yrkir

Ný ljóð

 

Ófrjór jarðvegur

Má vera að tréð standi
líflítið og laufvana
fast á sinni rót
í jarðvegi áranna.
Ekki gott að segja
hvort djúp fleiður
undins barkarins
stafa af vexti
sem sprengir hýðið
eða sjúkdómi.

Árhringir þessa trés
verða ekki fleiri
hér í kræklóttum haustskógi
þar sem naktar greinar
ota gráfingrum til himins
í þöglu ákalli.
Nei, hingað mun koma kona
með pál og reku að vopni
moka upp tréð
flytja það í hlýrra loftslag
leggja rætur þess í frjóa mold
og vökva vatni og blessun.

 

Langflug

Í bláum himni
ótal litbrigða
skjótra haustskýja
sameinist þið
hátt á lofti

þreytið oddaflug
undan banasárum
og vetrarhörku.

Brátt hljóðandi
á skoskri heiði
langt í fjarska
berast smáfuglar
íslensks sumars
yfir Afríkuströnd
en í sölnuðum móa
sit ég og trega.