yrkir titill svhv2019.

Brúðkaupsljóð

Á brúðkaupsdag Ragnhildar og Óla
hinn 27. maí anno 2000


Ástin;

blikandi úthaf draumsins um volduga bylgju
lífsþorsta og ástríðna,

viðkvæmur gróandi vonarinnar
um tilgang og vernd,

margsaga eilífðaralda
sem brimar við sendna strönd veruleikans,

snemmsprottinn söngur hjartans
um einingu tvístraðra anda.

Ástin;

svo umlykjandi og trú sjálfri sér
í óstýrilæti sínu og hamsleysi,

brothætt í ólgandi röst tímans
þar sem við mannsbörnin velkjumst,

fögur og ómælanleg guðsgjöf gleðinnar,
kærleikans og trúnaðartraustsins.

Þessi er lífsins gjöf, ástföngnu hvítu svanir.
Þenjið nú vængi á kvikum vindum ástar ykkar
og varðveitið fjöregg hennar í hjartans ranni.