yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á yrkir.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist.
Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum. 

 

Í sjónlínu við Völkunadd

 

I

sit á kúptum steini í fjöru
hafið er svarblátt og kyrrt

fuglinn úar á lognöldunni
kvöldsól bregður löngum skuggum

goluþytur við eyra
hárlokkur kitlar vanga
dreitill hlýjar hið innra
ég brosi út í kyrrðina

raddir í fjarska
þjóðvegaumferð
þota í háloftum
lóa syngur kveðjustef

haust fer að

 

II

þessir löngu skuggar
ná jafnlangt aftur og lífið

maðurinn er aldrei einn
þó að hann haldi annað

útmörk tilverunnar fjarlæg
og nálæg í senn

tíminn boginn
aðdráttarafl minninganna
sveigir hann að sér
sums staðar svarthol

það sem hæst rís
varpar lengstum skugga

 

 

Við Knarrarós

bogi jarðkringlu hnífskarpur
dreginn svarblár við ljósan himin
þar sem nótt mætir degi
og roðagyllt sól gengur til viðar

við sjónarrönd farskip
selir á útskerjum
undir drynur þungt haf
hvítfextrar öldu

rýkur af þangi í fjöru
rauðar marflær á þönum
hlaupa undan flóði
togkröftum tungls

allt rís
allt hnígur

 

 

Kjarnorkukvíði

ung fór ég vítt um veröld
þjökuð kjarnorkukvíða

við gátum ekki vitað
hvort vöknuðum að morgni

allt undirlagt kaldastríðsógn
stórveldi í störukeppni
atómbombur á vogarskálum
sigurvegarinn myndi einnig tapa

svo velti þúfan Höfði þungu hlassi
heimurinn kyrrðist
kjarnorkukvíðanum létti
menn uppteknari af örbylgjukliði

næstum fjörutíu árum síðar
örvæntum við aftur
yfir því sama
og meiru til

hvernig getum við
verið komin svona langt
en þó svo hræðilega stutt?

 

 

HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.