yrkir titill svhv2019.

Húslestur á hátíðarpalli 17. júní 2018 á Fljótsdalshéraði

Kæru hátíðargestir.
Síðast stóð ég hér á þjóðhátíðarpalli árið 2010 og minntist þá í hátíðarræðu á ömmu mína Guðlaugu Sigmundsdóttur frá Gunnhildargerði sem var mikil kjarnakona, fædd árið 1895. Hún giftist Pétri Sigurðssyni frá Hjartarstöðum sem var búnaðarskólagenginn og vann frumkvöðlastarf fyrir Búnaðafélag Austurlands við að kenna mönnum að nota plóg og herfi á bújörðum sínum. Þau fluttu suður til Reykjavíkur 1933 í kjölfar heilsubrests afa míns og höfðu þá líka tvívegis misst fjárstofn sinn að miklu leyti, fyrst í lungnaveiki og svo garnaveiki.

Að þessu sinni var ég beðin um húslestur og þá liggur eiginlega beint við að fara í endurminningar Guðlaugar. 1986, tveimur árum fyrir andlátið, var birt langt og ítarlegt viðtal við hana um bernsku hennar, unglings- og fullorðinsár. Þarna eru kynstrin öll af dýrmætum upplýsingum um búskaparhætti og heimilishald, matargerð, uppeldisaðferðir, vinnulag, samgöngur, afþreyingu, heilsufar og lífið almennt.
Ég gríp niður þar sem segir af kaupstaðarferð úr Hróarstungu fyrir svo sem eins og hundrað og tíu árum síðan, sem er í senn mjög langur og mjög stuttur tími, enda tíminn kúnstug skepna.

,,Það var siður að þeir söfnuðust saman bændurnir af þremur, fjórum bæjum og fóru venjulega í lestarferðir allir saman bæði haust og vor. Þeim þótti það léttara, þá var farið yfir Lagarfljót. Það var tíu mínútna gangur heiman frá mér og ofan að Lagarfljóti. Og þar hafði pabbi minn ferju og stundum voru þær tvær, því það svo mikið að ferja alla, önnur ferjan var þá höfð aftan í hinni. Hestarnir voru sundlaðir í fljótinu. Það var mjótt þar, kallaður Rimi og það var ferjað fyrst yfir með hestana og ull og stundum voru hestarnir hafðir aftan í ferjunum, þeir sem voru styggir.
Svo var farið á Seyðisfjörð, um Hjaltastaðarþing og Eiðaþinghá og upp á Vestdalsheiði. Þar tók við langur dalur sem heitir Gilsárdalur. Þar upp á háfjallinu er svonefnt Nikurvatn, stöðuvatn, ákaflega einkennilega fallegt. Í kringum vatnið eru svonefndar Hellur, það var háfjallið sem að farið var yfir. Svo var komið að voða brekkum og farið ofan í Seyðisfjörðinn. Fyrst um Bröttubrekku svonefnda en hún er nú skáskorin og þar er komið ofan í Vestdal ofan í kaupstaðinn.
Svo var ullin afhent og tekið á hestana. Það var alltaf 200 kg á hest, 100 punda poki á hvorum klakk. Þeir fluttu oft trjávið heim. Pabbi minn hann lagði aldrei undir veturinn öðruvísi en að hafa til borð sem að haft var til að smíða líkkistur úr. Eina eða tvær, því við var ekki hægt að nálgast á veturnar ef einhver féll frá. Og þetta var dregið á blessuðum skepnunum. Ef það kom fyrir að einhver dó og enginn borðviður var til heima þá var kannski fengið stórt tré utan af Húseyjarsandi til þess að saga og hefla.
Þegar heim átti að halda varð að leggja fyrst á þessar voða brekkur upp úr Seyðisfirðinum. Taka ofan á Hellum, því þá voru hestarnir uppgefnir. Og það var nú særingarlegt að það var oft haft með sér hey í pokunum til að gefa hestunum, því það var enginn gróður hvorki á Hellunum né í kringum Nikurvatnið. Svo er farið yfir Hellurnar og út Gilsárdalinn ofan undir Gilsárteig eða Hjartarstaði og þar varð enn að taka ofan af hestunum og hvíla þá og lofa þeim að taka í jörð. Síðan var farið út að Gerðisferju og ferjað þar yfir fljótið, tekið þar ofan og sett í ferjurnar af öllum þessum hestum. Þetta stóð svo lengi við að ferja yfir, svona margt og mikið. Úr kaupstaðarferðinni var komið heim með skreið, korn grjón, hveiti, smávöru sem maður segir eins og léreft í treyjurnar og svunturnar og svo bara allt annað sem þurfti að taka úr kaupstað.“

Svo mörg voru þau orð. Og það er svo magnað að við sem erum kannski miðaldra og eldra fólk um þessar mundir tengjum enn við þann veruleika sem forfeður okkar bjuggu við og lýst er meðal annars hér á undan. En unga kynslóðin hefur litlar sem engar forsendur til þess að skilja þessa liðnu tíma og er miklu fremur fólk framtíðar en fortíðar, sem er bara ágætt. En við hin skynjum líklega harla vel hversu lygilega miklar breytingar hafa orðið á tilveru Íslendingsins á örstuttum tíma. Ég segi þá bara Veldur hver á heldur og bið ykkur öll vel að lifa.

17.06.2018