yrkir titill svhv2019.

Draumar

Draumur 1992
Ég stend ein á heiðinni. Hauströkkrið vefur sig um frostkaldan svörðinn, hann ilmar af horfnum sumardögum og aðvífandi vetri.
Ein. Bíð eftir einhverju.
Skyggnist um, sé aðeins tungl, stjörnur háloftanna og dauft frostglit á lyngbreiðu. Dreg djúpt andann, róleg.
Heyri fjarlægan hófadyn.
Hófadynurinn berst úr öllum áttum, færist smám saman nær og nær.
Í mánaljósinu sé ég útlínur manns og hests og þegar ég lít víðar greini ég fimm hesta, fimm menn. Þeir koma nær. Staðnæmast nokkra metra frá mér og slá um mig hring. Hestarnir ferðlúnir, sveittir og krafsa óþolnir í jörðina. Úr vitum þeirra standa gufustrókar.
Ég sé ekki andlit álútra mannanna á baki hestum sínum en þeir eru íklæddir þykkum skinnklæðum, líkt og þeir séu komnir langt að úr veðrahrjóstri.
Kyrrð. Ég doka.
Að nokkrum tíma liðnum líta mennirnir loks upp og ég greini andlitin. Sný mér hægt í hring og kenni þá með nöfnum, upphátt: Grímur Thomsen, Jónas Hallgrímsson, Páll Ólafsson, Matthías Jochumsson og Benedikt Gröndal. Fimm skáld.
Hví vitjið þið mín?
Skáldin horfa á mig drjúga stund án orða eða gjörða, heimurinn stendur kyrr og augnablikið hverfist í kynngi þagnarinnar.
Jónas kinkar kolli til samferðarmanna sinna, þeir snúa hægt frá mér og ríða burt út í heiðina, hver í sína átt.

 

Draumur 1993
Ég sef vært þegar þú sest á rúmstokkinn, ýtir blíðlega við mér og biður mig að vakna því þú sért í vandræðum og þurfir hjálp. Ég opna augun og verð steinhissa þegar ég sé hver þú ert. Rís upp við dogg og nudda stýrurnar úr augunum. Ósköp ertu annars veiklulegur og þreyttur. Og ég sem hélt að þú værir löngu dáinn! En jæja, og hvað get ég nú gert? Þú segist hafa týnt ljóði. Jahá, ljóði já. Og hvar heldurðu að þú hafir týnt því? Þú veist það ekki, en heldur að það sé í bók einhvers staðar. Ég klæði mig, bið þig að doka við og held af stað í leit að ljóðinu þínu.
Ég heimsæki fjölmarga vini mína og fæ að fara í bókaskápana hjá þeim, fletti þar öllum bókum sem ég finn eftir þig, en ljóðið virðist ekki vera í neinni þeirra. Fer sömu erinda í bókasöfn, án árangurs, leita hófanna hjá mönnum sem ég veit að dá ljóðin þín og lúra á öllum þínum bókum og finn alls ekki þetta einasta ljóð sem þú hefur týnt.
Ég kem til baka, þreytt og vonsvikin og úrræðalaus með öllu. Fleygi mér á stól og segi þér að þrátt fyrir mikla leit hafi mér ekki tekist að finna ljóðið.
Og þó, bíddu nú hægur segi ég, leyfðu mér rétt sem snöggvast að kíkja í minn eigin bókaskáp. Ég á þar nokkrar bækur eftir þig. Fer fram, horfi í hillurnar og dreg út bók. Fletti síðunum – og þarna er það, ljóðið, og ég fer alls hugar fegin með bókina inn og rétti þér.
Þú brosir fjarrænt, tekur um axlir mínar og segir mér að þú hafir vitað þetta allan tímann. Undarlegt, segi ég, hvers vegna baðstu mig þá að leita ljóðsins? Vegna þess, svarar þú, að nú áttu að hætta að sækja vatnið yfir lækinn. Og þú ferð.
Eftir stend ég á miðju gólfi og hugleiði það sem hann vildi kenna mér, þessi óvænti gestur minn, Steinn Steinarr.


Draumur haust 1994
Ég svíf í gráma og sé aðeins eins og þykka þoku. Veit ekki á hverju ég á von. Þá birtist mér vera, í mannslíki, en þó á einhvern hátt öll slétt og einkennalaus, í mismunandi gráum tónum og andlit er mjög óskýrt og án nokkurra sérstakra einkenna. Klædd í beinsniðinn kyrtil. Frá verunni stafar ekki ógn en ég finn að hún á við mig erindi. Án orða hugsar hún á einhvern hátt til mín skilaboð um að ég þurfi að leyfa föður mínum að fara. Ef ég næri sorg mína eftir honum svo ákaflega sem raun ber vitni haldi ég honum föstum og hann komist ekki þá ferð sem hann nauðsynlega þurfi að fara. Veran biður mig einfaldlega um að sleppa og ég hugsa svar til hennar á þá leið að ég skilji hvað hún meinar og muni leitast við að verða við bón hennar.

