yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

 

Í Öxnadal

Um haustvelli liðast svarbláar ár
í hæðum sofa litverpir skógar
vaka hvítbrydd fjöll eftir veðrum
bliknað land svæfir vályndur vetur.

 

Við Blöndu

Sofa svanir við Blöndubakka
sælir í haustró hins kyrrláta straums.
Bára ymur úr djúphafi vetrar
utan við ósa.
Súgur vængja á fölnuðu laufi.
Eitt sumar.
Eitt haust.
Hrafnar skiptast á bæi.
Kona flytur brott.

 

Word Donator

Ég er Word Donator.
Hef verið að gefa orð alla ævi.
Get ekki annað.
Föst þar.
Búr án rimla.
Snerting án viðnáms.
Himinhvolf án jarðbindingar.
Þegar raðast rétt, línan gengur upp
er það eins og samfarablossi.
Ódauðlegt um stundarsakir fer það allt í hjól tímans
að kvarnast þar í öreindir gleymsku.

Ég sé ekki muninn á hjartagjafa og orðagjafa.
Báðir lífsnauðsynlegir.

Held áfram.
Áfram.

 

Blessuð lömbin

Þeir eru komnir
trukkarnir með götum
á ryðguðum hliðum
þeir standa kyrrir
á bensínstöðvum
við sveitavegi
hjá sláturhúsum
frá þeim leggur ugg
hreinræktaða skelfingu
tramp og óð augu
sem horfa út í haustið
gegnum götin
á dauðastíunni
horfa fram á endalok
sumar ei meir
bíða dauðaskots
að höfðum þeirra verði raðað
hyrndum jafnt sem óhyrndum
á bríkur og blóð renni úr strjúpa
líkaminn húðflettur
veginn og metinn
sneiddur seldur

engist yfir að elska
blessuð lömbin og lagðprútt féð

stinga svo hrygg í ofninn.

 

Heim

Líkami minn er húsið
heimili mitt sálin
hugurinn verkfæri

ég er þakklát fyrir líf mitt

þakklát fyrir að hafa sest í
ökumannssæti lífsrútunnar
og þó ég hafi numið staðar
á útskoti til að hvílast
þá er ég á leiðinni heim

ég finn leiðina alltaf aftur
heim er í mínu eigin hjarta
minni eigin sál

ég er heima

 

Regnhlíf

Þegar ég stíg inn á verkstæðið
stara mennirnir á regnhlífina
og ég geri mér ljóst að hér
í þessum bæ við sjóinn
er ekki vanalegt að
fólk gangi um með regnhlífar
jafnvel þótt úrhelli sé
heldur setja menn hér
hettuna kirfilega á höfuðið
og hafa sig álútir í storminum
eftir þeim fáu gangstéttum
sem finnast eða miklu fremur
aka þeir í bílum þegar ekki er
hundi út sigandi.
Það dettur engum í hug
að ganga hér um
í leiðindaveðri
nema aðkomufólki
og útlendingum.
Ég spyr hvort mennirnir hafi
mælt loftið í dekkjunum
og þeir segja hlæjandi að
nú sé sveitaloft í þeim
og það þurfi ekki að mæla
en ég held frekar að
í þeim sé rok.
Með það fer ég og hef
regnhlífina samanbrotna
þennan spöl yfir að bílnum
þó hellirigni.

 

Lífsþrá

Kona með einbeittan vilja til að lifa
röltir um götur Parísar
lætur sig berast fyrir vindi
andar Signu að sér
og fólkinu
borgin ilmar af vori
stendur kjökrandi á safni
framan við mynd eftir Matisse
af konu sem horfir djörf á móti
með frjálsum augum þó föst sé á striga
villist tímunum saman um strætin
táknmyndir hvarvetna vekja forvitni
skynjar dýpt sögunnar
þykkt aldanna
lag fyrir lag
af gömlu Evrópu
Liberté, Egalité, Fraternité, ou la mort!

 

Haust við ána

Á veðurbörðum trébekk ofan við ána
situr hún með lukt augu
drekkur í sig hlýju haustsólar
golan ber vængjuð hljóð anda og lóms
upp frá sindrandi vatnsborðinu
handan við flauminn heyrist óljós mannsrödd
líður burt eins og reykjarslæða
þrusk í lúpínum – „kak kak“
spýta fræjum niður á melinn
þar sem smágerð urðarfjólan
er útvörður sumarsins.

 

Hausthugur

Æðarfuglinn úar
úti á öldunni
gjálfur sjávar
við ryðmálmsbryggju
björgunarhringur
slæst við gálga
í kvöldgjólunni.

Ilmar af hausti
haust í mér
haust í vindinum
hausthugur í fuglunum
söngur þeirra eintóna og langdreginn
sumarástin dvínuð.
Flestir eru flognir
allir nema við
sem ætlum að hafa vetrardvöl
treysta á að okkur leggist eitthvað til.

Senn brimar, hvessir.
Vetrar.
Ég þreyi.

 

Ljós

Ég baða andlit mitt
í sólinni, teyga hana
af hamslausri áfergju
þessa birtu - þessa hlýju
þetta ljós
sem ég reyni að
láta loga hið innra
í kroppnum og sálinni
til að lifa af
í myrkrinu.

 

Sýnisljóð úr ljóðabókinni Áratökum tímans útg. 2018