yrkir titill svhv2019.

Aðalheiður Pálína Sigurgarðsdóttir Hólm Spans - minning

F. 20. september 1915, d. 27. ágúst 2005


Ég stóð á járnbrautarstöðinni í Utrecht í Hollandi einn fagran sumardag árið 1982, af því að Ásmundur Matthíasson faðir minn hafði sagt mér að ég yrði að hitta Aðalheiði Hólm frænku okkar að vestan, sem búið hefði í Hollandi í mörg ár. Hún væri svo merkileg og skemmtileg manneskja. Og sem ég stóð þarna og beið, kom hjólandi til mín á svörtu Möwe-reiðhjóli kona, sem leit hreint ekki út fyrir að vera tæplega sjötug, kynnti sig sem Heiðu og bauð mér að setjast á bögglaraberann, því hún ætlaði að reiða mig heim í Selvasdreef. Með viðkomu á blómamarkaði komumst við heilar í höfn á hjólinu hennar Heiðu ásamt dúsíni af gladíólum og mér var boðið inn að hitta Holla, eiginmann frænku minnar. Móttökurnar voru höfðinglegar. Þær voru líka svo hlýjar. Þetta fólk, sem ég hafði aldrei séð fyrri, umfaðmaði mig með gæsku og kátínu, áhuga og skilningi. Og þar með hófst vináttusamband sem hefur átt ríkan þátt í að koma mér til manns.

Aðalheiður var lærimeistari minn þegar ég var yngri, og hetjan mín þegar ég eltist. Hún kenndi mér að vera forvitin um öll svið tilverunnar, að víkka sjóndeildarhring minn í gegnum bókmenntir og heimspeki og gerði mér ljóst gildi samræðunnar. Í rúm tuttugu ár áttum við sterkan vinskap í gegnum heimsóknir mínar til Hollands og heimsóknir hennar og þeirra hjóna til Íslands, í gegnum sendibréf og óteljandi millilandasímtöl. Ég var alltaf jafn hrifin af því hversu hugur Heiðu var sterkur og leitandi og dáðist að gáfum hennar og lífsþrótti. Jafnvel eftir að Parkinsonsveikin tók að herja á líkama hennar. Hún hvatti mig til einbeitni í lífinu og að mýkja tilveruna með kímni og samhygð. Heiða hafði sterka réttlætiskennd, leitaðist eftir að ræða við ungt fólk til að skynja straum samtímans og lagði fram til hins síðasta einatt í ævintýraleg ferðalög hist og her um heiminn til að kynna sér menningu og ný sjónarmið.

Faðir minn og Heiða voru þremenningar, hún frá Tálknafirði og hann Patreksfirði. Ég fann alltaf hversu sterkar rætur Heiða hafði á Íslandi og hversu innilega vænt henni þótti um landið okkar og tungumálið. Síðasta samtal mitt við hana var fyrr í sumar. Þá sagðist hún sakna andblæsins að vestan, þrunginna lita hins íslenska sumars og tungumálsins. Hún var þreytt í sinni og sagðist vilja hvílast.

Heiða mun ætíð eiga sér stað í hjarta mínu sem minn einkar kæri og sanni vinur og lífskennari. Ég hef sagt það oft og segi það enn, að ég mun leitast við að lifa af sama þrótti og hún gerði, leggja mig fram um að skynja samtíma minn í tíma og rúmi og njóta þess að eiga góða samferðarmenn.
Ég bið Holla vini mínum*, börnum þeirra Heiðu og barnabörnum blessunar í framtíðinni.

 

Aðalheiður Pálína Sigurgarðsdóttir Hólm Spans (Heiða Hólm) fæddist á Eysteinseyri við Tálknafjörð 20. september árið 1915. Hún lést í Utrecht í Hollandi 27. ágúst 2005. Foreldrar hennar voru Viktoría Bjarnadóttir frá Tálknafirði, f. 25. febrúar 1888, d. á sjötta áratug síðustu aldar og Sigurgarður Sturluson frá Vatnsdal, f. 14. maí 1867, d. 26. mars 1932. Systkini Aðalheiðar voru Guðrún, Bergþóra, Laufey, Gunnar, Bjarnveig, Bjarni og Ásgeir.
Árið 1944 giftist Aðalheiður Wugbold Spans, f. 19. nóvember 1915, fv. loftskeytamanni og upplýsingafulltrúa við Háskólasjúkrahúsið í Utrecht í Hollandi. Börn þeirra eru Viktoría, f. 4. maí 1942, Sturla, f. 25. nóvember 1947 og Pieter, f. 17. ágúst 1949. Barnsmóðir Sturlu er Josee, f. 27. maí 1949 í Hollandi. Börn þeirra eru Sten Snorri, f. 16. janúar 1979, Salka Sterre, f. 1. júlí 1980 og Jón Hendrik, f. 29. janúar 1983. Eiginkona Pieters er Elisabeth Eelkje, f. 2. júní 1948 í Hollandi. Börn þeirra eru Berber, f. 16. maí 1980, Gunnar Jasper, f. 14. október 1981 og Bjarni Wugbold, f. 2. júlí 1984. Aðalheiður ólst fyrstu árin upp á Tálknafirði en flutti til Reykjavíkur á unglingsárum. 18 ára gömul stofnaði hún ásamt öðrum konum Starfsstúlknafélagið Sókn. Hún var fyrsti formaður félagsins og árum saman fylkti hún liði með því fólki sem barðist fyrir mannsæmandi lífi íslenskrar alþýðu á kreppuárunum. Árið 1946 flutti Aðalheiður til Kempen í Hollandi með Wugbold manni sínum og Viktoríu dóttur þeirra, en lengst af bjó fjölskyldan í borginni Utrecht. Heimili Aðalheiðar og Wugbolds var alla tíð opið þeim Íslendingum sem leið áttu um Holland vegna náms eða starfa og var þeim gjarnan lagt lið við hvaðeina. Á heimili voru frjó hugsun og merkingarmiklar samræður einatt hafðar í hávegum. Aðalheiður var einn stofnenda Vinafélags Íslands og Hollands. Þorvaldur Kristinsson ritaði endurminningar hennar í bókinni Veistu ef vin þú átt, og kom hún út árið 1994. Aðalheiði var veitt Hin íslenska fálkaorða fyrir störf sín í þágu íslenskra verkakvenna fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld og aðstoð við Íslendinga í Hollandi.
Útför Aðalheiðar var gerð frá bálfararstofu Den en Rust í Bolthoven, Hollandi, 1. september 2005.

* Wugboldt Spans f. 19. nóvember 1915, d. haust 2005.

 

Aðalheiður Hólm Spans
20 OCT 2018 · HULDUFÓLK FULLVELDISINS
Fjallað um Aðalheiði Hólm Spans, frá Eysteinseyri við Tálknafjörð. Sólveig Þorbergsdóttir listakona og kennari, Jakobína Hólm systurdóttir hennar, Jón Kristinsson arkitekt og Þorvaldur Kristinsson rithöfundur segja frá henni. Umsjón: Margrét Blöndal.