yrkir titill svhv2019.

Högg smiðanna

Högg smiðanna berast í morgunkyrrðinni
vélaniður leggst yfir sólbaðaðan húsagarð
og fólk tínist úr dyrum og hverfur til vinnu
í fyrra var þetta stóra hús í niðurníðslu
en hefur nú hlotið umönnun fagmanna
nýja skjái, tréverk, múrhúð og málningu
finn beinlínis hvernig húsið réttir úr sér
og gengur stolt í endurnýjun lífdaga
ég stend á svölum og horfi yfir í skóginn
þrátt fyrir sóttkví má taka þar göngu
kuldi er í lofti enda haust aðvífandi
kvíði hvorki því né hinum langa vetri
meðan þetta sterka hús skýlir mér
þó ég þrái nú þegar vorið á nýjan leik

hvernig skyldi heimur verða að vori?

 

 

(2020)