Rás 1 er horfin í suð og skruðninga
Ég hef í áratugi elskað Rás 1 á RÚV. Hún ól mig sumpart upp, hefur verið mér hugvekjandi og vinur í raun gegnum árin. Ég hef haft hana malandi í öllum vistarverum mínum og ökutæki. En nú er svo komið að þetta samband er að trosna verulega og jafnvel þannig að endi kann að verða bundinn á, því miður.
Málið snýst um útsendingarskilyrði á höfuðborgarsvæðinu. Síðasta haust fór að bera verulega á því að útvarpstækin mín, hvort sem þau voru rafhlöðuknúin eða bundin við innstungur eða bifreið, náðu ekki lengur útsendingu Rásar eitt nema með óhljóðum og skruðningum. Fram að því hafði allt verið í stakasta lagi. Ég gat náð öllum öðrum stöðvum prýðilega, bara ekki Rás 1. Ég, sem hafði haft kveikt á útvörpunum mínum herbergi úr herbergi, reytti nú hár mitt í hvert sinn er ég reyndi að hlusta – og endaði á því að slökkva. Og smám saman tók þögnin yfir. Suðið og skruðningarnir voru óbærileg.
Ég var orðin svo mökkpirruð á þessu að ég gerði um miðjan janúar í ár óformlega könnun á fésbókinni og viti menn, í ljós kom að sama var uppi á teningnum víða um höfuðborgarsvæðið. Svör bárust um sama ástand í póstnúmeri 105, Suðurhlíðum og Kórahverfi Kópavogs, af Völlum og nálægt Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, úr Norðlingaholti, Breiðholti öllu, úr Flötunum í Garðabæ, Laugardalnum, Vesturbænum og víðar. Einhver benti á að tíðnin hefði hnikast ofurlítið til (frá 93,5 til 92,4) en tilfærsla dugði ekki til að fá hreina útsendingu.
Við þetta varð ekki unað og skrifaði ég útvarpsstjóra tölvupóst í janúar og bað um skýringar á þessum furðum. Ekki stóð á svörum og ber að þakka það. Svarað var á þá leið að RÚV væri meðvitað um að breytingar í tengslum við færslu útsendingar frá Vatnsenda yfir á Úlfarsfell hefðu áhrif á einhverjum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta yrði skoðað nánar og þakkað var fyrir ábendinguna.
Sú færsla útsendingar sem þarna var tilgreind mun hafa verið gerð um miðjan desember í fyrra.
Nú leið og beið. Ekkert bólaði á að útsendingin á Rás 1 lagaðist, það sýndu reglulegar tilraunir mínar á mismunandi útvarpstækjum um margra vikna skeið. Sendi ég útvarpsstjóra aftur bréf í mars með fyrirspurn um hverju sætti og hvort RÚV byggi ekki yfir tæknilegum úrlausnum til að laga þetta fyrir aðdáendur Rásar 1 sem jafnframt væru greiðendur afnotagjalda. Svar kom tveimur dögum síðar og mátti þar lesa að verið væri að snúa sendum á Úlfarsfelli um einar 30 gráður en það leysti þó ekki allan vanda. Þyrfti RÚV að fá úthlutað þriðju tíðni á umræddu svæði en það væri flókið ferli. Margir hefðu nýtt sér að taka útvarpið gegnum netið til að ná útsendingu, mörg ný útvarpstæki gætu tengst WI-FI.
Það var og.
Það er ekki í fjárhagslegum forgangi hjá mér að kaupa ný útvarpstæki í íbúð og bifreið fyrir tugþúsundir króna af því að RÚV er að föndra eitthvað við útsendingarmöstrin sín. Og hlustun í gegnum símann kostar of mörg bæti. Ég ætlast til þess að fjölmiðill af þessu kalíberi geti annast tæknimál sín sómasamlega. Mér þykir þetta ástand reglulega hvimleitt og er vissulega ekki ein um að vera svekkt yfir þessu. Við getum séð fyrir okkur fjölmarga eldri borgara, svo dæmi sé nefnt, sem eru í sömu sporum og gráta nú sambandsleysið við gömlu góðu Gufuna – öll útvarpstækin þeirra til einskis nýt.
Við þetta má bæta að það gerist svo iðulega að rof verður á útsendingu ríkisútvarpsins á Rás 1 og 2, þögnin ein ríkir um stund, jafnvel í allt að klukkutíma. Ég hef aldrei skilið hverju sætir. Þetta hef ég orðið vör við gegnum tíðina, víða um landið og velt fyrir mér í kjölfarið hvernig öryggishlutverki RÚV er þá farið. En það er annað mál.
Ég hef mestu mætur á útvarpsstjóra og ríkisútvarpinu yfir höfuð og trúi því að leið verði fundin til að leysa þennan ófögnuð. Annars verður RÚV bara að senda mér útvarpstæki sem nær Rás 1, en lækka við mig afnotagjöldin ella.
Góðar stundir.
(Maí, 2021).