yrkir

PIPPIN - kötturinn sem hvarf (saga úr hversdagslífinu)

001
Í myrkrinu utan við húsið heyrist mjóróma vein. Mamma opnar útidyrahurðina og horfir í ískalda snjókomu janúarkvöldsins. Hljóðið utan úr myrkrinu bendir til að þar sé köttur í vandræðum.

„Kis kis, kis kis! Hvar ertu kis kis? Halló!“ kallar mamma lokkandi röddu.
Allt í einu skýst lítil kisa út úr myrkrinu og inn í hlýja forstofuna, nuddar sér ákaft upp við fætur mömmu og horfir á hana biðjandi augum. Þetta er falleg bleik og grá læða með tætta, glitrandi hálsól en ómerkt.
„Æ, greyið,“ hugsar mamma, „kisan ratar ekki heim til sín í myrkrinu og henni er ískalt. Best að bjóða henni að vera í forstofunni í nótt og síðan skánar kannski veðrið og þá ratar hún heim á morgun í dagsbirtunni.“
Lengra fær ókunna kisan ekki að fara inn í húsið, því í stofunni liggur hennar hátign Anganóra af Setbergi, virðulegur heimilisköttur hússins, stór, svört og loðin og sefur. Hún er lítið hrifin af öðrum köttum svo það er best að hin sé ekki að flækjast lengra inn í húsið.

Mamma skilur kisugreyið eftir frammi í forstofu, lokar inn í húsið og fer að sækja kattarmat og vatn til að færa henni. Blessað dýrið er greinilega mjög svangt og borðar matinn upp til agna, leggst niður, teygir sig og sofnar. Settur er kattarsandur í gamalt vaskafat hjá kisu og lokað fram. Anganóra er vöknuð og búin að finna ókunna lykt í húsinu. Hún hnusar óróleg út í loftið og stendur vörð við dyrnar fram í forstofu í smástund en gefst svo upp og fer aftur að leggja sig í hægindastólnum hans pabba.4
Þögn næturinnar breiðist yfir húsið og allir sofa vært.

Næsta dag fer mamma snemma í vinnu og tekur villikisuna með sér út. Kisa trítlar með henni langleiðina í vinnuna en síðan er eins og hún þekki umhverfið því hún tekur stefnuna í aðra átt og hverfur milli húsa án þess að líta við. Mamma á ekki von á að sjá meira af þessum óvænta gesti.

Seinna um daginn eru allir heima. Pabbi heyrir að einhver opnar útidyrnar og bíður eftir að gesturinn komi inn, en því er líkast sem dyrnar hafi opnast af sjálfu sér því það er enginn gestur! Þau skilja bara ekkert í þessu mamma, pabbi og unglingarnir þeirra tveir, Ragga og Máni.
„Getur verið að kötturinn sé kominn aftur?“, spyr Ragga. Hún leitar í forstofunni og finnur kisu litlu þar samanhnipraða í felum bak við grænt stígvél. Fjölskyldan skilur þetta alls ekki því útlit er fyrir að kisan hafi opnað útidyrahurðina sjálf og einfaldlega hleypt sér inn í hlýjuna upp á eigin spýtur. Hvernig sem hún fór nú að því, svona lítil eins og hún er.
„Þessi kisa hlýtur að heita Pippin“, segir Ragnheiður – „þetta er einhver furðulegur ævintýraköttur!“
Ókunna kisan, sem er nú kölluð Pippin, fer í könnunarleiðangur um húsið þvert og endilangt. Anganóra verður þreföld af skelfingu og titrar á beinunum yfir þessu innrásardýri sem valsar um hús hennar eins og frekjudós. Segjast verður eins og er að þó Anganóra sé stór þá er hún með agnarlítið og feimið hjarta.
Eftir skoðunarferðina hreiðrar Pippin um sig í einu herberginu og steinsofnar. Mamma lætur kyrrt liggja og lokar inn til hennar. Um miðja nótt fer hún á kreik og baukar við að opna skúffur og skápa í herberginu, hendir sér síðan á hurðarhúninn þangað til herbergisdyrnar opnast og hún kemst fram í húsið. Þetta er nú meiri gesturinn!

3Fjölskyldan er í vandræðum með þennan kött sem neitar að fara. Þau reyna að loka Pippin úti þegar veðrið skánar en hún fleygir sér á hurðarhúnana þangað til dyrnar opnast eða smýgur inn um opinn glugga. Henni þykja opnir gluggar besta leiðin inn og út, stekkur á sínum löngu mjóu fótum upp í þá og hleypur upp og niður húsveggina eins og ekkert sé. Hún er sannarlega kraftmikill orkubolti!

