yrkir titill svhv2019.

Einar Pétursson - minning

F. 2. nóvember 1923, d. 2013


Einar frændi minn Pétursson var svo sannarlega perla í mannhafinu. Maður fylltist einhverri óútskýrðri vellíðan nálægt honum og heilindin og rósöm hlýjan í fasi hans, að maður tali nú ekki um kankvískt blik augnanna, fylltu vitundina og voru kjarngott veganesti út í þann daginn og meira til.

Alveg frá því ég var hnáta í heimsókn með foreldrum mínum hjá Einari og Siggu, man ég eftir frænda sem einhverjum sem maður treysti skilyrðislaust og gat kinnroðalaust verið maður sjálfur nálægt. Það er ekki svo lítið. Seint líður úr minni þegar Einar kom austur í Egilsstaði til okkar fyrir nokkrum árum og umvafði Rænku systur sína svo yndislega; þarna sátu þau gömlu systkinin hlið við hlið, héldust í hendur og ferðuðust saman um liðinn tíma og viðburði í sögu stórfjölskyldunnar. Og faðmlag hans og handtak var þétt og hlýtt þegar hann kvaddi mömmu mína og okkur heimafólkið.

Einar var vænn maður og valmenni, veik hvergi þegar kom að því að axla oft á tíðum ægiþungar byrðar tilverunnar en kunni jafnframt að njóta augnablikanna og gleðjast meðal góðra. Hann skilur eftir sig myndarlegan arf í fólkinu sínu, sem einnig eru fagrar perlur, hvert á sinn hátt.

Far í friði elskulegur frændi minn. Minning þín geymist við hjartarætur.

 

 

Einar Pétursson húsasmíðameistari og kaupmaður fæddist á Hjaltastað í Eiðaþinghá 2. nóvember 1923. Hann lést á dvalarheimilinu Grund 5. október 2012.
Foreldrar hans voru Pétur Sigurðsson frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá og Guðlaug Sigmundsdóttir frá Gunnhildargerði í Hróarstungu. Systkini Einars: Sigríður f. 18.8. 1918, d. 8.3. 1968; Sigrún, f. 13.3. 1920, d. 19.4. 1971; Inga Margrét, f. 8.5. 1921; Ragnhildur, f. 6.9. 1922, d. 24.3. 2012; Rós, f. 6.6. 1925; Bergur Eysteinn f. 8.12. 1926, d. 13.9. 1970 og Bryndís, f. 22.9. 1928.

Kona Einars var Sigríður Karlsdóttir, f. 24.11. 1928, d. 8.10. 2001. Foreldrar hennar voru Karl Haraldur Óskar Þórhallason og Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir . Börn Einars og Sigríðar: 1) Pétur, lögfræðingur, fv. flugmálastjóri, f. 4.11. 1947, var kvæntur Arndísi Björnsdóttur, f. 26.8. 1945. Þau skildu. Börn þeirra: a) Signý Yrsa, f. 5.1. 1969, maki Grétar Símonarson, börn þeirra Pétur Geir, Símon Brynjar og Birta Rún. b) Sigríður Hrund, f. 12.1. 1974, maki Baldur Ingvarsson, börn þeirra Kolbeinn Sturla, Starkaður Snorri og Styrmir Snær. c) Einar, f. 19.4. 1978, dóttir hans og Rósu Maríu Sigtryggsdóttur er Emilía Rós.

d) Arndís, f. 2.1. 1982, sambýlismaður Hálfdán Ólafur Garðarsson, börn þeirra Garðar Darri, Arndís Magna og Hrafnkell Þorri. Pétur er kvæntur Svanfríði Ingvadóttur, f. 4.12. 1955, og eru hennar börn Stefanía Tinna E. Warren, og Sindri Steinarsson. Með Önnu Wolfram á Pétur Þórunni, f. 29.10. 1967. Hennar börn eru Anna Hildur, hennar barn Þórunn, Gabríela, Atli Már, Ólöf Rún og Jóhannes Torfi. Pétur á með Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigríði Theódóru, f. 8.8. 1985, Jóhönnu Vigdísi, f. 29.1. 1996. 2) Sigríður Björg, skrifstofustjóri hjá SORPU b.s., f. 21.3. 1952, maki Skúli Jónsson, f. 26.3. 1950. Börn þeirra, Inga Rós, f. 27.2. 1976, maki Pétur Kristjánsson. Börn þeirra, Íris Björg, Anton Ingi og Margrét Rós. Jón Pétur, f. 1.7. 1982, sambýliskona hans er Auður Benediktsdóttir. 3) Þórhalli húsasmíðameistari, f. 12.8. 1961, maki Guðný Tómasdóttir, f. 8.1. 1957. Barn þeirra er Berta Guðrún, f. 8.8. 1985, sambýlismaður Hannes Rúnar Herbertsson, þeirra barn, Þórhalli Leó, fyrir átti Guðný Bryndísi Ásmundsdóttur, f. 1.3. 1974, maki Ragnar Þórðarson, þeirra börn Viktoría Von og Ásþór Sigur. Ásgeir Arnar Ásmundsson, f. 17.4. 1979, sambýliskona hans Íris Ósk Guðmundsdóttir, þeirra börn Árný Alda, Guðný Kristín og Dagný Lilja.

Einar nam húsasmíði undir handleiðslu Guðbjarts Jónssonar húsasmíðameistara. Árið 1949 hlaut hann réttindi húsasmíðameistara og starfaði sem slíkur í fjölmörg ár. Árið 1966 hóf hann verslunarrekstur ásamt eiginkonu sinni Sigríði og ráku þau verslanirnar Björk(Siggubúð), Lúnu og Heimilismarkaðinn en verslunarrekstri þeirra lauk 1982.

Einar starfaði innan bindindishreyfingarinnar (IOGT) og var virkur félagi í reglu Musterisriddara, Heklu, í Reykjavík.

 

https://gunnhildargerdi.com/