yrkir titill svhv2019.

Bryndís Pétursdóttir

F. 22.09.1928, d. 21.09. 2020.

„Dísa systir“ – þessi tvö orð ómuðu öll mín uppvaxtar- og fullorðinsár þar til fyrir skömmu og hljómur þeirra bar vitni um mikla elsku Ragnhildar móður minnar í garð litlu systur sinnar. Duglegu litlu systur sem hafði brotist úr viðjum og gert garðinn frægan.
Á þeirra tíma vísu þótti hæfilegt að synirnir og elsta dóttirin gengju menntaveginn, ekki voru efni til annars. Miðjudótturinni móður minni þótti áberandi vænt um að Dísa hafði fylgt hjartanu og valið sér vettvang á sviði leiklistarinnar sem mátti í þá daga segja að væri jafnvel nokkuð utan alfaraleiðar fyrir unga stúlku úr sveit.

Allt frá því að Dísa valhoppaði lítil hnáta um grundir á Vattarnesi við Fáskrúðsfjörð í stórbrotinni austfirskri náttúru og horfði til hafs á Skrúðinn, var þessi knáa manneskja að sækja á og feta nýjar slóðir. Hún umbreytti sér úr sveitabarni í siglda og þenkjandi borgardömu. Yfir henni var tíguleg ára heimskonunnar, hún var Grace Kelly litlu Reykjavíkur; sveiflaði ljósgullnum makkanum svo sígarettureykurinn þyrlaðist í allar áttir og lagaði faldinn á glæsilegum tískukjólnum, alltaf elegant og vakti athygli hvar sem hún fór. Hún vann hug og hjörtu leikhúsgesta sem leikkona sem sópaði að frá fyrstu senu og vann einnig um hríð sem flugfreyja í árdaga millilandaflugs landsmanna. Hún var fyrsta íslenska kvenfilmstjarnan og lék í alls kyns leiksýningum, kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpsleikritum fram á efri ár.Haft var eftir henni í viðtali að starfsdagur hennar gæti verið þannig að þegar hún væri búin að koma börnunum í pössun í býtið mætti hún á æfingu í leikhúsinu miðmorguns og væri að þar fram á miðjan dag. Þá tæki jafnvel við æfing á útvarpinu síðdegis, hún færi svo heim til að elda kvöldmatinn því maður hennar vildi að hún gerði það sjálf og síðan væri leiksýning langt fram á kvöldið (Heima er bezt, 3,1957). Þetta hefur verið meiriháttar álag og togstreita, ekki síst á þessum tíma. Þau Bassi heitinn, Örn Eiríksson, áttu glæsilegt heimili þar sem andríki, samræða og menning skipuðu öndvegi. Í minningunni var þar aldrei lognmolla og synir Dísu og Bassa, þeir Eiríkur, Pétur og Sigurður hafa borið andríkið áfram í sínu lífi, hver á sinn hátt.

Dísa þekkti alla sem skiptu máli, þá sem voru á stóra sviðinu og fyrst og fremst skapandi fólk með hugsjónir og eldmóð sem lagði meginlínurnar í menningarlífi og arfleifð okkar þjóðar. Hún tók drjúgan þátt í þeirri uppbyggingu og var skapandi og starfandi alla tíð.
Ég var satt að segja dauðhrædd við Dísu frænku þegar ég var barn. Mér fannst hún svo glæsileg og ósnertanleg, jafnvel af öðrum heimi. Hún færði mér framandi hluti, leðurvöru og silfurskart frá suðrænum löndum, sem heillaði mig upp úr skónum. Henni fylgdi langoftast klingjandi hlátur og léttur þytur, ilmvatnsangan, flýtir. Hún var ákveðin í tali, dvaldi ekki við það sem henni þótti ómerkilegt, lokaði málefnum með konkret yfirlýsingum og þar með búið. Ég hafði ekki roð í að tala við hana. Ekki fyrr en ég var komin til vits og ára og áttaði mig á að hún vildi viðnám, hafði visst gaman af orðaskylmingum og þá fundum við snertiflöt sem varð grunnur að áralangri hlýju og kærleika á milli okkar.

Mamma mín sagði mér margt um líf þeirra systkina fyrir austan fram til ársins 1933 og við Dísa dvöldum þar gjarnan í samræðum okkar síðustu árin og skemmtum okkur hið besta. Hún elskaði Fljótsdalshérað með sínu Gunnhildargerði í Hróarstungu og austfirsku firðina fögru, upprunastaðurinn var einstakur og bjartur í hennar huga.

Þessi fastastjarna á himni mínum er nú hnigin til viðar, síðust af systkinum sínum, daginn fyrir nítugasta og annað afmæli sitt. Heiðruð og blessuð sé minning hennar. Ég votta frændum mínum og fjölskyldum mína dýpstu samúð.

 

 

Bryndís Pétursdóttir leikkona lést 21. september 2020, tæplega 92 ára að aldri. Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára.
Bryndís Pétursdóttir leikkona lést sl. mánudag, 21. september, tæplega 92 ára að aldri.
Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára. Foreldrar hennar voru Pétur Sigurðsson, bóndi og vitavörður, og Guðlaug Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri.
Bryndís gekk í Verzlunarskóla Íslands en fór 16 ára í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og útskrifaðist þaðan. Hún steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu 18. nóvember 1946. Hún sté fyrst leikara á svið í vígslusýningu Þjóðleikhússins sem Guðrún í Nýársnóttinni.
Í Þjóðleikhúsinu lék Bryndís uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir ef frá eru talin nokkur leikrit hjá Leikfélagi Reykjavíkur auk þess að taka þátt í leikriti hjá Leikfélagi Akureyrar. Á yngri árum fór Bryndís á sumrum í margar leikferðir um landið.
Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið eru Rósalind í Sem yður þóknast, Helga í Gullna hliðinu ('52 og '55), Sybil í Einkalífi, Sigríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikollinum, Ismena í Antígónu Anouhils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Doris í Brosinu dularfulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Charles í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eftir syndafallið, Vala í Lausnargjaldi, Enuice í Sporvagninum Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998.
Bryndís lék einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Hún fór m.a. með aðalhlutverk í fyrstu íslensku talsettu kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.
Eiginmaður Bryndísar var Örn Eiríksson loftsiglingafræðingur, hann lést 1996. Synir þeirra eru Eiríkur Örn, Pétur og Sigurður. 22. september 1928 Hún lést 21. sept. 2020. Útför hennar fór fram 1. október 2020.