yrkir titill svhv2019.

Kristján frá Djúpalæk og ljóð eftir óþekktan höfund

Vorið 1992 var ég í nokkrar vikur í húsi Davíðs skálds Stefánssonar frá Fagraskógi við Bjarkarstíginn á Akureyri, við skriftir. Ég var þá að leggja síðustu hönd á ljóðabókina Dísyrði sem kom út seinna sama ár. Þarna átti ég góða daga og þáði meðal annars heimboð Jónasar Kristjáns Einarssonar*1, það er að segja Kristjáns skálds frá Djúpalæk, og Unnar Friðbjarnardóttur konu hans. Ég hlýt að hafa rekist á Kristján í bænum á einhverri samkomu og þetta heimboð orðið til þannig, því ég þekkti hann ekki áður. Ég var mjög spennt að fá að hitta hjónin, einkum þó skáldið og þótti fengur að heimboðinu.
Þegar ég kom til hjónanna var Unnur búin að baka pönnukökur og fylla með sultu og rjóma. Kaffið beið rjúkandi. Þetta færði hún okkur Kristjáni í setustofu þar sem hann sat 76 ára gamall og allbrattur í löngum sófa og ég fékk sæti í þægilegum stól gegnt honum. Á milli okkar var borð með bókastöflum, sem var auðvitað tilhlýðilegt. Unnur spjallaði aðeins en settist ekki niður og lét okkur svo ein.

Kristján vildi forvitnast um mig, hvaðan ég væri sprottin, hvað ég væri búin að skrifa og hvert ég stefndi. Ég færði honum fyrstu ljóðabókina mína, Einleik á regnboga, sem Almenna bókafélagið hafði gefið út þremur árum áður, eða 1989. Tók hann sér nokkra stund í að glugga í bókina, en varð svo allt í einu strangur mjög á svip og otaði að mér fremstu opnu bókarinnar þar sem ég hafði sett ákaflega fallegt lítið ljóð eftir óþekktan höfund. ,,Þetta er eftir mig! Ég skrifaði þetta! Og hér stendur „óþekktur höfundur“ undir! Þetta er ritstuldur,“ hrópaði Kristján upp úr sófanum og fórnaði höndum.
Nú fór heldur betur um mig og mesti glansinn var af heimsókninni. Ég var algjörlega gáttuð. Og nú sagði ég hinu góða skáldi, eldrjóð og skömmustuleg, hvernig því háttaði að ljóðkornið lenti í bókinni minni. Það var nefnilega þannig að Birgitta Jónsdóttir, vinkona mín og sálufélagi í þá tíð, hafði gefið mér síðurifrildi úr tímariti sem hún hafði fengið með sendingu frá Bergþóru Árnadóttur móður sinni sem þá bjó í Danmörku. Síðan var með fallegri óhlutbundinni mynd í mjúkum litum og svo þessu litla ljóði með sínum stóra boðskap og hljóðar svo: ,,Formæltu ekki steinvölunni/er særir il þína/göngumaður/kannski geymir hún/undir hrjúfri brá/það sem þú leitar/kannski er hún sjálfur/óskasteinninn.“ Og sem yfirskrift hafði ég sett „Um ljóðin“ og undir í sviga „óþekktur höfundur“. Þetta hafði mér fundist ægilega flott og þótt súmmera upp ljóðin í bókinni minni og því haft fremst til skrauts.
Kristján dreif fram stóra og mikla ljósmyndaljóðabók*2 frá árinu 1977 þar sem íslenskir steinar höfðu verið sagaðir í flísar og þær svo gegnumvarpaðar birtu og ljósmyndaðar í allri sinni dýrð, og hann svo samið ljóð sem birt voru við hverja mynd. Þetta var sannast sagna mjög falleg bók og í henni var einmitt þetta umrædda ljóð. Það var ekki um að villast.

