yrkir titill svhv2019.

Jólavaka 1987

Ég tek þig með mér burt frá stórkostlegri hringiðu hversdagsleikans og býð þér sæti á áhorfendabekk, í fremstu röð.
Við horfum á margvíslegt fólkið gusast til og frá eftir votri hellulögninni, í óða önn að kaupa sér tíma og jólagjafir.
Já - furðar þú þig ekki á að enn eitt skiptið eru að koma jól? Þau virðast koma í röðum og hverfa út í loftið jafn skyndilega og þau komu. Sjáðu til, þetta þreytta fólk hér fyrir framan okkur hefur jólin utan á sér en ekki svo mjög innan í sér. Það er hálfpartinn búið að gleyma því að jólin séu annað en svallveisla stórkaupmannsins, man það kannski í ógreinilegri hendingu þegar það hringast máttvana ofan í sófana eftir allsherjarhreingerningar og ofát.
Við hér á áhorfendabekknum, ég og þú, finnum kannski til þess að værum við lítil börn, leitandi og skæreygð, fyndum við í gömlum sálum okkar hvað jólin eru. Ég spyr þig hvort þú vitir hvað ég meina og þú segist halda að þetta geti verið einhver svona tilfinning, bæði í hjartanu og maganum á þér. Við samþykkjum að þetta sé eitthvað skylt friði og mannelsku sem eigi að vera innan í höfðum okkar, ekki í innkaupapokum á hraðferð í jólaljósum Bankastrætisins. Svo náttúrulega vitum við að fólkið þarna hefur þetta líka í höfðinu, það má bara ekki vera að því að hleypa þessari tilfinningu inn um eyrun og út um augun og munninn.

Við brosum bara góðlátlega og okkur hefur tekist að draga gluggatjöld sálarinnar frá, þessa stund sem við dvöldum hérna. Við ákveðum að hittast aftur, því annars munum við gleyma að við höfum enn tækifæri til að heimsækja þennan lífsins áhorfendabekk af og til. Við kveðjumst með hlýlegum jólaóskum, fullum af kærleika og þjótum inn á meðal fólksins.