yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

 

Högg smiðanna

 

Högg smiðanna berast í morgunkyrrðinni
vélaniður leggst yfir sólbaðaðan húsagarð
og fólk tínist úr dyrum og hverfur til vinnu
í fyrra var þetta stóra hús í niðurníðslu
en hefur nú hlotið umönnun fagmanna
nýja skjái, tréverk, múrhúð og málningu
finn beinlínis hvernig húsið réttir úr sér
og gengur stolt í endurnýjun lífdaga
ég stend á svölum og horfi yfir í skóginn
þrátt fyrir sóttkví má taka þar göngu
kuldi er í lofti enda haust aðvífandi
kvíði hvorki því né hinum langa vetri
meðan þetta sterka hús skýlir mér
þó ég þrái nú þegar vorið á nýjan leik

hvernig skyldi heimur verða að vori?

 

 

 

Ómar af fiðluleik

Þegar ég flutti hingað
var það ekki síst fiðluleikurinn
úr næstu íbúð
sem sefaði ótta minn

kliðmjúkir tónar
æfðir endurtekið
settu exótískt hvolf
yfir endurskapað líf mitt

Ég segist hafa keypt
fiðluleikarann með íbúðinni
til að ná andanum.

 

 

Fóstur

Sumar

fóstrar dýragras á bala
þetta lágvaxna blóm
með sinn djúpbláa lit
teyga guðsblámann
að varðveita í hugskoti
langt fram á vetur

fóstrar spor mín á öræfum
hvar hálendisurt mætir
sandi og bruna
vatn ryðst frá jöklum
lænur úr glompum

fagra blíða sumar

fóstrar ilmríkan móa
vængjaþyt fugla
rósama öldu
andvara
allt sem ég elska

̶  von mína.

Ekkert meira glænýtt eins og stendur en HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.