yrkir titill svhv2019.

Hákarl

Ég stíg út úr bílnum á hlaðinu við kirkjuna um nónbil. Teygi úr mér eftir langa ökuferðina og horfi út yfir Borgarfjörð eystri lygnan og svalspakan líkt og Bakkagerðisþorpið sem kúrir hér við ysta haf. Það er töfrandi í sumarblíðunni á sinn snaggaralega hátt en á til að vera nöturlegt þegar vetrarveður og sjógangur eru búin að lemja á því þannig að gluggahlerar og varnargarðar mega sín lítils.

Meðan ég virði fyrir mér hina alíslensku timburkirkju sem er heiðarleikinn uppmálaður í látleysi sínu rennir annar bíll í hlaðið en leggur þeim megin á stæðinu sem íbúðarhús standa. Út úr bílnum svippar sér maður við aldur, þrekinn og veðraður en einhvern veginn léttur á sér eins og sumargolan. Hann brosir til mín þvert yfir malarstæðið og kemur í humátt að mér svo ég geng til móts við hann, kann ekki við að látast ekki sjá hann þó ég hafi erindum að gegna við kirkjuna. Hún verður að bíða ögn.

Maðurinn kynnir sig með nafni og þéttu handarbandi og við tökum upp rabb um daginn og veginn. Hann kveðst búa í húsinu því arna á bak við sig og hafi verið að koma frá að kaupa sér hákarl. Fiskar í þeim orðum plastdall upp úr vasa brúna ullarjakkans sem hann klæðist, losar fimlega með gildum, vinnulúnum fingrunum upp plastlokið og otar öskjunni að mér. Býður mér að gjöra svo vel að fá mér, þetta sé hreint öndvegis hákarl, já sá besti í landinu og afbragðsvel verkaður og kæstur. Því miður sé þó dálítil nál í bitunum svo hákarlinn sé kannski ekki eins bragðsterkur og best verði á kosið. Þetta er augljóslega maður sem hefur tímann fyrir sér og vill félagsskap ef þess er nokkur kostur.

Nú er ég í vandræðum. Vegna þess að bíllinn er þrælmerktur dagblaðinu sem ég vinn fyrir sem blaðamaður og ég á mikið undir að eiga góð samskipti við heimafólk get ég ekki verið þekkt fyrir að hafna þessu kostaboði. Að segja eins og er að ég beinlínis hati hákarl og muni sjálfsagt detta niður dauð ef ég reyni að smakka á þessum skíthvítu, fingurþykku bitum sem mara ókræsilegir í boxinu. Ég get ekki annað en þegið bitann, heiður minn og blaðsins er í húfi. Brosi þess vegna mínu blíðasta og segi að auðvitað jafnist ekkert á við almennilegan hákarl nema ef vera skyldi brennivínið sem helst þurfi með honum og næli mér með framboðnum tannstöngli í bita. Legg hann á tunguna og bý mig undir að æla yfir manninn. Lyktin er af ammóníaki og áferðin í munninum eins og hvelja, sleip og seig. Mér bjargar að bitinn er freðinn og ég get kyngt honum sæmilega heilum án þess að hann skilji eftir sig mikinn viðbjóð í munni mínum.
Eins og á hinu árlega þorrablóti líður mér óttalega kjánalega yfir að geta ekki borðað hákarl svo sómi sé að, ekki síst vegna þess að forfeðurnir lifðu með hákarlsáti af alls kyns harðindi. Hákarlsáts formæðra mun þó að engu getið í sögu landsins og ég feta í fótspor þeirra hvað þetta varðar.

Borgfirðingurinn, sem sannarlega er enginn lognhattur, otar aftur að mér öskjunni en nú er ég búin að standa mína plikt og virða hans kúltúr. Ég afþakka pent og spyr um gæftir til að beina athygli mannsins eitthvað annað. Hann gefur svo sem ekkert út á þær, veiðin hafi verið dræm og smábátasjómenn lepji dauðann úr skel. Hann býður mér enn bita, ég færist undan og ber við annríki, nú verði ég að drífa mig. Ég slepp þó ekki því nú þarf að sýna mér refinn undir húsveggnum, lokaðan inni í vírnetsbúri svo fólk geti skoðað hann í návígi. Honum verður kannski sleppt í haust, nú eða lógað, það fer eftir duttlungum fangavarðarins. Þangað til bíður rebbi örlaga sinna þarna í búrinu og börn góna á og pota í hann með löngum grasstráum sumarlangt.
Þegar ég hef upplýst hverrar ættar ég sé og hvað ég ætli að sýsla í þorpinu kveðjumst við og ég geng til kirkju, fjöðrum fengin að hafa komist með óskaddað mannorð frá hákarlsmálinu.