 

Draumur 1995
Ég liðast um grængolandi sjóinn og mæti hæglátum sæhestum og gáskafullum smáhvelum.
Syfjulegar lúður synda við sandbotninn og þær hafa ljótt augnaráð.
Ég veit ekki af hverju ég er í þessari rökkvuðu, seigfljótandi veröld. Síðast þegar ég vissi var ég miðaldra náttúrufræðingur með báða fætur fasta á jörðinni. Núna er ég miðaldra óljós fisktegund með sterklegan bakugga og sveigjanlegan sporð og veit ekki hvort mér ber að halda mig við botninn eða leita yfirborðsins. Það er reyndar ekki ný spurning ef grannt er skoðað.
Ég óttast að hitta hér hákarla, þeir skelfa mig óstjórnlega. Kannski er upp runnið mitt skapadægur og ég verð að kljást við alla hákarlana sem ég hef flúið kerfisbundið allt mitt líf. Ég rata ekki um þessa veröld og get því hvorki flúið né farið eitt eða neitt. Ég er bara hér á hægu sundi og æfi mig í að nota tálknin mín skrítnu til að fá nóg loft í sundmagann. Það er kalt hérna. Var ég búinn að segja ykkur að ég er með hreistur? Meira að segja skellótt. Og mér gengur nú orðið ágætlega að halda jafnvægi; áðan synti ég mest á hvolfi og það var óþægilegt. Enda er ég lítið fyrir að sjá í tvær áttir í einu og kann ómögulega að vinna úr svo miklum upplýsingum.
Ég heyri ýmis nýstárleg hljóð hérna, en þau koma öll langt að og eru vond fyrir eyrun. Ég er dálítið hræddur, eins og alltaf í nýju umhverfi. Tel víst að ég verði fyrir aðkasti.
Ah, þarna er skíma framundan. Best ég reyni að sporðakastast þangað og vita hvort þetta er ekki gat yfir í mína eiginlegu veröld. Þetta er að verða dálítið þreytandi.
Nú- skíman kemur í áttina til mín. Hm? Það er einhver uggur í mér, vind mér samt í áttina. Æ, nú er ég farinn að sogast hratt í áttina að þessu. Og núna, núna sé ég, ég sé hvað þetta er! Æ drottinn minn dýri, hvað verður nú um mig. Ég horfist í augu við þetta stóra, ógnvekjandi, hræðilega... Hvað viltu mér? Ekki stara svona á mig! – auga...
Ég sogast inn í Hafsaugað.

 

Draumur 2005
Lítil verslun í dagsbirtu. Mannlaus. Allt troðið af matvöru í rekkum. Ég er ungur, stór og stæltur maður. Tígrisdýr í veiðihug kemur allt í einu inn. Haglabyssa í hendi minni. Dýrið eltir mig. Ég skýt á það, legg til þess með hnífi, það nær að særa mig. Brjálæðislegur eltingaleikur, ótti, örvænting. Þó baráttuvilji. Dýrið er mjög grimmt og þolið.
Tekst að hlaða upp fyrirstöðu úr drasli, króa dýrið af inni í búðinni. Við horfumst í augu, vitum að það getur stokkið yfir. Tígrisdýrið er löðrandi í blóði og það hefur minnkað aðeins. Feldurinn er rauðbrúnn og gljáandi af blóðinu og augu þess eru blóðhlaupin.
Ég er að örmagnast. Flý í ofboði út á götu. Er í miðborg Amsterdam, við Leidsestraat, húsin eru kunnugleg, löng og mjó. Það er kvöld, fólk á ferli. Hleyp brjálæðislega til hægri eftir götunni, sé veitingastað opinn og fólk inni. Ryðst þangað inn og sé stiga úr brúnum bambus, mjóan og háan, hleyp upp. Annar stigi, hleyp upp, annar, annar, annar... Kem upp á þak. Þar er brúðkaupsveisla að byrja og margt fólk. Eldri hjón að skoða stóra kassa, lága, með allskyns fiskfangi og fljótandi slori og ég kem með byssuna og hnífinn og veina að morðótt tígrisdýr sé á leiðinni og það verði að fá að éta þetta – það róist þá kannski.
Mér líður hræðilega. Er særður, viti mínu fjær af ótta, en líka á einhvern máta gagntekinn hryggð.
Veit að dýrið er að koma, heyri það á veinum fólks innan úr húsinu. Og það kemur, brjálað, sturlað, sýnir vígtennurnar, en er orðið miklu minna, vantar á útlimi, eyrun skotin af því, feldurinn löðrandi, augun hulin blóði. Það hendist til mín. Snarstoppar, hnusar í átt að fiskinum. Leggst niður. Kyrrt og hreyfingarlaust. Ég nálgast dýrið. Tek það upp og byrja að vagga því í fanginu, örvinglaður. Hryggur. Ólýsanlega hryggur yfir því sem ég hef gert því. Það er svo lítið, sært, en nú leitar það ásjár minnar og vill vera í faðmi mínum og kumrar, helsært. Ótti minn er horfinn en ég er í ofboðslegu uppnámi. Draumurinn endar.

