yrkir titill svhv2019.

Inga Margrét Pétursdóttir Langholt - minning

F. 08. 05. 1921, d. 29. 07. 2014


,,Jæja, nú ætlar Inga systir að koma upp og vera svolítið!" segir mamma mín Ragnhildur með blik í auga og óhamda gleði í röddinni, um leið og hún leggur tólið á gamla gráa snúrusímann inni á gangi. Rís á fætur og byrjar vafningalaust að skipuleggja móttökurnar, matseðilinn, skemmtidagskrána og okkur pabba út og suður í alls konar verkefni... Og allt gengur þetta eftir, en heiðríkastir eru morgnarnir sem þær systur sitja í eldhúsinu á Háaleitisbrautinni og tala út í eitt, hlæja hjartanlega alveg frá tám og upp í hvirfil, brynna ef til vill músum yfir því sem var erfitt og vont, en mest og best ferðast þær á harðaspretti gegnum minningabankann, allt frá öndverðu og framúr.

Svo drífur fólkið að; Dísu og Rós og Einar, Möggu og Þóreyju og alla afleggjara, frændur og frænkur, náskylt og fjarskylt. Hellt upp á meira kaffi, hlaupið í búrið eða frystinn að ná í meira bakkelsi til að traktera mannskapinn með. Húsið bólgnar út af hamingju og hlátrasköllum og faðmlögin eru þétt og tjá væntumþykjuna og djúpan söknuðinn eftir þeirri sem býr handan við hafið; í Ameríku.
Seinna er farið í bíltúr, kannski til Þingvalla, eða bara í Hafnarfjörðinn: ,,Nei sjáðu þarna er komið nýtt hverfi, en heyrðu þetta var ekki þarna þegar ég kom síðast, mikið andsvíti er þetta ljótt," eða ,,ja þetta er nú fallegt, sjáum til."

Sum okkar hafa gegnum tíðina farið til Seattle að heimsækja Ingu frænku, nokkrir oftar en aðrir og eru þá umsetnir forvitnum ættingjum þegar heim er komið, sem þurfa að fá fréttir. Því þó hún hafi verið fjarverandi í marga áratugi er hún alltaf nákomin, alltaf með, hennar er ævinlega saknað. Stórfjölskyldan nötrar blátt áfram af ánægju þá sjaldan hún kemur ,,upp."
En nú kemur Inga frænka ekki framar ,,upp" nema til Guðs síns og hún gaf fyrirmæli um að hún skyldi jarðsett í Ameríku. Hún hvílir í minningu okkar sem elskuðum hana og dáðum þó legstaður hennar sé fjarri.

Hún var þessi rammíslenska kjarnorkukona, hnarreist, klár, orðheppin og fyndin með afbrigðum, þótti vænt um fólk alveg inn að beini og reyndist því sem klettur. Það var mikið í hana varið og hún var sannarlega eitt af magnaðri eintökum Gunnhildargerðisættar og er þó þar af töluverðu að taka.

Vertu kært kvödd og af djúpri virðingu, elskulega móðursystir mín sem ég hitti sjaldan en í hvert skipti mikið og vel. Nú er ein leiðarstjarnan á ættarhvelfingu okkar bliknuð, en við búum að fallegu og góðu fjölskyldunni þinni sem býr vestra. Samúðarkveðjur sendi ég þeim öllum.

 

Inga Margrét Pétursdóttir fæddist að Litla-Steinsvaði í Hróarstungu 8. maí 1921. Hún lést í Seattle í Bandaríkjunum 29. júlí 2014.
Foreldrar Ingu voru hjónin Guðlaug Sigmundsdóttir, f. 19. apríl 1895, d. 26. október 1988 og Pétur Sigurðsson, f. 8. janúar 1888, d. 24. febrúar 1955. Systkini hennar voru Sigríður, f. 18. ágúst 1918, d. 8. mars 1968, Sigrún, f. 13. mars 1920, d. 19. apríl 1971, Ragnhildur, f. 6. september 1922, d. 24. mars 2012, Einar, f. 2. nóvember 1923, d. 5. október 2012, Rós, f. 6. júní 1925, Bergur Eysteinn, f. 8. desember 1926, d. 13. september 1970 og Bryndís, f. 22. september 1928.
Inga giftist 19. september 1960 Benedikt Ágústi Elíassyni, f. 20. mars 1920, d. 17. desember 1998. Sonur þeirra er Elías, f. 31. mars 1948, hann kvæntist 30. desember 1967 Esther Reykdalsdóttur, f. 25. mars 1948, d. 31. október 1991. Þeirra börn eru Benedikt Ágúst, f. 31. maí 1968, Inga Fanný, f. 17. febrúar 1970 og Elías Reykdal f. 4. mars 1972. Kona Elíasar er Ana Lilia Langholt.
Inga ólst upp í foreldrahúsum, en fór síðar í fóstur að Sleðbrjóti í Jökulsárhlíð til móðursystur sinnar, Bjargar, og Stefáns Sigurðssonar. Þar var einnig um tíma bróðir Ingu, Eysteinn. Inga hugsaði ætíð hlýtt til dvalar sinnar að Sleðbrjóti og fylgdist vel með fréttum af fólkinu þaðan og úr Hlíðinni.
Inga flutti síðar til Reykjavíkur en þangað hafði fjölskyldan flutt. Inga lauk námi í kjólasaumi og varð kjólameistari. Hún flutti síðan á Akranes og bjuggu þau Benedikt þar uns þau fluttu til Seattle árið 1960. Í Seattle vann Inga fyrst við sauma og viðgerðir á fatnaði. Síðar fór hún að vinna sem þerna á Hilton-hótelinu í miðborg Seattle og var þar yfirþerna í mörg ár. Inga lét af störfum á hótelinu árið 1990 og fór að annast tengdadóttur sína og barnabörn í veikindum Estherar.
Heimili Ingu stóð öllum opið sem þangað leituðu og fjölmargir Íslendingar dvöldust þar um lengri eða skemmri tíma. Eins voru barnabörn hennar þar tíðir gestir með sín börn.
Útför Ingu fór fram í Seattle þann 7. ágúst 2014 en minningarathöfn í Kópavogskirkju 14. ágúst 2014.

 

https://gunnhildargerdi.com/