Nína Björk Árnadóttir skáldkona og eitt hundsbit
Seint á níunda áratug tuttugustu aldar var ég boðin í heimsókn á Sólvallagötu 30, heimili Nínu Bjarkar Árnadóttur skáldkonu*1, eftir næturgölt með elsta syni hennar Ara Gísla Bragasyni og fleira fólki. Ekki ólíklega ljóðakvöld og svo ball á Borginni, eins og best gerðist í þá daga.
Ég sat í stofu og birtist þá hundurinn Sókrates, nokkuð aldurhniginn stór hundur og dökkleitur ef mig misminnir ekki. Mér varð á að standa upp og ganga áleiðis til hans í mestu rólegheitum og ætla að klappa honum. Horfði í augu hans eitt andartak og vissi þá ekki fyrr til en að hann endasentist að mér og beit mig í andlitið. Skóf illa þefjandi skolturinn mig frá vinstra auga niður að munnviki svo fossblæddi. Ég fór heim til mín í sjokki og með vasaklút við kinnina. Um morguninn var mér ekki stætt á öðru en að fara á neyðarmóttöku til að láta líta á andlit mitt því sárið var ljótt og hlaupin sýking í allt saman. Ég fékk umsvifalaust stífkrampasprautu og pencillin, tekin voru spor til að loka sári við nef og allt þrifið upp úr sótthreinsandi. Ég var svo heima hjá mér í felum með andlitið stokkbólgið og afmyndað í dagavís uns fór að hjaðna og gróa.
Hart var lagt að mér að kæra atvikið til lögreglu þannig að hundurinn yrði aflífaður og ekki fleirum að tjóni. Sagt var að hundur sem hefði einu sinni bitið myndi bíta aftur. Ég fékk á hinn bóginn innilega bón frá heimili Sókratesar um að hlífa honum, og þá einkanlega eiganda hans, og láta niður falla. Skáldkonan var í öngum sínum og leið vítiskvalir við tilhugsunina um að hennar kæri vinur yrði kannski burtkallaður og það með þessum hætti. Ég velti þessu mikið fyrir mér og á endanum ákvað ég að láta kyrrt liggja því ég gat ekki hugsað mér að hrekkja Nínu Björk, þetta viðkvæma og merkilega skáld, með því að láta aflífa Sókrates. Nóg hafði hún annað á sinni könnu.
Í þakklætisskyni bauð Nína Björk mér heim nokkru síðar, í málsverð ef mig misminnir ekki. Settist ég í sama stól og síðast og kom þá til stofu hundurinn Sókrates, hinum megin í herbergið og sat þar og hengdi haus nokkra stund. Ég þóttist ekki sjá hann, minnug þess hvernig síðast fór og fann til beigs, sem er kannski ekki skrítið. Þá bar svo við að hann lallaði ofurhægt yfir stofugólfið, með höfuð við gólf alla leið, og staðnæmdist fyrir framan mig án þess að líta upp. Ofurhægt leit hann svo upp og lagði því næst höfuðið á hné mitt og stóð þannig alveg kyrr drjúga stund. Hann var sumsé að biðjast afsökunar á framferði sínu. Ég man að ég fékk tár í augun, strauk honum um kollinn og sagði honum að allt væri í besta lagi. Ef hann fyrirgæfi mér glápið og framhleypnina þá fyrirgæfi ég honum að ráðast á mig. Skildum við svo mestu mátar og stundin með Nínu Björk var að vonum góð. Aldrei hef ég fundið til ótta við hunda eða nokkra skepnu síðan og þetta atvik er mér í fersku minni, svo einkennilegt var það og hrífandi.