 

Draumur mars 2010
Ég og maðurinn minn stöndum saman og risastór farþegaflugvél stingst á nefið skammt frá okkur. Ég upplifi dauða minn; slysið, og svo ,,ekkert.“

 

Draumur 1. október 2010
Niður af mér ganga dökkrósrauð ,,hrogn“ – samfastir klasar eggja sem hvert um sig er um hálfur cm í þvermál. Ekki sérstakur aðdragandi en tilfinningin var jafnvægi en væg undrun. Líklega tákn um lok míns frjóa skeiðs.

 

Draumur 20. október 2010
Ég heimsæki Helga Hallgrímsson vin minn því að ég veit að hann ætlar í göngu upp á jökla og vil einhverra hluta vegna vita nákvæmlega hvert hann hyggst ganga og hvenær koma til baka. Upplegg göngunnar er rannsókn hans vegna virkjunaráforma.
Sé þessu næst Helga, ásamt manninum mínum, fara fram af árbakka út á þunn ísskæni í jökulá og stikla þau háskalega yfir á hinn bakkann. Þeir komast báðir yfir heilir á húfi en samt var þetta mjög glæfralegt. Umhverfið er Jökuldalurinn, mun mikilúðlegri en hann í raun er, með ógnarfossum, og þeir eru brennisteinsgulir í draumnum. Helgi Hall var á ilskóm, sem mér þótti óheppilegt við þessar kringumstæður.
Mig hefur oft dreymt þennan stað og stundum klifið upp þennan foss í klakaböndum. Það er alltaf mjög ógnvekjandi.

 

Draumur 19. desember 2010
Nálægt Ásbyrgi að sumarlagi verður flóð og fólk lendir í miklum vandræðum. Ég er ungur maður einn á ferð á svæðinu og frétti af ungri stúlku, táningi, sem flóðið hafði hrifið með sér og er nú illa til reika á sandeyri langt úti í Jökulsá á Fjöllum. Miklir áraurar og leir eru áður en komið er að sjálfri ánni. Ég hleyp og hleyp og hleyp, staðráðinn í að bjarga henni. Hef gríðarmikla þörf fyrir að bjarga þessu barni, en vakna áður en það tekst.

 

Draumur annan páskadag 25. apríl 2011
Ofboðslega há íbúðarblokk, 40 hæðir? Skafheiður himinn og skörp sól.
Við fjölskyldan búum á 4. hæð. Hita- og loftræstikerfi er knúið kjarnorku. Það bilar og við þurfum í hasti að fara í lyftunni á ógnarhraða upp á efstu hæð til að forða okkur.
Loftið er úr tæru gleri. Við stöndum þarna inni í tómum híbýlum. Þá verður ofboðslegur jarðskjálfti og háhýsið beinlínis ruggar fram og aftur, þannig að við veltumst fram og til baka, þurfum að hlaupa upp á móti veltunum. Þetta stendur í nokkrar mínútur, við náum að standa gegnum þetta, en upplifunin er gríðarlega raunveruleg og sjokkerandi.
Eftir nokkra stund lít ég út og horfi þá beint ofan á aðra lægri íbúðarblokk með glerþaki. Tveir menn í yngri kantinum, óþekktir, spila badminton inni í þakíbúð þarna, en missa fluguna sína út um opinn glugga. Þar lýkur draumnum.