Anganóra felur sig undir rúmum í húsinu og urrar. Pippin er mikill ærslabelgur og reynir að fá Anganóru til að leika við sig með því að stríða henni. Pippin læðist að henni og reynir að veiða langt og loðið skottið en þá ærist Anganóra og fer hvæsandi enn lengra út í horn.

„Hhhgrrrrri!“ heyrist í henni og gulgræn augun skjóta gneistum.
Fjölskyldan er mjög leið yfir að Anganóra er orðin ein hræðsluhrúga undir rúmi og ákveður að auglýsa út um allt eftir eiganda Pippin. Einhvers staðar hlýtur hann að vera! Þau auglýsa í búðum og dagblöðum, á Fésbók og hjá dýralæknunum en enginn svarar. Erfitt er að skilja að enginn sakni svona duglegrar kisu. Þau hugsa mikið um hvaðan Pippin getur hafa komið. Þessi sprellfjöruga og kröftuga litla læða, dálítið frek en um leið blíð, óörugg og einkennilega hrædd við gamalt fólk með staf. Hún er algjör kelurófa, hringar sig utan um alla í fjölskyldunni og treður sér ekki bara utan á þau hvar sem þau sitja eða liggja heldur líka inn í hjörtu þeirra. Þeim fer að þykja ákaflega vænt um Pippin, þetta óstýrláta kisubarn sem er að gera þau og Anganóru gráhærð með veseninu á sér.

10

Einn daginn eltir Pippin vinkonu Röggu heim og fjölskyldan heldur í smástund að kisan sé stungin af frá þeim eins og hún hefur kannski stungið af frá einhverju öðru heimili. Sagt er að kettir eigi til að flytja sjálfir ef þeim líður ekki vel heima hjá sér. Þeir finni sér einfaldlega nýtt heimili. En nei, Pippin stekkur á útidyrahurðina um kvöldið og er augljóslega búin að ákveða að þetta sé hennar eina sanna fjölskylda, hér vilji hún vera og megi það alveg. Svo leggst hún um hálsinn á heimilisfólki og fær þau öll til að finnast hún dásamleg. Já, þau eru farin að elska þessa kræfu villikisu og næstum venjast látunum í henni.

Allar nætur er Pippin í hörkuvinnu við að opna skápa og skúffur. Hún festir sig stundum á bak við kommóðuskúffurnar eða uppi í fataskápunum og mjálmar þá af öllum lífs og sálar kröftum. Dundar sér við að pota einni kló á bak við eitthvað og togar og togar þangað til skúffan eða skápurinn opnast. Mamma og pabbi finna fötin sín um öll gólf og sokkar og nærföt Röggu og Mána liggja í haugum framan við skápana þeirra á hverjum morgni.
Anganóra er ennþá í kuðli undir rúmi og skelfingu lostin yfir þessu öllu saman. Þau eru hálfsmeik um að hún fari að heiman til að flýja Pippin. Þetta er flókið fyrir fjölskylduna. Merkilegt að ein lítil kisa skuli geta sett allt á annan endann!

5

Húsið er nú umkringt fressköttum sem allir vilja vera kærastar Pippinar og keppa um hana. Gólin hefjast á kvöldin og á nóttinni byrja þeir að slást með ægilegu brambolti og blóðugar hárflyksur fjúka í allar áttir. Mamma og pabbi geta ekki sofið og unglingarnir eru að verða brjálaðir á þessum skerandi ástarkveinum og bardögum allar nætur. Nágrannarnir kvarta. Það er bara ekki svefnfriður!

Enginn kannast við að eiga Pippin eða vill taka hana að sér og fjölskyldan situr því uppi með hana.
Kisur þurfa að fara til dýralæknis og fá sprautað í sig lyfi gegn ýmsum sjúkdómum. Dýralæknirinn merkir þær líka með ofurlitlum stálkubbi og þá er hægt að láta tölvu lesa upplýsingar um dýrið ef það til dæmis týnist. Stundum er líka talið heppilegt að kisur eigi ekki kettlinga og þá getur dýralæknirinn gert aðgerð á þeim.

