Unnarbyr
Lagðir á djúpið.
Væri ei vindur í segl
var lífsfley knúið
afli breytinga
uns byr fengist.
Í þessu hafi
sigldir þú
innan um sæskrímsl,
holskeflur og hákarla,
en líka fínlega sæhesta,
lognöldu og laxfiska.
Hvass og ákveðinn
varð byr þinn
þá er hann kom.
Þeytti þér á ölduföldum!
Undiraldan djúp
og víðfeðm;
vilji þinn og vit,
endurlausn þín.
Andinn upplyftur,
skilningurinn skær,
sálin frjáls.
Þú gerð úr efni
sem þolir átak,
en um leið fínleg
sem þráður silkis.
Vináttan
heiðríkja,
byggð á kærleika
og þekkingarþrá.
Þolir fjarlægð,
þroskast í
tímanum.
17.11.´17.
Til Unnar Sveinsdóttur
fimmtugrar 24.11.2017.