yrkir titill svhv2019.

Manneskjusaga - Morgunblaðsviðtal 05.11.2018

Morgunbladsfors 05.11.2018

Morgunbladsvidtal 05.11.2018

MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. NÓVEMBER 2018
Vala Hafstað

Allar bjargir bannaðar

Steinunn Ásmundsdóttir segir að
efniviður Manneskjusögu hafi valið sig

Þetta er saga sem hvíldi á mér og
þurfti að vera sögð,“ segir Steinunn
Ásmundsdóttir um nýútkomna bók
sína, Manneskjusögu, sem er jafnframt
fyrsta skáldsaga hennar, en
áður hafa komið út eftir hana fimm
ljóðabækur. „Þessi efniviður valdi
mig, en ekki ég hann. Ég gat ekki
haldið áfram að skrifa fyrr en ég var
búin að koma sögunni frá mér. Hún
er byggð á sönnum atburðum sem ég
sviðset og því er þetta í rauninni
skáldævisaga.“
Manneskjusaga er ævisaga
Bjargar, sem ættleidd er af hjónum í
Reykjavík. Frá barnæsku glímir hún
við félagsfælni og einelti og finnst
hún stöðugt utanveltu í þjóðfélaginu
– bæði í skólanum og í fjölskyldunni.
Um fermingu krefst hún þess að fá
að hitta blóðföður sinn, en eftir að
hafa dvalið hjá honum um tíma úti á
landi á hún sér ekki viðreisnar von.
Við taka ár geðröskunar, fátæktar
og vonlausrar baráttu við kerfið.
Bókin lýsir ekki aðeins þjáningum
Bjargar heldur einnig fjölskyldu
hennar, í þjóðfélagi sem veitir engin
úrræði.
„Björgu er aldrei gefið tækifæri í
samfélaginu. Hún glímir við einhverja
röskun sem enginn kann að
mæta eða vinna með á þessum tíma,
mögulega einhverfu,“ segir
Steinunn. „Sem barn hefði hún þurft
að fá hjálp til að fóta sig, og ekki síður
sem ung kona sem búið var að
brjóta niður. Ljótasti karlinn í sögunni
er tíðarandi þessa tíma.“
Steinunn viðurkennir að ákveðin
kaldhæðni sé í vali hennar á nafni
aðalpersónunnar, Bjargar. Hún er
manneskja sem allar bjargir eru
bannaðar.

Björg fæddist 1959. Hugsar
þjóðfélagið okkar betur um slíka einstaklinga
í dag?
„Í dag fæst bæði sjúkdómsgreining
við ýmsum röskunum og meðferð.
Nú er fórnarlömbum kynferðisofbeldis
heldur ekki útskúfað og þau
fá andlegan stuðning. Það er líka
hægt að ræða þessa hluti núna sem
enginn minntist á í þá daga. Þöggunin
var alger. Margt hefur breyst
til hins betra en auðvitað er þjóðfélagið
í dag langt í frá fullkomið í
þessu sambandi.“
Steinunn er sannfærð um að bókin
eigi erindi við marga:
„Ég er viss um að Manneskjusaga
ratar til sinna. Þetta er saga sem
margir geta speglað sig í sem hafa
þekkt einhvern eins og Björgu.“
Steinunn fæddist í Reykjavík
1966. Um þrítugt settist hún að á
Egilsstöðum, þar sem hún stofnaði
fjölskyldu og vann sem blaðamaður
og ljósmyndari Morgunblaðsins í
tæpan áratug. Hún ritstýrði síðan
héraðsfréttablaðinu Austurglugganum
um skeið, en lagði fjölmiðlastörf
á hilluna fyrir nokkrum árum
til þess að einbeita sér að ritstörfum.
Og andagiftin lætur ekki á sér
standa. Í fyrra gaf hún sjálf út ljóðabókina
Hina blíðu angist, sl. vor kom
út eftir hana ljóðabókin Áratök tímans,
bók 70 ljóða, og nú Manneskjusaga.

– Það er stórt stökk að fara frá því

að yrkja ljóð og yfir í að skrifa skáldsögu.
„Sem blaðamaður er ég alvön að
skrifa texta, en það sem hræddi mig
mest við skáldsöguna var að skrifa
trúverðug samtöl. En þegar upp var
staðið reyndist mér það létt. Ég fer
yfirleitt burt til að skrifa, fæ lánuð
mannlaus hús í sveitinni, hef ekki
samband við neinn og einbeiti mér
algerlega að skrifunum. Ég aftengi
mig öllu og sökkvi mér niður í skrifin.
Það sem ég þurfti að passa upp á
fyrst og fremst var að textinn hefði
innra samhengi og flæddi vel. Ég
skrifaði bókina í nokkrum áföngum
og textinn streymdi til mín.“

– Hvað varð til þess að þú ákvaðst

að einbeita þér að ritstörfum?
„Ég þurfti að hægja á mér, hætta
að hlaupa uppi fréttir í heilum landsfjórðungi,
frá hálendi til strandar,
bæði til að bjarga anda mínum og
finna út hvort ég gæti ennþá sett
mig í samband við rithöfundinn
innra með mér. Einu sinni var ég
ungt Reykjavíkurskáld, en það er
ekki hægt að vera ungskáld endalaust
og því gekk ég á hólm við sjálfa
mig til að fá úr því skorið hvort ég
ætti enn eitthvað inni í skáldskapnum
og svo reyndist vera. Þegar
ljóðabókin Áratök tímans kom út í
maí voru liðin 22 ár frá því seinasta
ljóðabókin mín kom út. Ég gaf
reyndar sjálf út lítið ljóðakver í
fyrra, sem eru minningar frá dvöl
minni í Mexíkó. Það er mikil ánægja
í því fólgin að finna að mér hefur
tekist að koma þessari tengingu við
skáldgyðjuna á aftur.“

– Stefnirðu að því að skrifa fleiri

skáldsögur?
„Ég er strax komin með frumdrög
að næstu skáldsögu og ég held áfram
að yrkja ljóð. Satt að segja verður
mér allt að ljóði. Ég viðra stundum
ljóðin á vefsíðunni minni, Yrkir.is,
áður en ég gef þau út. Í vetur ætla ég
svo að skrifa barnabók. Hún valdi
mig, en ekki ég hana, rétt eins og var
með Manneskjusögu. Ég ætla að
skrifa það sem eftir er ævinnar. Það
gerir mig hamingjusama.“