yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á yrkir.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist.
Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum. 

 

 

 

Kona hans
- í Hólavallagarði

Þær liggja í röðum
grafnar í jörð
undir heitinu
„kona hans“
stundum án
eigin nafns.

Þeir skipta tugum
legsteinarnir með
þessa áletrun.

Konur þeirra
hafa ekkert gert,
en þeir verið
kaupmenn, bændur,
prestar, læknar
og sýslumenn.

Það stendur skrifað.

Þær voru aðeins
konur þessara karla.

Ég tek unga dóttur mína
í þetta beinasafn áranna
og við köstum kveðju á
„kona hans“
hvar sem við verðum
hennar varar, til að
votta þessum gleymdu
manneskjum virðingu.

 

 

 

Orðræða

Fólkið fyrir sunnan,
suður á landráðaskaga,
sérfræðingar að sunnan,
lattélepjandi lopatreflar í 101,
heimska malbiksfólkið
sem aldrei hefur farið
út fyrir borgarmörkin
né migið í saltan sjó,
veit ekki hvaðan kjötið kemur!
spandex-lið og listaspírur
sem skilja ekki landsbyggðina,
hafa ekki nef fyrir sveitinni
eða sjávarbyggðum,
sjá bara eigin nafla.

Við eða þið
þið eða við
ekki; við Íslendingar
með sömu hagsmuni
eða; við Jarðarbúar
með sömu hagsmuni
nei,
við og þið.

Þessi ömurlega orðræða
í örríki sundurlyndisins.

 

 

Sumarsólstöður 2021

Nú hefur sólin
hnigið lengst
til norðurs,
um miðja
bjarta nótt
hikar hún
hæst á lofti
eitt andartak
klukkan 03:32,
að því búnu
heldur hún
fyrir jarðar

möndulhalla
með sólbaug
til suðurhvels,
- við til dimmra nátta
og skammdægra.
En þarna -
þessa stund
á sumarsólstöðum
eru dulmögn
kynngi, kraftar
ljóss og vaxtar

mátturinn
og dýrðin.

Við sumarsólstöður sest sólin ekki á stöðum norðan við norðurheimskautsbaug. Norðurheimskautsbaugur er á 66°34'N og sker norðurhluta Grímseyjar og er miðaður við rétta stefnu í miðju sólar og er þá ekki tekið tillit til ljósbrots í andrúmsloftinu. Þegar tekið er tillit til ljósbrotsins og þess að sólarupprás og sólarlag eru miðuð við síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólarkringlunnar, þá sest sólin ekki um sumarsólstöður við nær alla norðurströnd Íslands, eða á stöðum norðan við 65°50'N. (Þórður Arason, vedur.is, 2010).

 

 

 

Sailing Yacht A

Á ytri höfninni
liggur skemmtiskip framtíðarinnar
hannað af frægum sítrónupressuhönnuði

hvergi er hægt að festa fingur
né augu
á marsléttu silfurgráu yfirborði þess
eða ávölum línum
marandi framandlegt á lognbárunni
lokað, innhverft
og afundið

kræklóttir fingur mastranna
ota gildum fingrum að því
sem fyrir stafni er

ætli seglin séu fangaverðir vindsins
eða andvarpa almúgans?

meira að segja fuglarnir
láta þetta þegjandi og þunglamalega
herfley peninganna í friði
og þegar ég horfi á það
setur að mér hroll
̶  jafnvel dystópískan beyg.

 

Ofar í borginni
fæ ég mér göngu
í nývöknuðum skógi
og lít þar aðra hönnun

gullinsnið náttúrunnar
í hálfopnum ljósgrænum
brumum loðvíðis
svo fislétt og dúnmjúk
lofandi lífi og ilmi
gjafmildi til vegfarandans
frá vori til vetrar
fyllir mig friði.

(Þegar auðkýfingurinn Andrey Melnichenko kom á fimmtíu milljarða króna mótor/segl-snekkju
sinni til Íslands vorið 2021. Hún er 142 m löng og möstrin um 100 m á hæð).

 

Hraunungi
efni skírdags 2021

Hrjúfur og ómótaður
hvílir þungur í lófa
steinrunninn hraunklepri
svargrábrúnn
ber með sér forneskju
frumstæða og framandi.

Er þó alveg nýr
runninn frá möttli
móður jarðar
fyrir fáum dægrum
- hraunungi
gerður af fljótandi kviku
sjóðandi eimyrju
vellandi um gosop
á Reykjanesskaga.

Skírður af eldi
bakaður, brunninn
hrár og óveðraður
í senn forn og nýr
frumefni og framtíðarland.

Hvílir þung í lófa
sending úr iðrum jarðar
umbreytingin sjálf
hinn raunverulegi heimur
orku og efnis
þéttur, hægur
í órofa deiglu
skiptir stöðugt
um ásýnd.

 

 

HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.