yrkir

Ný ljóð

Orð

Jólaljós bregða hvikulli birtu
á þungbúið hundraðáraafmæli

húkandi í skugga ógeðfelldra orða
sem reynast munu mönnum dýr.

Þó nokkrar konur krefjast afsökunarbeiðni og iðrunar.
Þúsund konur krefjast nýrrar stjórnarskrár.
Allar konur krefjast réttlætis
— að kúgun, sora og ofbeldinu linni.

Getið þið karlar ekki verið til friðs?

Manni dettur í hug mengi sem leitast við að
útrýma sjálfri sér 
— innan frá.

Mikið er þetta aumt.
Mikið er þetta hættulegt.
Mikið er ég þreytt á þessu.


Ófrjór jarðvegur

Má vera að tréð standi
líflítið og laufvana
fast á sinni rót
í jarðvegi áranna.
Ekki gott að segja
hvort djúp fleiður
undins barkarins
stafa af vexti
sem sprengir hýðið
eða sjúkdómi.

Árhringir þessa trés
verða ekki fleiri
hér í kræklóttum haustskógi
þar sem naktar greinar
ota gráfingrum til himins
í þöglu ákalli.
Nei, hingað kemur kona
með reku að vopni
mokar upp tréð
flytur í hlýrra loftslag
leggur þar rætur í frjóa mold
og vökvar vatni og blessun.

 

Langflug

Í bláum himni
ótal litbrigða
skjótra haustskýja
sameinist þið
hátt á lofti

þreytið oddaflug
undan banasárum
og vetrarhörku.

Langt í fjarska
berast smáfuglar
íslensks sumars
yfir Afríkuströnd
en í sölnuðum móa
sit ég og trega.