Fyrsta ljóðið
Skóhlífaljóð
Morguninn skín eins og nýburstaðar skóhlífar,
maðurinn kemur heim og fer úr skóhlífunum.
Trjákróna slæst við gluggann
og gefur umhverfinu undarlegan svip.
Húsið tómlegt og illa hirt,
engin börn að leik,
ekki hinn ómissandi lífsandi.
Aðeins maður
og gljáandi skóhlífar.
Það líður á daginn,
myrkrið læðist hljóðlega
eftir þröngum götum og skúmaskotum.
Værð sígur á borgina
en brátt mun hún lifna á ný
og glansa og skína
sem nýburstaðar skóhlífar.
1980