Áratök tímans
Áratök tímans, bók 70 ljóða Steinunnar Ásmundsdóttur frá árunum 2016-2018, kom út 5.
maí 2018 hjá hinu einkar virðulega Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi sem er ein öflugasta ljóðabókaútgáfa landsins og hefur starfað í átján ár.
Eins og titill bókarinnar ber með sér rær höfundur á mið tímans og hugleiðir hvað hefur sterkust tök á honum í sínu lífi. (Sjá sýnisljóð neðst á síðu).
Kaflarnir eru þrír, Heimaland, Útland og Innland. Sá fyrsti lýsir atvikum uppvaxtar- og umbrotaára í Reykjavík, þá taka við ferðalög á ókunnar slóðir og síðasti kaflinn fjallar um heimkomuna og að festa rætur í daglegum veruleika við bakka hins mikla Lagarfljóts.
Ljóðin eru mörg mjög nærgöngul og lýsa upplifun og reynslu sem sest hefur að í Steinunni
og mótað persónu hennar.
Anton Helgi Jónsson skáld segir ljóðabókina Áratök tímans eftir Steinunni Ásmundsdóttur hafa komið sér ,,gífurlega mikið á óvart“ og nefnir miðkafla bókarinnar, Útland, sem hefur að geyma ljóðminningar frá öðrum löndum. ,,... Hún er hér og þar á ferð um heiminn, hún er í Mexíkó, á Grænlandi, Þýskalandi og svona og horfir á fólk. Hún er greinilega gestur af því að hún getur sagt hvað sem er og hún dregur upp svakalega sterkar og skýrar mannlífsmyndir þarna,“ segir Anton Helgi.
Útvarpsþátturinn Orð um bækur á RÚV, 27. janúar 2019, umfjöllun um áhrifamestu ljóðabækur ársins 2018.
Upplestur úr Áratökum Tímans (sjónvarpsupptaka)
Ritdómur, Þórður Helgason, tímaritið Glettingur 1. tbl. 2019.
Panta eintak HÉR
Fjögur sýnisljóð úr Áratökum tímans:
Kveðja
Ég var á rölti um heiðarlandið í góðu veðri
þegar maður kom hlaupandi eftir slóðinni,
kallaði og benti mér að koma,
faðir minn væri látinn.
Svo langur stígurinn,
seinfarinn vegurinn
og þybbin kona á hvítum slopp sagði nei,
ég gæti því miður ekki fengið að kveðja,
hann væri kominn í líkhúsið,
biði krufningar vegna hjartastærðar.
Ég vissi það vel að hann hafði stórt hjarta.
Fyrir það langaði mig að kveðja hann.
Tuttugu þúsund bláar flísar
(Konstantínópel, Tyrkland)
Sjö mínarettur bláu moskunnar
hafa vakað yfir bænum fólks
í fjögur hundruð ár.
Bænakallið frá þeim endurkastast
áleitið en heillandi
um stræti borgarinnar.
Þeir sem heyra
hverfa frá daglegri iðju í tilbeiðslu.
Voldugt himinhvolfið
flýtur yfir líkömum á teppabreiðu.
Hver bæn jafnmikilvæg,
hver blá flís jafnmikilvæg.
Litríkt skótauið utan hvelfinganna
eins og hafsjór af vonum.
Minnir á fjölbreytni mannlífsins,
að hver gengur sína leið.
Brestir
(Qaqortoq, Grænland)
Þær eru knáar þessar lágvöxnu konur
sem bera mennina sína á öxlinni heim af barnum
eftir hráskinnaleik nútíðar í landinu gamla.
Þeir gubba fram af svölunum þar sem
veiðibráð og skinn hanga til þerris innan um þvottinn.
Hundarnir gelta órólega í gerðinu
og það brestur ónotalega í ísnum á voginum.
Nýr tími násker gamlan merg.
Allt undir fargi óvissu, þjóð og land
og ævagömul jarðbinding að trosna.
Steinbarn
Fór á barinn til að losa öskrið,
athuga hvort ég næði gegnum skelfinguna
til hjartans.
Veinið heima hræddi börnin.
Það rann langdregið út í nóttina,
úr skerandi kolsvartri botnlausri holu.
Um morguninn lygndi og hljóðnaði
eftir því sem birtan jókst.
Unnt að rísa upp og opna dyrnar fram.
Minning um smáan líkama,
steinbarnið,
vafið í klæði og kistulagt.
Öskur; að moldu skaltu verða.