 

Draumur 10. júní 2011
Er með nokkrum manneskjum úr vinnunni að fara spontant með spánýrri og fínni lyftu upp á 30. hæð í húsi til að njóta útsýnisins. Á 8. hæð fer lyftan að slást til og við verðum hrædd og tökum fast í lóðrétta krómrimla í lyftunni. Svo lagast uppferðin en verður á hinn bóginn mjög hröð. Skyndilega, ca á 25. hæð, fer lyftan svo að hrapa, mjög hratt, skelfileg lofttæmistilfinning, ótti, maginn í hnút, hnúarnir hvítir. Ég er sannfærð um að kremjast, deyja. Beygi mig í hnjánum til að taka á móti skelfilegu högginu. Eitthvað hægir fallið rétt neðst, svo að þó höggið sé mikið, sleppum við/ég lifandi og óbrotin, en lemstruð og í áfalli.
Vont að upplifa fallið, mjög raunverulegt og ótti djúpstæður. Líka mikil undrun yfir af lifa af.

 

Draumur 2011
Síminn hringir. Ég svara og í símanum er ungur maður sem ég þekki ekki. ,,Þú verður að koma á torgið. Núna.“ Hann virðist taugaóstyrkur, hræddur og leggur strax á eftir að hafa flutt mér þessi skilaboð.
Ég lít á vinkonu mína, sem er hjá mér í kaffi og segi henni að ég verði víst að fara, án þess að ég viti hvers vegna, en ég er nógu forvitin til að kanna málið. Hún ákveður að koma með og við tökum bílinn minn og ökum af stað.
Torgið hefur breyst. Þar sem ég staðnæmist á því miðju, sé ég hvíta, háa veggi, sem virðast vera gluggalausar bakhliðar húsa. Veggirnir mynda óslitinn hring að torginu. Hvað varð um götuna sem ég kom eftir? Það er ekkert á þessu stóra torgi, aðeins sólbakaður leirinn, máður af fótsporum. Yfir hvelfist ljósblár himinn og birtan er undarlega sterk.
Með ærandi hávaða, sem skellur af offorsi á hvíta veggina, kemur gamall herjeppi æðandi inn á torgið. Ungur maður er aftan við stýrið, hann baðar út handleggjunum og hrópar eitthvað í angist. Mér sýnist hann vera grátandi. Herjeppinn fer stjórnlaust á einn af hvítu veggjunum. Sprungur myndast í vegginn, þær skríða um hann eins og köngurlóarvefur. Allt dettur í dúnalogn.
Ég gæti að manninum en hann er dáinn. Þögnin er óskapleg. En þegar ég fer að jafna mig heyri ég ofurlítið, mjúkt hljóð. Það kemur frá jeppanum. Ég opna hann að aftan og sé furðulega sjón. Hundruð sexhyrndra kristalla hafa verið hengdir í þræði sem mynda vírnet í þakinu og þar sem þeir stjúkast mjúklega hver við annan myndast ólýsanlega fagur tónakliður. Ég strýk fingrunum laust yfir kristallana, hugfangin af fegurð þeirra. Finn fyrir undarlegri orku, sem leiðir frá steinunum yfir í líkama minn.
Ég heyri rödd. Held að það sé vinkona mín, en hún er þá horfin. Röddin, hún kemur út veggnum – í veggnum koma fram útlínur konu og líka á næsta vegg – og þeim næsta ...
Í fjórum veggjum eru fjórar konur, útlínur þeirra óljósar og hvikular. Þær kalla til mín að koma og ég færi mig nær. Fegurð þeirra er mikil og klæði þeirra síður haddurinn og gagnsætt lín. Þær segja mér nöfn sín og af þeim veit ég að þær munu gyðjur vera.
Gyðjur þessar ráða fyrir örlögum mínum og biðja mig að hlíta þeim skilyrðislaust. Tvisvar enn muni þær birtast mér, en það verði seinna á ævinni. Við svo búið hverfa þær í veggina.
Jeppinn er horfinn, en eftir er gríðarstórt gat á veggnum. Ég gægist út um það og sé langa, hvíta sandströnd og marblátt hafið, svo langt sem augað eygir. Ég fer í gegn og geng á ströndinni, niður undir sjávarmál.
Hafið opnast fyrir fótum mér og myndar göng, þurr og slétt, eftir sjávarbotninum. Ég geng niður á við og horfi á hljóðlaust, litríkt og iðandi lífið í sjónum, líkt og í gegnum glerveggi á hvora hönd. Og allt í einu heyri ég þungan nið radda, lít um öxl og sé að á eftir mér í göngunum koma þúsundir manna, karlmenn, konur og börn, íklædd hvítum klæðum og öll bera þau einhvers konar verkfæri.
Ég bíð enn eftir að gyðjurnar segi mér meira.

