yrkir titill svhv2019.

Á réttri hillu

 

Guðmundur Krukkan hafði fundist á legsteini og var af ókunnum uppruna og alls ekki hérlendur. Hann átti eigið hús en ég var engu að síður beðin fyrir hann svo hann flutti til mín í meðalstóra glerkrukku með smágötóttu járnloki. Þar gaf ég honum nafn, bjó beð af mosa og færði honum salatblöð sem hann nagaði sig gegnum. Einstöku sinnum fór hann í lengri ferðalög, sem hófust í lófa mínum. Þá var hann fyrst grafkyrr í góða stund, svo komu hornin hægt og varlega fram og svo líkaminn allur. Hann rann af stað eftir heitri húðinni alla leið upp á olnboga og skildi eftir sig silfurslóð. Við undum okkur vel um hríð en seint um haustið seig hann fyrir ætternisstapa og lauk lífi sínu í eigin húsi án þess að kveðja. Hann hefur verið mér minnisstæður, þessi litli ókunni snigill sem snerti húð mína og hjarta.

Um tíma var Guðmundur Krukkan á hillunni í sínu glerhúsi og við hlið hans í miklu stærri krukku hunangsflugudrotting sem hafði vaknað fyrst af öllum í miðju páskahreti og verið færð Náttúrufræðistofnun og ég tók að mér að annast hana fram í hlýindi. Ég gaf henni sykurmola og blómknúppa að sjúga og rósablöð að sofa á. Svo voru þarna tveir bláir búrfuglar á sömu hillu og risakötturinn Guðbrandur úr Svarfaðardal sem ég gætti um tíma fyrir langförula vinkonu mændi á þá langeygur. Já, við vorum þarna öll saman á réttri hillu þetta sumar.