Kirkjan er yndisleg, gamaldags og í henni er kalt og góður ilmur af timbri, fólki og bænum. Ég fikra mig upp brattan fjalastigann á kirkjuloftið og set mig þar niður á trébekk. Dreg djúpt andann og tek inn helgi og kyrrð sem aðeins þerriflugur suðandi á gluggunum sólarmegin rjúfa. Altaristaflan, erindi mitt í þetta guðshús, blasir við mér á veggnum ofan við altarið; altaristaflan sem hinn valinkunni og ástsæli listmálari Jóhannes Kjarval málaði árið 1914 að beiðni kvenfélagsins á staðnum. Slíkt var auðsótt mál þar sem hann var uppalinn á Borgarfirði og ævinlega kallaður Jói í Geitavík af heimafólki.
Kjarval kaus að gera fjallræðu Jesú Krists, einhverja frægustu ræðu heimsins, að yrkisefni og staðsetja hana í heimasveit sinni. Málaði Krist standandi efst á klettaborginni Álfaborg þar sem sjálf álfadrottning Íslands ku búa, Dyrfjöllin glæstu í baksýn eins og opna gátt yfir í eilífðarríkið og íbúa Borgarfjarðar og nærsveita sveipaða bláum og rauðum kyrtlum við fóskör meistarans að hlýða á boðskapinn í morgunsólinni.

Ég hef lengi ætlað mér að grandskoða og skrifa um þetta merkilega málverk sem hefur verið umtalað frá upphafi. Meðal annars gekk lengi sú flökkusaga að kirkjan hefði litið töfluna illu auga þar sem ekki þótti boðlegt að borgfirskur almúgi þekktist á myndverki af þessu tagi, hvað þá að Kristur sjálfur stæði í venjulegri íslenskri sveit og þar ofan í kaupið í salarkynnum heiðinnar álfadrottningar. Þá var ekki sama Jón og Séra Jón og er ekki enn á okkar dögum. Verður sjálfsagt aldrei.

Nú stend ég upp, fikra mig niður stigann og geng inn eftir að altaristöflunni til að skoða hana nákvæmlega. Hún er einkennilega falleg og afskaplega heiðrík eins og kirkjan sem geymir hana. Aldrei fór svo að austfirskt sveitafólk gæti ekki verið í beinu sambandi við ljós heimsins hvað sem ergelsi hinna innvígðu kirkjunnar manna leið. Hvað er þó meira viðeigandi en að gera heimafólkið að sjálfum efnivið og jafnvel rekavið kærleikans?
Biblían segir að í fjallræðunni hafi Kristur kennt að ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ og fleiri spekingar, uppreisnar- og andans menn hafa fyrr og síðar boðað sömu kenningu með misjöfnum árangri. Kristnin vill þó ævinlega eigna sér heiðurinn af henni eins og öllum fjandanum öðrum þó hliðstæður finnist meira og minna í öllum trúarbrögðum og allt endi í sama guði.