Kristján kaus þó að trúa mér varðandi barnaskapinn og heimóttarháttinn (þetta var nota bene fyrir daga internetsins og leitarvélanna), að ég hefði talið mig í bestu vitund um að ljóðið væri ókennt nokkrum og ég mætti því að ósekju fá það lánað. Svo hlógum við dálítið að þessu öllu saman og refilstigum skáldskaparins og fór vel á með okkur. Ekki laust við að við hefðum bara náð einhverjum fallegum tengslum í gegnum þessi afglöp mín. Ég var þakklát Kristjáni fyrir að taka þessu ekki illa. Honum var enda lýst á eftirfarandi hátt í minningargrein: „Kristján frá Djúpalæk, en svo nefndi hann sig jafnan, var yfirlætislaus og hlýr maður í viðkynningu. Hann var eftirminnilegur í sjón og raun. Hár vexti og svipúðigur, augnaráðið oft ofurlítið glettið en hlýtt. Honum var haturlund fjarlæg, en umburðarlyndi huglægt.“*3

Kristján sagði mér af sínum eigin skáldskap og samferðamönnum á ritvellinum og gaf mér góð ráð varðandi skriftir og sköpun. Þegar lækkað hafði allnokkuð á pönnukökufatinu og kaffið var orðið kalt bjó ég mig til brottfarar og Kristján stakk á mig nokkrum bókum að skilnaði. Þetta var eftirminnileg heimsókn og ég taldi mig lánsama að hafa fengið að kynnast Kristjáni agnarögn og feðra ljóðið atarna.
Kristján lést tveimur árum síðar.

(2021)

 

Heimildir:


1 Kristján frá Djúpalæk (16. júlí 1916-15. apríl 1994) var íslenskt skáld. Fullt nafn hans var Jónas Kristján Einarsson.
Kristján var fæddur að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu. Þetta landsvæði er austan Langaness og kallast Langanesströnd eða bara Ströndin af heimafólki og er við Bakkaflóa.
Foreldrar Kristjáns voru hjónin Einar Vilhjálmur Eiríksson (1871 – 1937), og Gunnþórunn Jónasdóttir (1895 – 1965).
Sem barn sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum unglinga, gegndi ám, gekk rekann og hirti sprek og fjalir, rótarhnyðjur og smámor og bar það upp á malir til þurrkunar svo nota mætti það í eldinn. Og ef heppnin var með mátti stundum finna rauðmaga á klöppunum sem rotast höfðu í brimrótinu. Gómsætt nýmeti.
Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri. Um vorið 1937 lést faðir hans og hélt hann þá heim að loknum prófum og vann hjá bróður sínu Sigurði við gerð íbúðarhúss sem hann var að byggja á nýbýlinu Bjarmalandi sem er aðeins steinsnar frá Djúpalæk. Bæði Djúpilækur og Bjarmaland eru núna eyðibýli.
Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur (1917-2010), sem hann kvæntist og bjó með til dauðadags.
Unnur og Kristján hófu búskap í Staðartungu árið 1938. Kristján þótti ekki sérstaklega hneigður til búskapar enda brugðu þau hjónin búi árið 1943 og fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu næstu sex árin. Á þeim tíma vann Kristján aðallega verksmiðjuvinnu sem honum leiddist og hann þoldi illa. Hann fékk útrás við ljóðagerð og varð kunnur af henni og gerðist virkur verkalýðssinni. Þarna hófst einnig vinátta hans og Heiðreks Guðmundssonar skálds sem entist ævilangt.
Í lok árs 1949 fluttu Kristján og Unnur til Hveragerðis sem þá var listamannamiðstöð Íslands. Þar bjuggu þau í húsi sem kallað var Bræðraborg eða Frumskógar 6.
Um þetta leyti var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og varð eftir því sem árin liðu æ þekktari. En frægðin dugði ekki til, það vantaði salt í grautinn eins og hjá fleiri listamönnum. Hann þurfti fyrir fjölskyldu að sjá og því tók hann að sér ýmsa vinnu. Hann var barnakennari í Hveragerði og Þorlákshöfn, og vann einnig við garðyrkjustörf, húsamálun og ýmislegt fleira.
Á Hveragerðisárunum kynntust hjónin meðal annarra Jóhannesi úr Kötlum, Kristmanni Guðmundssyni, Gunnari Benediktssyni, séra Helga Sveinssyni og fleiri mætum mönnum. Þarna bjuggu Kristján og Unnur til ársins 1961 og þar fæddist þeim einkasonurinn Kristján Kristjánsson heimspekingur sem nú er háskólakennari á Akureyri.
Árið 1961 fluttu hjónin aftur til Akureyrar og í nokkur ár þar eftir tók Kristján að sér ritstjórn dagblaðsins Verkamannsins ásamt því að kenna í Grunnskóla Akureyrar og sinna ýmsum íhlaupastörfum auk vinnu við ritsmíðar sínar. Nokkur sumur sinnti hann veiðieftirliti með ám í Eyjafirði, Fnjóská, Hörgá og Eyjafjarðará.
Kristján fékk margs konar viðurkenningar fyrir ljóðlist sína, svo sem verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og úr Listasjóði Akureyrarbæjar og naut Listamannalauna allt frá 1948.
Í formála að einni af ljóðabókum hans veltir Gísli Jónsson fyrrverandi menntaskólakennari fyrir sér þeim andstæðum sem toguðust á Kristjáni:
„Kristján frá Djúpalæk er í senn íslenskur sveitamaður og alheimsborgari. Alls konar andstæður hafa togast á um hann: útþrá, heimþrá; breytingagirni, fastheldni; uppreisn, auðmýkt; beygur, dirfska; innileiki, kaldhæðni; alvara, skop; afneitun, trúrækni. Af öllum þessum þáttum er persónuleiki hans slunginn og verður því mörgum torskilinn. Hann er skáld myrkursins í leit að ljósinu, skáld lífsblómsins sem stendur skjálfandi andspænis dauðanum og veit þó að hann er „vinur, bróðir“.
En umfram allt er hann bara skáld.“
Kristján lést 15. apríl 1994 og var jarðsunginn í Akureyrarkirkju þann 22. apríl.


