Leið 57
Tók leið fimmtíu og sjö úr hjónabandi austur á landi
stökk af vagninum í Mjóddinni með allt mitt hafurtask
eftir nestisstopp á miðri leið við mörk fljóts og hafs
ruddist sem ísbrjótur gegnum hverja hindrun í vegi
með társtokknu harðfylgi
allt tókst sem til var efnt
fór þó um margt öðruvísi en ætlað var
löngu kunn staðreynd;
maður fær aldrei nákvæmlega það sem beðið var um
í heilanum æðandi hugsanalestir á tugum samsíða spora
spurning um að setja samgöngubann á þetta svarta suð
hef nú ráfað eins og uppvakningur um veröldina í mánaðavís
beðið eftir að lífið kæmist á sporbaug um hjartafrið að nýju
enn á fleygiferð eftir veginum sem ég legg jafnharðan
og veit ekkert hvert liggur - hann vindur sig í brekkur og hlykki
þetta er minn vegur, minn farkostur og ég er við stýrið.