„Jæja, nú förum við með Pippin til dýralæknisins og látum gera allt sem þarf“, segir mamma og dæsir yfir að eiga ekki nóga peninga fyrir þessu því þetta kostar mikið. „Við verðum bara aðeins að sjá til,“ heldur hún áfram. „Ef Anganóra verður ekki búin að samþykkja nýja köttinn eftir tvo mánuði verðum við að láta Pippin fara annað. Anganóra er okkar húsköttur og gengur fyrir. Og hana nú!“
6Vinir og kunningjar sem hafa fylgst með Pippin-málinu og vita að hún á tíma hjá dýralækninum hjálpa aðeins til með peninga svo nú er ekki eftir neinu að bíða. Fyrr en varir er Pippin komin heim aftur frá dýralækninum, ormahreinsuð, varin fyrir sjúkdómum og fressköttum og merkt. Dýralæknirinn metur af tönnum Pippinar að hún sé ársgömul og þau ákveða að Pippin eigi afmæli 1. apríl. Þetta passar vel því allir eru jafn undrandi á henni og óvæntu aprílgabbi. 

Um vorið býðst fólk í sveit til að taka Pippin að sér. Hún á að veiða mýs í fjósinu á bænum.
„Hún verður örugglega ánægð á sveitabæ, þar er nóg af ævintýrum fyrir hana“, segir mamma en fjölskyldan er döpur yfir að láta Pippin fara á annað heimili. Þau er samt í aðra röndina fegin, Anganóru vegna. Kannski kemur hún núna undan rúminu og tekur upp sitt fyrra líf.
Þegar í sveitina kemur eru hundarnir geltandi eins og óðir á hlaðinu og unglingar að þenja mótorhjól. Hávaðinn er gífurlegur. Pippin verður svo mikið um öll lætin að hún krafsar sig alveg brjáluð af ótta úr höndum pabba og hleypur hraðar en auga á festir eitthvað út í móann.
„Pabbi sjáðu hún er þarna lengst úti á túninu“ segir Máni og bendir á gráan díl sem endasendist áfram og hverfur loks. Feðgarnir og Ragga hlaupa á eftir Pippin og klófesta hana loksins nötrandi ofan í skurði.
Þau hafa ekki hjarta í sér til að skilja Pippin eftir í sveitinni og koma með hana heim aftur. Hún er lengi að jafna sig á þessu ferðalagi, er óörugg og læsir sig með klóm og kjafti utan í heimilisfólkið.
Ragga, sem frá byrjun hefur verið besti vinur Pippinar, er ósköp hnuggin yfir þessu öllu saman og spyr hvort ekki sé bara mál til komið að viðurkenna að Pippin hafi valið fjölskylduna til að hugsa um sig og þannig verði það áfram. Að Pippin verði hjá þeim og þau hætti að reyna losna við hana heldur horfist í augu við að eiga núna tvo ketti, jafnvel þó þeim komi ekki vel saman. Anganóra hljóti að venjast Pippin á endanum.
„Eruð þið ekki alltaf að kenna okkur að vera góð við þá sem eiga bágt og hjálpa ef við mögulega getum?“ spyr Ragga með grátinn í kverkunum. „Á það ekki líka við um þessa kisu?“ spyr hún áfram og mamma og pabbi geta auðvitað ekki annað en viðurkennt að þetta er alveg rétt.
11

Nú þegar fjölskyldan á tvo ketti verður Pippin að læra á lúguna svo hún komist inn og út úr húsinu þó enginn sé heima og gluggar og dyr harðlæst. Lúgan er í rauninni lítil útidyrahurð fyrir ketti og opnast með segulmagnaðri lykilkúlu sem hangir í hálsól kattanna. Anganóra lærði á hana á svona fimm mínútum en Pippin gengur illa að átta sig á þessu. Vill miklu frekar ganga um mannadyr og glugga! En hún verður að læra þetta, heimilisfólkið getur ekki farið að heiman lengur en hálfan dag ef hún kann ekki sjálf að fara inn og út þessa leið. Og hvernig eiga þau að komast í sumarfrí? Í útilegu yfir helgi? Nei þetta gengur ekki. Eins og Pippin er nú fljót að læra allt þá er þessi lúga henni hulin ráðgáta. Margoft stendur pabbi innan við lúguna, mamma fyrir utan og í sameiningu troða þau kisunni fram og til baka um lúguna til að kenna henni og veifa harðfiski eða öðru sem kisum finnst ómótstæðilegt til að fá hana í gegn. Hún lærir þetta á endanum.

14Á meðan fjölskyldan fer í útilegu koma nágrannar einu sinni á dag og gefa Anganóru og Pippin að éta og ferskt vatn að drekka. Pippin eltir nágrannana heim og fer að henda sér á útidyrasnerilinn hjá þeim og bjóða sér inn sjálf meðan hennar eigin fjölskylda er í burtu. Sem betur fer finnst nágrönnunum bara fyndið að Pippin skuli vera svona bíræfin.