Ritaskrá
Ljóðabækur
1943: Frá nyrztu ströndum.
1945: Villtur vegar.
1948: Í þagnarskóg.
1950: Lífið kallar.
1953: Þreyja má þorrann.
1957: Það gefur á bátinn.
1960: Við brunninn.
1966: 7 x 7 tilbrigði.
1966: Í víngarðinum, (kvæðasafn)
1972: Þrílækir.
1975: Sólin og ég.
1977: Óður steinsins, The Song Of The Stone (ljóð við myndir).
1979: Punktar í mynd.
1981: Fljúgandi myrkur.
1986: Dreifar af dagsláttu, (kvæðasafn).
2007: Fylgdarmaður húmsins, (heildarkvæðasafn).

Þýðingar
Kardemommubærinn, um 1960 (ljóðaþýðingar).
Dýrin í Hálsaskógi, um 1962 (ljóðaþýðingar).
Síglaðir söngvarar, (ljóðaþýðingar)
Galdrakarlinn í Oz, (ljóðaþýðingar)
Tommi og fíllinn, (ljóðaþýðingar)
Karamellukvörnin, (ljóðaþýðingar)
Rauðhetta, (ljóðaþýðingar)
Jólaævintýri Dickens, (ljóðaþýðingar)
Börnin búa sig vel, 1993 (barnaefni).
Börnin leika sér, 1993 (barnaefni).
Börnin leika saman, 1993 (barnaefni).
Börnin hjálpast að, 1993 (barnaefni).
Dýrin baða sig, 1993 (barnaefni).
Dýrin leika sér, 1993 (barnaefni).
Dýrin næra sig, 1993 (barnaefni).
Dýrin sofa, 1993 (barnaefni).

Önnur ritverk
Á varinhellunni, 1984. (bernskumyndir af Langanesströndum).
Akureyri og norðrið fagra, 1974 (ljóðrænar myndskýringar).
Píla pína, (ævintýri með söngvum).
Vísnabók æskunnar (þýdd og endursamin.
Ævintýri í Maraþaraborg

Heimild, Wikipedia.

 

2 Óður steinsins, The Song Of The Stone (ljóð við myndir). Kristján frá Djúpalæk.
Útgáfuár: 1977. Útgefandi: Gallery Háhóll
Texti á ensku og íslensku. Ljósmyndir teknar af Ágúst Jónssyni. Eftirmáli Steindór Steindórsson. Ensk þýðing Hallberg Hallmundsson. Bók í stóru broti.

3 Bragi Sigurjónsson, Morgunblaðið, 1994.