yrkir titill svhv2019.

Í tilefni af orðræðu um uppreist æru til handa voðamenni

Ég man eftir þessum manni á menntaskólaárum mínum. Hann var tíður gestur á veitingahúsum miðborgarinnar og barst mikið á. Í mínum hópi var vitað að hann væri stórhættulegur og að við ungu stelpurnar þyrftum að gæta okkar alveg sérstaklega vel ef hann var í nánd. Stelpur sem höfðu lent í honum töluðu um stóru skrifstofuna hans í austurborginni, stóran partítrukk sem hann notaði á ,stelpuveiðum‘ og hús í Hveragerði þar sem misnotkun fór fram. Hann var illa þokkaður og undirförull hrægammur sem beitti fyrir sig peningum og hugbreytandi efnum til að fá það sem hann vildi.

Þetta dusilmenni var ekki hið eina sem lagði ljótar snörur sínar á þessum tíma en það er gömul saga og ný. Það er undarlegt og hræðilega dapurlegt til þess að hugsa að bernsku-, unglings- og snemmfullorðinsár íslenskra stúlkna skuli enn fara í að reyna að forðast allra hættulegustu rándýrin til að lifa af og reyna jafnframt stöðugt að verjast og herða sig upp gagnvart ofríki og yfirgangi karla í daglegu lífi. Eftir liggja mörg fórnarlömb í valnum. Ég vona sannast sagna að stúlkur dagsins í dag hafi vit á að læra að verja sig með samhjálp og samstöðu, sjálfsvarnarþekkingu og -tækjum, kjafti og klóm. Það er löngu komið nóg.

Ég bið fjölmiðla og allt velhugsandi fólk að láta ekki kyrrt liggja gagnvart því að íslensk yfirvöld hafi veitt manninum uppreist æru. Fyrir fólkið í þessu samfélagi er það í senn kjaftshögg, lítillækkandi og enn eitt alvarlegt brot á trausti.

 

Birt á Facebook 9. júlí 2017