 

Draumur 1. júlí 2012
Mig dreymir móður mína, sem lést 24. mars þetta sama ár og var jarðsett 4. apríl. Ég er að undirbúa að kerið hennar verði sett í jörð 24. júlí.
Ég var í vinnunni, en fór þaðan í óskilgreindan kirkjugarð. Þar lá mamma mín á einhverslags börum, eða í grunnri, ljósri kistu, loklausri. Ég settist þarna við og fór að skæla, en þá vaknaði hún eins og af léttum svefni og leit út fyrir að vera á milli sextugs og sjötugs, þ.e. áður en hún veiktist. Mér brá en var þó fljót að jafna mig. Mamma brosti til mín, strauk hendur mínar og andlit og spurði mig hvernig mér og öllum liði. Maðurinn minn var kominn þarna líka en stóð álengdar.
Ég upplifði svo mikinn fögnuð, létti og ástúð vegna þess að mamma var heil og henni leið vel og var létt í skapi. Hún hafði losnað undan sorgum sínum og veikindum.
Ég lagði höfuð mitt í fang hennar, hún var svöl viðkomu en ekki köld. Í ljósrauðbláum kjól og með sitt brúna, liðaða hár. Svo fannst mér eins og stundin væri nú á enda, en við kvöddumst ekki heldur brostum bara hvor til annarrar, eins og við yrðum áfram í sambandi. Ég fór svo aftur í vinnuna og maðurinn minn fór líka á burt.
Ég var í svo miklu uppnámi eftir þetta, svo mikið glöð, en þegar ég ætlaði að segja fólki það í vinnunni var því fálega tekið og ég upplifði sterkt að það væri ekki ,,pláss“ fyrir svona tíðindi inni í líðandi stund.
Þegar ég velti þessum draumi fyrir mér finnst mér að nú myndi mamma vera komin heilu og höldnu ,,yfir“, hvar og hvað svo sem það nú er, í betri stað með fólkinu sínu og pabba. Hún hafi vitjað mín til að láta mig vita að allt væri gott og að ég myndi jarða ösku kroppsins hennar gamla, en ekki hana sjálfa, anda hennar og sál.

 

Draumur 24. mars 2013
Við sonur minn höfðum verið að skoða saman gamlan torfbæ sem þó var með trégólfi og var vandaður bær. Þá kemur ógurlegur jarðskjálfti sem stendur lengi. Við erum hvort í sínu rýminu sem þó eru samliggjandi, kannski 4 metrar milli okkar. Við sjáumst ekki, en getum kallast á. Höggin og sveiflurnar rosaleg. Bærinn stendur þetta af sér, sem má undrum sæta. Við komumst heil út eftir skjálftann.
Þessi draumur kemur nákvæmlega einu ári eftir að mamma mín gaf upp öndina.

 

Draumur 20. júlí 2015
Ég er með manninum mínum í hótelherbergi á jarðhæð, aðrar kringumstæður eru óljósar, nema að aflangir gluggar eru á þrjá vegu og hátt á veggjunum. Herbergið er aflangt, rökkvað og rólegt, föt og skór hér og hvar og opnar ferðatöskur. Ég er í augnablikinu ein í herberginu. Allt í einu virðist síga aðeins vatn inn meðfram gluggunum og ég teygi mig á tá til að horfa út. Sé þá þungan, brúnleitan vatnsflaum síga eða renna allt umhverfis bygginguna og vatnið gjálfrar við neðra borð gluggans, eða við neðsta póstinn. Undarleg sjón sem vakti mér nokkurn kvíða, ekki mikinn þó og alls ekki ótta. En ég velti fyrir mér hvernig þetta myndi fara og hvort við kæmumst heil frá þessu. Straumur vatnsins þungur og ansi ógnvekjandi, en samt á einhvern undarlegan hátt friðsamlegur.
Eftir svolitla stund hjaðnaði vatnið og göturnar voru orðnar þurrar skömmu síðar.

 

Draumur 2016
Mig dreymir að ég hafi þvílíkan niðurgang að allt í kringum mig verður útatað í saur. Mjög vond tilfinning að hafa slíka krampa sem færast einhvern veginn í aukana eftir því sem þeir standa lengur yfir.

 

Draumur 2016
Mig dreymir að ég missi þrjár tennur og það er á einhvern hátt óhugnanlegt og niðurlægjandi.

 

Draumur 2017
Mig dreymir að ég og maðurinn minn fáum samtímis hjartaáfall og deyjum. Ég finn hvernig hjartað mitt hægir á sér, flöktir, missir úr slög, hættir að slá og ég dey. Mjög truflandi og raunveruleg upplifun.