Árum síðar átti ég eftir að hitta Nínu Björk í sumarbústað við Þingvallavatn, þangað sem hún kom endrum og sinnum til að skrifa. Þá var ég landvörður í Þingvallaþjóðgarði og hafði verið beðin um að líta til með henni, enda var hún ein í húsi og utan sumartímans. Hún var gífurlega þjökuð og leyndi sér ekki að hún glímdi við demóna og var fjarri ljósi. Við gengum stundum um hraunið, hún hélt dauðahaldi í mig. Stundum töluðum við og stundum þögðum við. Hún velti fyrir sér að láta staðar numið á þessum tíma. Þarna átti hún aðeins tæpan áratug ólifaðan en þó eftir að skrifa enn fleiri stórkostleg ljóð og leikrit á þeim tíma. Hún var meiriháttar skáld og ein af þessum manneskjum sem var of fíngerð fyrir veröldina, í það minnsta íslenskan veruleika eins og hann var í þá daga.
Nína Björk kom snemma inn í líf mitt, ég var farin að lesa verkin hennar fimmtán ára gömul. 1982 kom ljóðabók hennar Svartur hestur í myrkrinu út og ég man að ég gaf Ingu Þóreyju Jóhannsdóttur vinkonu minni hana í sextán ára afmælisgjöf eina blíða júnínótt í Húsafelli, þar sem vorlækir sitruðu um grjótvellina og allir steinar voru ýmist fagurbláir eða ljósbleikir uns dagur rann og þeir urðu aftur gráir. Svartur hestur í myrkrinu er ennþá ein af mínum uppáhalds ljóðabókum og ég á hana blessunarlega áritaða af höfundi. Nínu Björk hefur síðar brugðið fyrir í mínum ljóðum og líka svörtum hesti í myrkrinu. Sumt fylgir manni ævilangt.
Við Ari Gísli kynntumst líklega undir tvítugt, eða um 1986. Matthías Johannessen leiddi okkur saman í verkefni fyrir Morgunblaðið 1988, það var að fara um allt land og taka viðtöl við hvunndagshetjur sem hefðu sögu að segja (ég átti í kjölfarið eftir að vera viðloðandi Moggann næstu tuttugu árin). Við vorum einnig á sama vettvangi reykvískra ungskálda á þessum árum, að lesa upp á opinberum stöðum og fá ljóð okkar birt í Lesbók Mogga og bókmenntaritum. Svo áttum við sameiginlegan Sigurð frænda minn Arnarson, prest í Kópavogskirkju, en þeir Ari voru skólabræður. Ari Gísli fór eftir nokkurt nám að vinna með Braga pabba sínum í fornbókabúð fjölskyldunnar og tók svo seinna við rekstri hennar.
Ör hef ég dálítið eftir hundinn Sókrates, sem í minningargrein um Nínu Björk gengna árið 2000 var kallaður snillingshundur, en það kemur ekki að sök heldur minnir mig stundum á gassagang ungdómsáranna og að það sem virðist slæmt getur orðið gott.
(2021)
1Nína Björk Árnadóttir fæddist á Þóreyjarnúpi, Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu 7. júní 1941. Foreldrar hennar voru hjónin Lára Hólmfreðsdóttir og Árni Sigurjónsson þar búandi. Þrettán mánaða gömul fór Nína í fóstur til ömmusystur sinnar Ragnheiðar Ólafsdóttur og manns hennar Gísla Sæmundssonar að Garðsstöðum við Ögur í Djúpi. Ólst hún upp hjá þeim og fluttust þau til Reykjavíkur árið 1946 og voru búsett í Reykjavík síðan.
Nína Björk var gagnfræðingur frá Núpi í Dýrafirði og lauk síðar námi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og stundaði um nokkurra missera skeið nám við leiklistarfræðadeild Kaupmannahafnarháskóla. Hún var skáld og húsfreyja í Reykjavík, á Eyrarbakka og í Kaupmannahöfn. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Ung ljóð, árið 1965 og síðan margar ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, leikrit og ævisögu Alfreðs Flóka. Ljóð hennar voru þýdd á fjölmörg erlend tungumál og leikrit hennar sýnd í öllum hefðbundnu leikhúsunum hérlendis og í sjónvörpum á Norðurlöndum. Hún fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarps og var borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1989.
Nína Björk giftist 1. sept. 1966 Braga Kristjónssyni bókakaupmanni og eru synir þeirra: Ari Gísli Bragason, Valgarður og Ragnar Ísleifur.
(Minningargreinar í Morgunblaðinu, í apríl 2000).