Gangstéttirnar hvískra
... og tíminn líður og bíður ekki
verður bókvitið í askana látið
getur þú lánað mér hundraðkall fyrir brauði?
einn á rölti um bæinn
það er rökkur og vorið er að fara að sofa á milli trjánna
– undir vængjum þrasta
enn á rölti um bæinn og gangstéttirnar hvískra
leyndarmáli um auðnarlega gráa liti og einmanaleika
hann hvíslar á móti að þær skuli þegja
því hann ætli ekki að hugsa neitt
og allra síst um einmanaleika
sest svo á tóman bekk framan við runna
með sofandi vori í og fer að gráta
og er bara aleinn í hugsanaleysi sínu með ekkert
í farteskinu nema magnvana angist
þess sem fær ekki sofið um nætur
heldur eigrar um flatneskjuna
og bíður þess að vorið læðist fram undan þrastarvængjum
og fylli morgunbirtuna hlýju
hann býr í ferhyrndu húsi og veggirnir anda köldu
gagnsæjar rúður boða vetur vor sumar eða haust eftir atvikum
loftið er lágt og gólfið ber vott um hversdagsleika
hann þykir innilokaður í hugsun og atferli
er það nokkur furða sé tekið tillit til aðstæðna?
um nætur dreymir hann um ímyndunarafl
og að hann búi í víðáttunni
en það er náttúrulega aðeins draumur
röddin svo langt í burtu en samt inni í honum í iðrunum
1990