sérstök eins og sjaldgæft villiblóm í garði guðs. Virðum lífsgjafir okkar og umgöngumst þær af þakklæti og heilindum.
Gleðilega þjóðhátíð.
Hátíðarræða flutt á 17. júní 2010 / Steinunn Ásmundsdóttir.