yrkir

Ný ljóð

 

 

Áttir

Gárur Fljótsins sviptast stríðar inn til landsins
þó það í raun renni út eftir
hægum þungum straumi.
Eins er með tvílráðan vindinn.
Hann blæs úr öllum áttum í senn,
heldur stundarkorn niðri í sér andanum
eins og til að heyra í náttúrunni,
eltist svo áfram við sinustrá og tjalddúka,
öldugjálfur og pilsfalda.
Hér eru áttirnar hver upp á móti annarri.
Trén humma þetta fram af sér
styrk á sinni rót,
virðast lítt uppnæm.
Jafnvel ekki þegar ráðvilltar manneskjur
faðma þau þétt til að ná áttum.

 

Vatn

Sumarlegur og glitrandi fossinn
myndar hljóðvegg að baki eins og bjartur tenór.
Léttstígar lindir til beggja hliða
önnur alt og hin sópran
það fer eftir stærð grjótsins sem þær seytla um.
Framundan rennur Lagarfljót
brimar grábrúnt á land í síðdegisgolunni,
bassi úr djúpum vatnsbolnum.
Sit á sandeyri með lokuð augu í sólinni
hlusta á hreinsandi hljómkviðu vatnsins.

 

Tíðin er góð

Ljóð spretta eins og jurtir hið innra.

Vaxtarsprotar kúra í jarðveginum,
um leið og dreypt er á þá vatni og ljósi
spretta upp hin margvíslegustu blóm
ólík að lit og lögun, misjafnlega þróttmikil
en öll vilja þau lifa,
að lesandi ljái þeim vængi.