15Pippin er snjöll veiðikló og kemur inn með mýs og fugla sem hún er því miður búin að drepa. Anganóra veiðir líka en kemur yfirleitt inn með lifandi gjafir sem hún sleppir og mamma og pabbi handsama þá aftur og setja út. Yfirleitt eru dýrin ómeidd en auðvitað mjög hrædd. Algengt er að sjá mömmu og pabba hlaupandi um húsið með handklæði til að fleygja yfir brjálaða fljúgandi fugla og pönnulok til að klófesta skelkaðar hagamýs. Á ýmsu getur gengið við þessar innanhússveiðar. Þau hjálpa líka köngulóm, járnsmiðum, hunangsflugum og öðrum flugum út heilum á húfi eins og mögulegt er.
Anganóra og Pippin ráða ekki við að veiða mjög stóra fugla og heldur ekki þrestina sem gera sig heimakomna í garðinum frá vori fram á haust og syngja fallega. Þeir eru alltaf með njósnara á verði sem láta vita um hverja hreyfingu kattar. Já eða bara mögulegs óvinar. Það gæti verið mamma að hengja upp þvottinn úti eða pabbi þrammandi á eftir sláttuvélinni yfir grasflötina, Ragga í fótbolta eða Máni í sólbaði. Þegar njósnaþrestirnir sjá Pippin og Anganóru fljúga þeir eins og árásarflugvélar rétt yfir hausinn á kisunum sem læðast lúpulegar í felur með skottið á milli lappanna.
Kettirnir þurfa báðir að hafa trúðakraga um hálsinn meðan ungar fuglanna eru litlir og eru að læra að fljúga. Þetta eru litríkir kragar í skærum litum sem fuglarnir sjá mjög vel og geta þess vegna forðað sér. Anganóra og Pippin líta satt að segja dálítið heimskulega út með kragana en verða þola niðurlæginguna fram í júlí.
8

Fjölskyldan vaknar oft á nóttinni við alls konar skrjáf og dynki því meðan Anganóra sefur alla nóttina á sitt græna eyra inni hjá Mána bak við lokaðar dyr ráfar Pippin friðlaus um húsið og er oft mjög óróleg þó hún hafi nú eignast tryggan samastað þar sem allt gengur sinn vanagang. Eins og hún sé stöðugt að leita að einhverju sem hún hefur týnt. Þau tala oft um hvað þetta er skrítið.99

Stundum kemur fyrir að kisurnar éta fiskinn sinn saman hlið við hlið og þá eru allir voða glaðir. Fjölskyldan vonar heitt og innilega að þær verði með tímanum vinir en ennþá er það þannig að Pippin leikur sér dagana langa inni og úti meðan Anganóra hírist meira og minna úti í horni, enn geðvond og vör um sig.
16

Eitt sumarkvöldið fær mamma Pippin ekki til að koma inn hvernig sem hún kallar á hana. Næsta morgun er hún frávita af áhyggjum og bregður sér út í garð til að svipast um eftir kisu. Mamma heyrir mjóróma kattarvæl úr næsta garði, gengur þangað yfir og leitar í gróðrinum. Hún heldur að Pippin sé kannski meidd og feli sig í háu grasinu. Mamma heyrir í Pippin en sér hana hvergi.

„Pippin! Pippin! Hvar ertu eiginlega kisa mín? Elsku Pippin mín hvar ertu?“ kallar og kallar mamma og fær bara fjarlægt „mvjaaaá“ til baka. Loksins áttar hún sig á hvaðan hljóðið kemur og lítur til himins. Uppi í ægilega háu tré hírist Pippin nötrandi milli tveggja trjágreina, áreiðanlega í átta metra hæð sem er jafnhátt og allavega 4 menn til samans. Hún sýnist vera ósköp hrædd og ein þar uppi. Hefur greinilega vaðið upp tréð í gleði sinni kvöldið áður en þorir ekki niður. Þessi köttur sem þorir öllu og treystir sér svo ekki niður trjástofninn þó svöng sé og hrædd. Jæja, þetta er reyndar mjög hátt tré!

