yrkir titill svhv2019.

Ragnhildur Pétursdóttir - minning

F. 6. september 1922, d. 24. mars 2012


Um yndisblítt sumar í Þjórsárdal árið 1943 hittust foreldrar mínir í fyrsta sinn. Ásmundur í hópi starfsbræðra í sumarferð lögreglunnar og Ragnhildur með vinkonu sinni. Þessi fallegu ungmenni dönsuðu saman í tvö skipti og svo skildu leiðir. En pabbi gat ekki gleymt yngismeynni Ragnhildi og orti: “Aldrei mun úr minni líða / mynd af stúlku, með lokka síða, / undurfagra og augun blá. / Allt var fasið unaðslegt að sjá. Eins og æskan yndislegust / þessi engill birtist mér, / björt og frjáls og kvenna fegurst, / með fjallailm í hári sér.“
Mamma bjó þá á Bergstaðarstræti 70 með foreldrum sínum. Brátt skaut ungum og prúðmannlegum lögregluþjóni upp í götunni, Guðlaugu ömmu minni til sárrar armæðu því hún vildi ekki sjá pilta í júníformum sniglast í kringum sínar dætur. En eigi má sköpum renna og næsta töfrastund mömmu og pabba varð í Bernhöfsbakarí þarna í grenndinni. Fyrir jól voru þau trúlofuð og gift 1. júlí árið eftir. Þau gengu svo götuna saman ætíð síðan, uns pabbi dó 1994 eftir langvinn veikindi.

Líf þeirra saman var fallegt og umhyggjan mikil. Þau voru heimsborgarar í hjarta sínu og elskuðu fagrar listir af öllu tagi, fylgdust grannt með heiminum umhverfis og ræktu fólkið sitt nær og fjær vel og innilega. Þau sigldu þó síður en svo lygnan sjó og drjúgum hluta þeirrar ókyrrðar ollu m.a. börnin þeirra, hvert á sinn máta. En þeir reikningar eru auðvitað löngu jafnaðir og þegar upp er staðið áttu þau bæði innihaldsríkt líf, gáfu mikið af sér til annarra og skilja eftir sig arfleifð í góðu fólki og minningum.

Við mamma vorum mikið saman eftir að pabbi lést fyrir 18 árum og hún var langdvölum hjá okkur Þorsteini fyrir austan eftir að ég flutti til Egilsstaða 1996. Svo fór að hún flutti til okkar snemma árs 2003 og bjó með okkur vel á þriðja ár. Við nutum öll góðs af því og ekki síst ömmubörnin hennar tvö, Ásmundur Máni og Ragnheiður, sem hún þreyttist ekki á að syngja og leika við. Þegar þarna var komið sögu eirði heilabilunin engu og svo fór að hún innskrifaðist á alzheimersdeild Sjúkrahússins á Seyðisfirði, þar sem hún bjó í sjö ár, til dauðadags. Þar hafði hún bjarta og rúmgóða stofu með sína stásshluti og naut svo takmarkalausrar gæsku og umhyggju starfsfólksins alls að mér verður einfaldlega tregt um tungu þegar ég leita nægjanlega sterkra orða til að lýsa því. Við þekktum orðið hverja gangstéttarhellu á Seyðisfirði á linnulitlum gönguferðum okkar um þann fallega bæ og einatt stóðum við og horfðum til hafs og þögðum saman, eða fengum okkur kaffi og tertubita á Öldunni og nutum mannlífsins. Þau ár voru yndæl, en svo hrakaði heilsunni og þá nutum við bara lífsins eftir bestu getu innandyra í staðinn.

Hún mamma mín útskrifaðist úr þessari jarðvist södd lífdaga. Hennar drjúga dagsverki var lokið og hún kvaddi virðulega eins og hennar var alltaf háttur. Hún var bjargvættur minn og birta, kennari minn og kærasti vinur. Þó ég unni henni vel hvíldarinnar sakna ég hennar sárt og mun alltaf gera. Vertu kært kvödd mín ástkæra og fallega móðir.

