yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á yrkir.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist.
Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum. 

 

Tálmar von

Drepsótt og jarðeldar
andlitslaust fólk
þunglyndi og sjálfsmorð
náttúruhamfarir
þjóðflutningar loftslagsflótti
efnahagsleg óáran
hryllingur og ótti

en samt vaknar fífill
af vetrardúr
við húsvegg í Breiðholti
og samt gleðst ég
yfir sólgulu höfði hans
bæði teygum við
ljósið og vonina.

 

 

Hraunungi
efni skírdags 2021

Hrjúfur og ómótaður
hvílir þungur í lófa
steinrunninn hraunklepri
svargrábrúnn
ber með sér forneskju
frumstæða og framandi.

Er þó alveg nýr
runninn frá möttli
móður jarðar
fyrir fáum dægrum
- hraunungi
gerður af fljótandi kviku
sjóðandi eimyrju
vellandi um gosop
á Reykjanesskaga.

Skírður af eldi
bakaður, brunninn
hrár og óveðraður
í senn forn og nýr
frumefni og framtíðarland.

Hvílir þung í lófa
sending úr iðrum jarðar
umbreytingin sjálf
hinn raunverulegi heimur
orku og efnis
þungur, hægur
í órofa deiglu
skiptir stöðugt
um ásýnd.

 

 

HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.