20180527 132219Mamma reynir að kalla Pippin niður, hughreysta hana og hvetja, en hún horfir bara skelfdum augum niður. Mamma hleypur heim og vekur pabba.
„Þú verður að hringja eftir hjálp pabbi, Pippin okkar er föst uppi í voðalega háu tré og kemst ekki niður!“ segir mamma og hringsnýst af æsingi.
Nú eru góð ráð dýr. Lengsti stiginn sem þau eiga er ekki nærri nógu langur. Pabbi hringir í kunningja sinn sem málar hús að utan og á mjög langan stiga. Hann fer á bílnum með kerruna aftan í til að sækja stigann. Á meðan hringir mamma í slökkviliðið eins og hún hefur lesið um í bókum að hægt er að gera og þá komi brunabíll með langan stiga og bjargi kisum í vandræðum og allt endi vel. En slökkviliðsstjórinn er fúll í símann og finnst ekki góð hugmynd að brunalið bjargi köttum í lífsháska. Mamma er ekki bjartsýn á að fá hjálp hjá honum.
Pabbi kemur akandi með stigann í kerrunni og dröslar honum upp í garðinn með hjálp nágranna sem er mættur á staðinn, alltaf tilbúinn til að hjálpa við hvað sem er. Stiginn mjói og langi er lagður að trjástofninum og hann nær næstum þangað sem Pippin er. Ef maður stendur alveg efst í stiganum og teygir sig gæti verið hægt að ná til hennar.

20180527 1353320„Æ ég þori bara ekki að klifra þarna upp, þetta er voðalega bratt!“ kjökrar mamma í öngum sínum og hangir neðst í stiganum. Pabbi reynir líka en líst ekki á að klifra svona hátt í þessum mjóa stiga. En nágranninn góði er í slökkviliðinu og duglegur að klifra. Hann er svo leiður yfir að slökkviliðsstjórinn sinni ekki hjálparkallinu að hann fer sjálfur upp snarbrattan stigann og nær að teygja sig varlega í Pippin, grípa hana og bera með annarri hendi um leið og hann handstyrkir sig varlega afturábak og niður. Það er skjálfandi lítil kisa og fegið mannfólk sem knúsast á jörðu niðri eftir vel heppnaða björgunaraðgerð slökkviliðsmannsins sem fær góðar þakkir fyrir hetjulega björgun.20180527 135850

Í ágúst sér mamma ógurlega úfinn og gulan kött aftur og aftur úti í garði. Hann er stór og styggur, greinilega sársvangur og alltaf að leita að einhverju að éta. Lætur sig hverfa um leið og hann verður var við fólk og þorir aldrei að nálgast húsið. Mamma fer að setja út mat fyrir hann í fjærsta garðshornið og biður síðan félag sem veiðir villiketti í búr og hjálpar þeim að fá gott heimili að hjálpa við að handsama hann. Sá guli lætur narra sig í búrið og verður fjúkandi reiður yfir innilokuninni. Pippin situr makindalega ofan á búrinu og glápir sigri hrósandi niður á fangelsaðan og öskuillan útigangsköttinn þangað til hann er sóttur. Svona er Pippin stríðin.

Fjölskyldan býr sig undir veturinn og kaupir klórutré og nýja leikfangamús til að skemmta Pippin inni þegar veðrið versnar.

13              10

Nú er sagan bráðum öll.

23Pippin varð fyrir bíl um haustið. Hún hljóp út á götuna fyrir bílana sem voru þar á fullri ferð og lenti í bíldekki. Dýralæknirinn var með Pippin í fjórar klukkustundir á aðgerðarborði dýraspítalans en ekki tókst að bjarga lífi hennar og hún dó. Fjölskyldan grét svo sárt og harmaði þessa litlu duglegu kisu sem hafði brotist inn í líf þeirra með gauragangi níu mánuðum áður og hvarf nú jafn skyndilega og hún hafði komið. Mamma sótti Pippin til dýralæknisins, vafði hana í gamla og fallega lopapeysu og pabbi tók henni gröf hjá ungu tré í garðinum. Ragga útbjó fallegt spjald með nafni Pippin og dánardegi og eftir erfiða kveðjustund þar sem mikið var grátið jörðuðu þau Pippin með viðhöfn í garðinum og mamma signdi yfir gröfina og lagði á hana fallegan vönd úr blómagarðinum.

24Allt varð hljótt og tómlegt eftir að Pippin dó. Það er skrítið að vilja lengi að einhver fari en vilja síðan allt í einu að hann fari aldrei. Sólargeisli í sorginni var þó að Anganóra tók gleði sína á ný um leið og Pippin var farin. 

Mamma og Ragga fundu báðar fyrir Pippin og heyrðu líka oft í henni fyrstu vikurnar eftir að hún dó. Hún var inn um allt hús eins og hún vissi ekki að hún væri dáin og rataði ekki strax í kisuhimininn. Þær sögðu stundum í gríni að nú ætti fjölskyldan einn svartan og annan glæran kött, það er að segja ósýnilegan. Svo hættu þær að finna fyrir Pippin þegar veturinn kom og hún fann sér nýtt heimili í eilífðinni.

 

 

 

 

 

 

     Pippin, 01.04.2017-26.09.2018.

98

20180715 213200

 Hefðarkötturinn Anganóra af Setbergi ríkir nú ein að nýju.