 

Ragnhildur Pétursdóttir fæddist 6. september 1922 á Hjaltastað í Hjaltastaðarþinghá, Fljótsdalshéraði. Hún lést á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar 24 mars 2012.
Foreldrar Ragnhildar voru Guðlaug Sigmundsdóttir, f. 19.4. 1895 í Gunnhildargerði, Hróarstungu, N.-Múl., d. 26.10. 1988 og Pétur Sigurðsson, f. 8.1. 1888 að Hjartarstöðum, Eiðaþinghá, S.-Múl., d. 24.2. 1955. Systkini Ragnhildar eru Sigríður, f. 18.8. 1918, d. 8.3. 1968, Sigrún, f. 13.3. 1920, d. 19.4. 1971, Inga Margrét, f. 8.5. 1921, Einar, f. 2.11. 1923, Rós, f. 6.6. 1925, Bergur Eysteinn, f. 8.12. 1926, d. 13.9. 1970 og Bryndís, f. 22.9. 1928.
Ragnhildur giftist 1.7. 1944 Ásmundi Matthíassyni frá Patreksfirði, f. 30.7. 1916 á Vatneyri, d. 21.5. 1994 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðbjörg Steinunn Guðmundsdóttir frá Patreksfirði og Matthías Pétur Guðmundsson frá Tungu í Tálknafirði. Börn Ragnhildar og Ásmundar voru Haukur, f. 9.9. 1949, d. 4.11. 2008, Guðlaug, f. 15.1. 1959, d. 19.10. 2008 og Steinunn, f. 1.3. 1966. Haukur var kvæntur Ástu Huldu Markúsdóttur, f. 19.2. 1949 í Reykjavík. Börn þeirra eru Markús Hörður, f. 29.11. 1974 og Ragnhildur, f. 9.7. 1976. Sambýliskona Markúsar er Bríet Ósk Guðrúnardóttir, f. 13.5. 1980 og eiga þau dótturina Sölku Sól, f. 18.5. 2008. Bríet Ósk á fyrir dótturina Sigrúnu Hönnu, f. 24.9. 1999. Þau búa á Spáni. Ragnhildur er gift Óla Rúnari Eyjólfssyni, f. 21.2. 1977, og eiga þau börnin Jasmín Ástu, f. 28.5. 2001 og Eyjólf Snæ, f. 7.10. 2006. Þau búa í Danmörku. Haukur átti einnig soninn Brand Daníel, f. 10.2. 1990, búsettur í Kópavogi og er móðir hans Kristín S. Brandsdóttir. Börn Guðlaugar eru Kolbrún Dögg Sigmundsdóttir, f. 28.10. 1986, búsett í Reykjanesbæ, Eva Dögg Héðinsdóttir, f. 2.10. 1989, búsett í Borgarnesi og Ástrós Sveina Birgisdóttir, f. 18.11. 1992, búsett í Reykjavík. Kolbrún Dögg á drengina Gabríel Þór, f. 22.6. 2003, Sigmund Þór, f. 30.8. 2005 og Baltasar Óðin, f. 16.9. 2007, alla Sigurmundssyni. Eftirlifandi eiginmaður Guðlaugar er Loftur Sigdórsson. Steinunn var á árunum 1999-2019 gift Þorsteini Inga Steinþórssyni, f. 7.12. 1968. Börn þeirra eru Ásmundur Máni, f. 15.8. 2000 og Ragnheiður, f. 25.7. 2002.
Ragnhildur flutti til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni árið 1933 og giftist Ásmundi Matthíassyni, lögregluþjóni og síðar aðalvarðstjóra í Reykjavík, árið 1944. Þau bjuggu lengst af á Háaleitisbraut 71. Ragnhildur var að mestu heimavinnandi, en um níu ára skeið var hún einnig verslunarstjóri. Þau hjónin áttu fagurt og traust heimili þar sem alltaf var gestkvæmt, ferðuðust mikið innanlands og fyrr á árunum einnig erlendis. Þau stunduðu menningarviðburði og ræktu fólk sitt af umhyggju og virðingu. Ragnhildur var í áratugi félagi í Oddfellowreglunni og gegndi þar trúnaðarstörfum, líkt og maður hennar. Hún brá búi og flutti til dóttur sinnar og tengdasonar á Egilsstöðum árið 2003. Árið 2005 vistaðist hún til frambúðar á alzheimersdeild Sjúkrahússins á Seyðisfirði, þar sem hún naut sérstaklega góðrar umönnunar og hlýju til dauðadags.
Útför Ragnhildar var gerð frá Kópavogskirkju 4. apríl 2012.

 Ath. að þessi samantekt var gerð árið 2012 og hefur ýmislegt breyst síðan, þ.á.m. fæðst börn inn í fjölskylduna.

https://gunnhildargerdi.com/