Ég sest á fremsta bekkinn til hægri við predikunarstólinn og hugleiði gleðilegan og að mér finnst alveg eðlilegan jöfnuð Krists og Borgfirðinga. Sem íslensk, hvít, gagnkynhneigð manneskja frá ríku landi á norðurhveli jarðar á 21. öldinni hef ég ekki fundið mikinn ójöfnuð á eigin skinni, nema þann sem felst í að vera kona í karlægri tilveru og á því hef ég rótgróna óbeit. Þó á ég atvik í minni mínu sem kenndi mér í einni svipan að líta alla menn jafna.
Þetta átti sér stað við Signubakka í París þegar ég var á sautjánda árinu og hafði lent á tali við glæsilegan ungan mann frá Malavi sem stundaði nám í kvikmyndagerð við háskóla í borginni. Við ákváðum að setjast inn um miðaftansleytið og fá okkur kaffi. Ungi maðurinn gaf nærstöddum þjóni merki, kurteis í bragði og vildi panta. Þjónninn, hvítur karl á miðjum aldri á svörtum kjóljakka, lést ekki sjá okkur. Eftir mikið en árangurslaust pat og bendingar gaf ég loks merki til þjónsins og það var eins og við manninn mælt, hann kom að borðinu og tók niður pöntunina frá mér. Þóttist þó ekki skilja hvað sessunautur minn pantaði uns ég endurtók það og fór við svo búið. Afgreiddi svo veitingarnar á borðið til okkar heldur snúðugt. Eftir kaffidrykkjuna og ánægjulegt spjall vildi ungi maðurinn gera upp og fór að afgreiðsluborðinu. Enginn vildi taka peningana hans og lyktaði heimsókninni á þetta veitingahús við Signu þannig að ég borgaði reikninginn og var auðsótt mál.
Þarna var ágætum manni sýnd purkunarlaus andúð og vanvirðing, væntanlega einungis vegna þess að hann var svartur en ekki hvítur. Þetta varð mér geysileg lexía og ég hef oft velt vöngum yfir þessu síðan.

Um tíma hélt ég að árangur væri að nást í auknu siðviti og að þjóðir heims myndu fagna fjölbreytileika mannlífsflórunnar fremur en að hræðast hann. Ég held að þvert á móti fari eðlilegum mannréttindum um víða veröld hrakandi, ekki síst vegna ótta og sérhagsmunagæslu. Eins og í altaristöflumálum þeirra Borgfirðinga og staðsetningu Jesú á Álfaborginni er á þjóðavísu ekki sama hver er þegar kemur að litarhætti, kyni, uppruna, þjóðfélagsstöðu, kynhneigð, heilbrigði, atvinnu, trú, stjórnmálaskoðun og þar fram eftir götunum. Ójöfnuður nær nýjum hæðum og of fáir taka mark á hinum mögnuðu orðum fjallræðunnar um jöfnuð og náungakærleika.

Þá dettur mér í hug þarna í Bakkagerðiskirkjunni önnur altaristafla sem líka olli úlfúð en það var mynd Ófeigs Jónssonar bónda á Heiðarbæ í Þingvallasveit af síðustu kvöldmáltíð Jesú áður en hann var hengdur upp á krosstré fyrir að hafa skoðanir. Hana smíðaði bóndinn og málaði með heimagerðum litum á fjórða áratug nítjándu aldar og gaf kirkju sinni. Sem er ekki endilega í frásögur færandi nema af því að hann setti hangikjötslæri á borð fyrir hinn heilaga og lærisveinana og hefur þótt góðmeti. Einhverjum sveitungum Ófeigs þótti síðar af og frá að hægt væri að bera slíka fæðu fyrir sjálfan Krist, seldu töfluna ferðalangi á tíkall og fengu sér aðra danska og meira viðeigandi fyrir kristindóminn. Altaristafla Ófeigs, sem er undurfalleg í einfaldleika sínum, komst svo aftur fyrir eitthvað kraftaverk í Þingvallakirkju og hangir þar við hlið hinnar dönsku en skör lægra og til hliðar við altarið.
Kjarval hefði kannski þótt við hæfi að setja hákarl á kvöldverðarbakkann í stað hangikjöts og raðað Þingvellingum til borðs með Jesú, hver veit. Eins og mannssonurinn sagði og raunar sonur minn einnig þá er enginn betri en annar, en ekki verri heldur og þetta vissu bæði Kjarval og Ófeigur þó almennt skorti töluvert upp á þann skilning meðal mannkyns.

Þegar ég geng fram marrandi kirkjugólfið og er byrjuð að setja sögu altaristöflunnar saman í grein í höfðinu opnast fremri hurðin. Asískur ferðamaður stingur gljásvörtum kollinum inn fyrir og skimar varfærnislega um þessi vé mannjöfnuðar og náungakærleika. Við kinkum kolli og brosum þegar við mætumst í fordyrinu.